miðvikudagur, febrúar 28, 2018

Tveir mánuðir í einum léttum pakka

Janúar þótti óvenju langur í ár, náði langt fram í febrúar og því verður litið á þessa tvo mánuði sem eina heild í þessari samantekt á fréttnæmum atburðum.

Nokkur mál sem hafa komu upp eða höfðu verið umdeild um nokkra hríð og deilum um þau hvergi nærri lokið.

Umskurðarfrumvarpið
Sennilega mótast afstaða þjóðkirkjunnar (þ.e. biskups og þeirra presta sem hafa tjáð sig um umskurðarfrumvarpið) ekki síst af ótta við að verði frumvarpið samþykkt og þ.a.l. bannað að marka ósjálfráða börn eftir trúfélagi foreldra sinna, verði næsta mál á dagskrá að banna fermingar innan átján. Hér á blogginu hefur verið skrifað um umskurðarfrumvarpið (1,2,3) og verður fylgst áfram með málinu.

Fiskeldi
Deilum um laxeldi í sjókvíum er hvergi nærri lokið og þetta bar hæst.
Landssamband veiðifélaga mótmælti áformum um 20.000 tonna fiskeldi í Eyjafirði.

Að mati sambandsins sé óforsvaranlegt með öllu að ráðast í stórfellt sjóeldi á allt að 10 milljónum laxa í svona búnaði í námunda við helstu laxveiðiár Norður- og Austurlands. (RÚV)
Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi og sex veiðiréttarhafar í við Ísafjarðardjúp kærðu útgáfu Umhverfisstofnunar á starfsleyfi fyrir Arctic Sea Farm. Stofnunin gaf út leyfi fyrir 4.000 tonna ársframleiðslu á laxi og regnbogasilungi í opnum sjókvíum í Dýrafirði.

Ingi Freyr Vilhjálmsson, skrifaði um laumuspil með förgun eldislaxa þar sem hann segir að á fjórða hundrað tonna af eldislaxi hafi verið urðuð í jörð. Og að megnið af þeim 400 tonnum af fiski sem var hent komi úr laxeldinu.
„Um 20 prósent eldislaxa í sjókvíum drepast áður en hægt er að nýta þá til manneldis. Laxinum er fargað eða hann er nýttur í framleiðslu afurða eins og fiskimjöls. Leynd ríkir um afföll og förgun eldislaxa hjá stærsta laxeldisfyrirtæki Íslands, Arnarlaxi.

... Miðað við framleiðslu á eldislaxi á Íslandi er þessi tala, um 400 tonn, ekki há en til að mynda framleiðir Arnarlax, stærsta laxeldisfyrirtæki á Íslandi, 9.700 tonn á ári og er þessi heildartala af urðuðum fiski því einungis rúmlega 4 prósent af þeirri tölu. 
Talan um urðaðan fisk úr íslensku laxeldi segir hins vegar ekkert um hversu mikil afföll eru í laxeldinu hjá fyrirtækjum eins og Arnarlaxi þar sem yfirleitt er gengið út frá því að afföll í laxeldi séu um um 20 prósent af framleiðslunni. 

... Miðað við þá tölu um afföll sem almennt er stuðst við í laxeldinu ættu afföllin hjá Arnarlaxi að vera um 2.000 tonn á ári og er því ljóst að einungis hluti þess fisks er urðaður hjá Sorpurðun Vesturlands miðað við tölurnar frá fyrirtækinu.“ 

Um svipað leyti birtist frétt um að verð á eldislaxi hafi lækkað um þriðjung
Hlutabréf í norsku fiskeldi hafa lækkað og laxeldisfyrirtæki í Færeyjum hefur sagt upp 147 starfsmönnum af 300. Er ástæðan sögð minnkandi eftirspurn eftir eldislaxi en lækkandi verð á laxi hefur rýrt afkomu fyrirtækisins.

Þetta bítur þó ekki á bjartsýnismenn á Íslandi, samanber forstjóra Arnarlax: „Okkar framtíðaráætlanir í laxeldi eru alls ekki byggðar á þeim verðum sem við sáum árin 2016 og 2017. Við sem höfum starfað lengi við laxeldi erum vanir því að sjá verðið sveiflast upp og niður. Við megum ekki gleyma því að sögulega séð er verðið enn þá mjög hátt,“ bætir hann við.
Á móti má benda á að einu sinni fóru allir að stunda minkaeldi - svo féll verðið vegna minnkandi eftirspurnar - og þá fóru fjölmargir á hausinn — er verið að setja kvíar í alla firði og lofa fólki vinnu sem er ekki stabíl?

Gagnrýnt hefur verið að eftirlit með fiskeldi sé verulega ábótavant. Í febrúar urðu tvö óhöpp hjá Arnarlaxi. Skemmd varð á sjókví í Tálknafirði og gat kom á sjókví í Arnarfirði. Ekki voru allar eftirlitsstofnanir látnar vita af óhöppunum. Arnarlax lofar að tilkynna óhöppin framvegis.

Rúmlega 50 þúsund dýr drápust í umsjá Arnarlax þegar óhappið varð í Tálknafirði. Dýraverndunarsamtök Íslands gagnrýna þauleldi eins og þetta og segja velferð fiskanna virta að vettugi.
„Við höfum áhyggjur af fiskeldi á Íslandi út frá dýravelferðarsjónarmiðum. Við verðum aldrei vör við að velferð fiskanna sé rædd," segir Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands. „Nú er uppi barátta milli fiskeldismanna og frístundaveiðimanna án þess að velferð fiskanna sé höfð að leiðarljósi, aðeins hagsmunir, yfirráð og peningar.“ 

Það er vert að lesa pistil Stefán Snævarrs sem skrifar frá Noregi um spillingu þar í landi tengdu laxeldinu. 

„Mér skilst að norskt fiskeldisfyrirtæki hyggist hefja stórfellt fiskeldi í Eyjafirði. Í því sambandi ber Íslendingum að líta ögn á stöðu mála í norsku fiskeldi. Laxalús, ættuð frá eldisfiski, er sögð eyðileggja norsk rækjumið. Tvö norsk dagblöð, Morgenbladet og Dagbladet, hafa haldið því fram með réttu eða röngu að bullandi spilling sé í norska fiskeldinu. Embættismenn sitji beggja vegna borðsins, eigi hlutabréf í fiskeldisfyrirtækjum en eigi um leið að sinna fiskeldinu í krafti embættis síns. Vísindamenn sem rannsaki fiskeldisfisk séu beittir þrýstingi til að fá niðurstöður sem hæfi fiskeldisfyrirtækjunum. Enda eru rannsóknirnar að allmiklu leyti fjármagnaðar af fyrirtækjunum.“
Deilum um virkjun í Hvalá er heldur ekki lokið
en þó virðist sem baráttan sé töpuð, að minnsta kosti hefur Hreppsnefnd Árnesshrepps
samþykkt tillögur að breytingu á aðalskipulagi sem og nýtt deiliskipulags vegna undirbúnings á Hvalárvirkjun.

Stundin gerði úttekt á virkjunardeilunni:
Sveitastjórn Árneshrepps er klofin en naumur meirihluti styður virkjun, „en tveir sveitarstjórnarmenn af fimm standa gegn henni“. Oddviti sveitarstjórnar styður virkjunina. Dóttir hennar segir móður sína standa með sannfæringu sinni: „Hún er hetja að geta staðið á sinni sannfæringu og ég þekki hana betur en flestir í þessum heimi. Hún elskar náttúruna og grét yfir Kárahnjúkum á sínum tíma. Hún elskar sveitina og hjartað hennar slær fyrir hana, fólkið og lífið í sveitinni. Hún er hörkukona og fylgir sinni sannfæringu og þeir sem halda eitthvað annað um hana þekkja hana ekki.“
Oddvitinn virðist vera dæmi um manneskju sem er náttúruverndarsinni nema þegar hún sér sér hag í að fórna náttúrunni.

VesturVerk ehf er orkufyrirtæki á Ísafirði sem vinnur að undirbúningi virkjunar Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum. Vesturverk hefur boðið sveitarfélaginu samfélagsverkefni sem VV gæti komið að, komi til virkjunar Hvalár í Ófeigsfirði eða þegar framgangur virkjunarframkvæmda hefur verið tryggður.
„VesturVerk gerir ráð fyrir því að gestastofa verði í Ófeigsfirði og allt að 600 fermetrar að stærð. Starfsmenn hafi aðstöðu í húsinu meðan á framkvæmdum við virkjunina standi en þar verði einnig sýningarrými, gistiaðstaða og veitingasalur fyrir gesti og gangandi. Önnur samfélagsverkefni sem að VesturVerk hefur lagt til eru tenging þriggja fasa rafmagns frá Hvalárvirkjun í Norðurfjörð, ljósleiðari samhliða rafstreng, hitaveita úr Krossnesi í Norðurfjörð, lagfæringar á bryggjusvæði í Norðurfirði og endurnýjun klæðningar í skólahúsinu í Trékyllisvík.“ (RÚV)

Það er auðvitað erfitt fyrir oddvita sveitarstjórnar að hafna slíku tilboði (Vesturverk hefur þó „ekki skuldbundið til neinna verkefnanna sem boðuð eru fyrr en félagið hefur fengið því framgengt að framkvæmdirnar verði heimilaðar“.) Þannig að burtséð frá náttúrugildi Kárahnjúka þá er oddvitinn tilbúin að fórna Hvalá fyrir hagsmuni sveitarfélagsins. Hagsmunir hagsmunir hagsmunir.

Reyndar sendi 'náttúruverndarsinni að sunnan' sveitarstjórn Árneshrepps erindi í október með tilboði um að hann stæði undir kostnaði við gerð skýrslu um áhrif þess á svæðið að stofna þjóðgarð. Pétur Guðmundsson landeigandi í Ófeigsfirði svaraði því til að „þjóðgarður verður ekki stofnaður nema með leyfi landeigenda. Frá minni hendi kemur ekki til greina að samþykkja þjóðgarð í landi Ófeigsfjarðar“. Ef að líkum lætur hagnast hann verulega vatnsréttindum og virkjun.

En það hefur verið skrifað til varnar Hvalárvirkjunaráformum, hér má lesa „málefnalegt svar við skýrslu um jarðstrengi á Vestfjörðum“ eftir þrjá rafmagnsverkfræðinga hjá Lotu.

Þetta var um stór mál sem mikið eru í umræðunni. Kemur þá að ýmsum öðrum misstórum málum sem vert er skrá til bókar.

Viðleitnin til að hreinsa skólp eins lítið og komast má upp með
Þrátt fyrir hvernig fór fyrir lífíki Lagarfljóts þykir mönnum greinilega ekki nóg að gert. Skólp frá Fljótdalshéraði rennur út í Lagarfljót og er aðeins hluti þess hreinsaður.

Frétt RÚV:
Á Fljótsdalshéraði fer aðeins hluti skólps í gegnum hreinsivirki. Þó þau séu fullkomin og hreinsi vel ráða þau ekki við allt það vatnsmagn sem er á ferðinni enda er regnvatn í skólpkerfinu. Hluti skólpsins rennur óhreinsaður beint út í Eyvindará og Lagarfljót.

Nú stendur til að veita öllu skólpi frá Egilsstöðum og Fellabæ í gegnum nýtt hreinsivirki og aðeins út í fljótið sem er mun öflugru viðtaki þó fljótið sé skilgreint sem viðkvæmur viðtaki líkt og Eyvindará. Meðalrennsli í Lagarfljóti er eins og 25 Eyvindarár. Ekki eru allir á eitt sáttir um hvaða lausn skuli valin og stóð stjórn fráveitunnar fyrir íbúafundi á Egilsstöðum. Þar var gagnrýnt að nýtt hreinsivirki ætti í upphafi aðeins að vera svokölluð eins þreps hreinsun en ekki minnst tveggja þrepa, líkt og krafist er í reglugerð.

Það er Efla verkfræðistofa sem hannar hreinsivirkið. Gert er ráð fyrir öðru þrepi hreinsunar síðar ef þurfa þyki. Aðspurður um hvort eðlilegt sé að mæla með lausn í fráveitumálum sem ekki stenst reglugerð segir Reynir Sævarsson, fagstjóri fráveitu hjá Eflu verkfræðistofu. „Já, við metum það svo vegna þess að reglugerðin er svolítið skrítin. Hún er ekki skrifuð fyrir íslenskar aðstæður. Við erum með gríðarlega öflugan viðtaka í raun vegna mikils rennslis Lagarfljótsins og við teljum eðlilegt að gera þetta í þrepum. Fresta fullnaðarhreinsun og vakta viðtakann. Á meðan honum líður vel og er ekki með nein merki um ofauðgun eða vandamál þá höldum við áfram að fresta þeirri fjárfestingu. Okkur þykir það eðlilegt,“ segir Reynir.

Fram kom að vatnið yrði ekki geislað eins og nú er í hreinsivirkjum og segir Reynir það óþarft miðað við stærð þynningarsvæðis í fljótinu. „Gerlar geta verið hættulegir ef þeir eru í miklu magni og í nánd við fólk, en með því að losa í mitt Lagarfljótið þá næst að tryggja það án geislunar, að fólki stafar ekki hætta af gerlamengun,“ segir Reynir Sævarsson, fagstjóri fráveitu hjá Eflu verkfræðistofu. [Leturbreytingar mínar)

Umhverfið: loftslagsbreytingar
Talandi um Austurland. Þrátt fyrir Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði virðast Austfirðingar vera sér meðvitaðir um umhverfismál.
„Meira en fjórðungur landsmanna telur sig hafa séð eða upplifað afleiðingar loftslagsbreytinga í sínu sveitarfélagi eða 44 prósent. Þetta kemur fram í nýrri umhverfiskönnun Gallup. Á Austurlandi eru þeir flestir sem telja sig hafa séð eða upplifað breytingar eða 60 prósent, fæstir á Vestfjörðum eða 39 prósent.“
Ætli Austfirðingar séu líka búnir að taka eftir breytingunum á Lagarfljóti?

Ófrjósemisaðgerðir
Umræðan um loftlagsbreytingar tekur á sig ýmsar myndir. Fyrst þarf að segja frá því að ófrjósemisaðgerðir karla og kvenna hlutu nokkra athygli í skammdeginu. Til þess að mega fara í ófrjósemisaðgerð þarf einstaklingur að vera 25 ára eða eldri. Einkaklínik virðist þó hleypa strákum allt niðrí 18 ára í slíka aðgerð, meðan stelpur þurfa að bíða þar til þær verða 25 ára.

(Svo er annað mál hvað það er fáránlegt að þurfa að bíða til þar til viðkomandi er 25 ára. Ætti ekki alveg eins að banna barneignir svo lengi? Hvorttveggja breytir lífi fólks til frambúðar, ófrjósemisaðgerðir reyndar mun minna, og eru í mörgum tilvikum afturkræfar að auki, annað en barneignirnar.)

En Brynjar Níelsson virðist vera einn þeirra sem heldur að ófrjósemisaðgerðir muni valda umtalsverðri fólksfækkun, og hefur sagt „ástæðulaust að hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum ef konur halda áfram að fara í ófrjósemisaðgerðir“. Kvenna, Brynjar hefur áhyggjur af ófrjósemisaðgerðum kvenna en ekki karla, enda þótt mun fleiri karlar fari núorðið í 'herraklippingu'. Niðurstaða Brynjars virðist vera sú að ekki þurfi að taka í taumana vegna loftslagsbreytinga því mannkynið verði fljótlega útdautt vegna kvenna sem standa ekki sína barnfæðingaplikt.

Það var ástæða fyrir því að Brynjar var beittur HannesarHólmsteins-þöggun fyrir síðustu kosningar: hann blaðrar alltaf tóma vitleysu og verður sjálfum sér og sjallaflokknum til skammar. Hann hélt auðvitað 'sjálfskipaða' þagnarbindindið ekki lengi (ekki frekar en Hannes Hólmsteinn sem skríður undan steini að loknum kosningum) og byrjaði þegar að þenja sig á Facebook 8. janúar, öðrum til aðhláturs.

Aksturskostnaður landsbyggðarþingmanna
Það þarf varla að hafa áhyggjur af að það gleymist, en það varð nokkuð umtalað að aksturskostnaður landsbyggðarþingmanna væri útúr öllu korti. Sem leiddi svo til þess að hér eftir (og eitthvað aftur í tímann) er allt uppi á borði, og geta því kjósendur fylgst með akstri Ásmundar Friðrikssonar þvers og kruss um landið þar sem hann heldur sér í stöðugu sambandi við kjósendur sína (ekki síst í aðdraganda kosninga) á kostnað allra skattborgara. Spurning hvort hann og aðrir akstursglaðir þingmenn skrifi þennan kostnað jafn hiklaust á ríkissjóð hér eftir.

Hinn HHG
Píratar hafa stofnað feministafélag innan sinna raða og er (hinn HHG maðurinn sem ég er svo lítið hrifin af) Helgi Hrafn Gunnarsson meðal stofnfélaga, og segist nú vera stoltur feministi.
„Ég var anti-femínisti fyrir löngu síðan. Ég hugsaði síðan málið, ræddi um það og kynnti mér það. Ég er femínisti, sem er bein afleiðing þess að aðhyllast grunnstefnu Pírata, sem er sjálfsákvörðunarréttur, frelsi og dreifing valds. Fólk sem hættir að skipta um skoðun er fólk sem hættir að læra.“
Sitthvað hefur verið skrifað um Helga Hrafn hér á blogginu gegnum tíðina(1, 2, 3)— en sé það rétt að hann sé orðinn feministi ber að segja: Batnandi mönnum er best að lifa.

Talandi um feminisma: #metoo hélt áfram en það er eiginlega of langt mál að skrifa hér um allt það sem kom fram eða viðbrögðin við því.

Tíundu hverri konu í Frakklandi nauðgað
Þrátt fyrir skoðanir Catherine Deneuve er kynferðisofbeldi ekki síður vandamál í Frakklandi en annarstaðar. Og metoo er kannski að gera gagn þar sem annarstaðar, að konur treysti sér frekar til að segja frá - og kæra.
„Í tilkynningu frá Jean Jaures stofnuninni segir að #metoo-byltingin í kjölfar umfjöllunar um brot kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein, gæti hafa hvatt konur til að tjá sig um brot sem þær hafa orðið fyrir. Í tilkynningu frá innanríkisráðuneyti Frakklands í síðasta mánuði sagði að tilkynningum um kynferðisbrot hafi fjölgað um 31,5 prósent á síðasta ársfjórðungi síðasta árs, miðað við sama tíma í fyrra.“
Frönsk lög vernda ekki börn
Eins og manni finnst íslensk lög um kynferðisbrot vera léleg þá slá frönsk lög þau alveg út. Það eru engin lög sem segja hve ung börn mega vera til að mega hafa við þau kynmök. „Engin lög eru til um slíkt aldurstakmark í landinu, en æðsti dómstóll landsins úrskurðað að börn fimm ára og yngri geti ekki veitt samþykki sitt.“ Úff, þetta er sturlað.

Samherji og sveitarstjórnarmennirnir ferðaglöðu
Það er auðvitað orðið þreytt að líkja öllu ruglinu sem nú er í gangi við árið 2007. En þó fer ekki hjá því að manni verið hugsað til 2007 stemningarinnar þegar kjörnir fulltrúar þiggja boðsferðir stórfyrirtækja — og skammast sín ekkert fyrir það.

Þetta voru viðbrögð kjörinna fulltrúa þegar þeir voru beðnir að gera grein fyrir afhverju þeir hefðu farið í skemmtiferð til Þýskalands í boði Samherja. (Enginn hefur spurt hvort ferðir í vændishús og strippstaði hafi verið innifaldar.)
Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins [í bæjarstjórn Akureyrar], og Matthías Rögnvaldsson, forseti bæjarstjórnar og oddviti Bæjarlistans, fóru með í ferðina þar sem tveimur nýjum skipum Samherja voru gefin nöfn.
... Gunnar Gíslason sagði í svari sínu á fundinum að hann hefði engra persónulegra hagsmuna að gæta af ferðinni. Teldi hann ekki að boðsferðin heyrði undir siðareglurnar. Hagsmunir Akureyrarbæjar og íbúanna héldust í hendur við gengi fyrirtækjanna og milljarðaverkefninu sem nýju skipin tvö væru.
... „Ég gat bara ekki hugsað mér að segja nei. Mér hefði fundist það móðgun. Mér hefði fundist það ókurteisi af minni hálfu,“ sagði Matthías. (Vísir, leturbreyting mín)

Gunnar Gíslason sagði að þessi boðsferð félli ekki undir siðareglur, boðsferðina verði að meta út frá tilgangi hennar. „Við höfum auðvitað engra persónulegra hagsmuna að gæta í þessu efni. Við getum heldur ekki betur séð en að þessu sinni fari hagsmunir Akureyrarbæjar og íbúa Akureyrar saman með þeim fyrirtækjum sem að þessu stóra verkefni komu.“ Gunnar vísaði þar til þess að fjölmörg fyrirtæki hefðu komið að þessu verki, að útbúa skipin til veiða, ekki síst fyrirtæki við Eyjafjörð, eins og Slippurinn og Kælismiðjan Frost á Akureyri og Vélfag á Ólafsfirði. Á bæjarstjórnarfundinum sagðist Gunnar Gíslason hafa komist að þeirri niðurstöðu að það væri siðferðislega rétt af honum að þiggja boðið. „Ég velti þessu fyrir mér um hríð, en niðurstaðan varð sú að þarna værum við fyrst og fremst að þiggja boð á viðburð sem snéri að því að fagna með og votta ákveðna virðingu því starfi sem þessi fyrirtæki hafa verið að sinna.“ (RÚV, leturbreyting mín)

Bæjarstjóri Dalvíkur, Bjarni Th. Bjarnason, taldi eðlilegt að þiggja boðsferð til Þýskalands. „Eftir að hafa farið yfir málið með mínu fólki hérna á Dalvík þá ákvað ég að þiggja boðið því mér fannst þetta hinn eðlilegasti hlutur. Ég vildi sýna Samherja þá virðingu og gleðjast með þessu fyrirtæki sem er máttarstólpi í okkar sveitarfélagi“. (Stundin, leturbreyting mín)
Spilling er auðmeltust þegar hægt er að ljúga að sér að það sé barasta ókurteisi að afþakka, siðferðilega óverjandi barasta. Hver vill svosem ekki samfagna þeim stóru og ríku sem eru líklegir til að styðja mann til góðra verka síðar, jafnvel þótt stundum þurfi líka eitthvað að greiða götu þeirra á móti. Eða einsog bæjarfulltrúum á Akureyri sem ekki þáðu boðsferðina varð að orði: Æ sér gjöf til gjalda.

Fréttir af byssumönnum
Sumarið 2016 urðu þrjár drápsglaðar fyllibyttur fréttaefni fyrir vikulanga dvöl sína á Hornrströndum þar sem umgengni þeirra um umhverfið og dýralíf var með miklum ósköpum. Nú hafa þeir loksins hlotið dóm fyrir athæfið. Léttir þeirra hlýtur að hafa verið mikill því þeir fengu 50 til 75 þúsund króna sekt á kjaft. Einhver hefur þurft að borga meira fyrir viku gistingu á Íslandi.

Þá var nú sætara réttlætið þegar suður-afrísk ljón tóku sig til og drápu veiðiþjóf sem hafði ætlað að drepa þau, og ekki nóg með það heldur átu þau hann líka.

Pyntingartólum beitt
Af einhverjum stórfurðulegum ástæðum nota menn minkaboga í útrýmingarherferð sinni á hendur minknum. Veslings kindin sem var týnd vikum saman festist í minkaboga og kom haltrandi með hann áfastan heim. Í fyrra þurfti að lóga lambi sem lenti í minkaboga (annarstaðar á landinu), en engum sögum fer af því hvað varð um kindina, vonandi varð ekki að lóga henni líka eftir allar hremmingarnar. Engar reglur gilda um notkun slíkra pyntingatóla; það er hvorki bannað að nota þau né skylt að vitja þeirra daglega svo dýrin kveljist ekki langtímum saman.

Það á ekki að skipta máli hvort það er sauðfé eða minkar sem þannig er farið með, það er jafn andstyggilegt fyrir því, og ætti að banna þetta.

Fleiri drápsaðferðir
Lítil frétt um að Svisslendingar hafi bannað suðu á lifandi humri vakti mig til umhugsunar um humarhátíð á Hornafirði og meðferð á humri á Íslandi yfirleitt. Er humar soðinn lifandi hér á landi á veitingahúsum og/eða í heimahúsum? Eða er hann drepinn með mannúðlegum hætti áður en hann er seldur ferskur eða frosinn til verslana og veitingahúsa? Mig óar við svarinu.

Útblástur díselbíla
Því miður er gríðarlega mikið um að gerðar séu tilraunir á dýrum, líklega er mest um það í lyfjaiðnaði. Af einhverjum fáránlegum ástæðum ákváðu þýskir bílaframleiðendur að gera tilraunir á öpum með útblástur díselbíla. Það hefði kannski aldrei orðið að stórmáli nema fyrir þær sakir að einnig var gerð slík tilraun á mönnum.

Auðvitað voru aparnir ekki spurðir hvort þeir vildu taka þátt í tilrauninni, en manneskjurnar tuttugu og fimm gáfu sennilega samþykki sitt. Ég leyfi mér þó að giska á að þau hafi gert það gegn greiðslu, og að fólkið hafi ekki komið úr efstu lögum samfélagsins. Hugsanlega verið í þeirri stöðu að þurfa að sætta sig við hvað sem er til að eiga í sig og á. Svo er líka eitthvað sérlega ógeðfelld tilhugsun að Þjóðverjar loki fólk inni og láti það anda að sér skaðlegum gufum.

Svifryk
En í framhaldi af því. Til þess að fylgjast með svifryksmengun í Reykjavík er hægt að fara inná vefsíðu sem hefur veffangið testapi.rvk.is. Testapi. Úfrá nafninu má geta sér þess til að api eða apar séu innilokaðir í kössum við helstu umferðaræðar að anda að sér svifryki. Eða hvað veit maður.

Flekka, Snoppa og Sauðarhyrna
Áður hef ég játað að skilja lítið í landbúnaðarkerfinu. En frétt um reglugerð sem mismunar stórum og litlum sauðfjárbúum truflar mig verulega.
„Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra, hefur skrifað undir reglugerð til að koma til móts við kjaraskerðingu sauðfjárbænda vegna verðfalls sauðfjárafurða. Bændur sem áttu færri en 150 vetrarfóðraðar kindur veturinn 2016-2017 fá ekkert af þeim 400 milljónum sem fara í stuðninginn.“
Það hefur reyndar aðallega verið talað um verksmiðjubú á sviði svínaræktar, fuglaræktar og eggjaframleiðslu, en vísbendingar eru um verksmiðjubúskap á nautgripum. Það eru kannski ólíklega til verksmiðjubú í sauðfjárrækt, en það er ekkert sem segir að landbúnaðarráðherrann haldi ekki áfram að hygla stórum búum á kostnað þeirra minni, í anda hagræðingar (svo ekki sé minnst á gróða fjárfesta). Sem andstæðingur verksmiðjubúskapar hef ég áhyggjur af þessari reglugerð. Hvers eiga líka bændur með færri en 150 vetrarfóðraðar kindur að gjalda? Þarf alltaf að vera skepnuhald þar sem enginn þekkir öll dýrin með nafni? Reglugerðin stuðlar augljóslega að fækkun lítilla búa og fjölgun andlitslausrar framleiðslu fjárfesta.

Hæglætisofríki
Ekki man ég hvaða kvikmynd eða sjónvarpsþátt ég var að horfa á, en þar mátti lesa í skjátexta íslensku þýðinguna á enska hugtakinu passive agressive: Hæglætisofríki. Þetta hef ég ekki heyrt áður en finnst Sigurður H. Pálsson þýðandi eiga heiður skilinn að nota það.

(Með gúggli kemur reyndar í ljós að Jón Vídalín var fyrstur til að nota orðið í húspostillu sinni, en ekki virðist það eiga að vera þýðing á enska hugtakinu.)

Reykjavík: Strætó
Aldurstakmörk fyrir afslátt eldriborgara á strætógjöldum var hækkaður eftir hrun. Nú fyrst, nærri áratug síðar, er búið að lækka hann aftur niður í 67 ár. Það hefði verið eðlilegt að fara að kröfum eldri borgara um að fá gjaldfrjálst í strætó, sérstaklega eftir að hafa verið hlunnfarnir árum saman. Raunar myndi það vera jákvætt og auka mjög notkun strætisvagna að hafa alltaf ókeypis fyrir alla, en sú umræða fer mest fram í sambandi við fyrirhugaða borgarlínu, og verður því ekki rædd hér að sinni.

Reykjavík: Skipulag
Fasteignafélög og íbúasamtök miðborgarinnar eru meðal þeirra sem gera athugasemdir við breytingu á aðalskipulagi miðbæjar Reykjavíkur vegna veitingahúsa og gististaða. Ýmis sjónarmið togast á.

Fasteignafélagið Reginn sem á Lokastíg 2 og Þórsgötu 1 þar sem Hótel Óðinsvé er til húsa mótmælir breytingu á svæðinu þar sem felur í sér að ekki megi breyta núverandi atvinnu- og íbúðarhúsnæði þar í gistiþjónustu. Þetta sé hamlandi fyrir vöxt og viðgang núverandi hótels sem eigi þá ekki lengur möguleika á að taka fleiri byggingar við eða í næsta nágrenni undir hótelið.

„Þetta ógnar rekstri Hótel Óðinsvéa til framtíðar í samkeppni við ný hótel og bindur hendur rekstraraðila Hótels Óðinsvéa til að efla rekstrareininguna með fjölgun herbergja. Fasteignafélagið Reginn telur að með þessari viðbót sé óþarflega langt gengið í þeirri viðleitni að vernda íbúasamfélagið í jaðri miðborgarkjarnans,“ segir í bréfi Regins þar sem vísað er í viðkomandi svæði virki jafnframt sem bakland fyrir miðborgarkjarnann. (Vísir, leturbreyting mín)
Það á auðvitað alltaf að gefa áliti fasteignafélaga meira vægi heldur en þessara örfáu hræða sem hokra enn í miðbænum, og þvælast bara fyrir allri almennilegri gróðastarfsemi. Reyndar virðist það hafa verið stefna Reykjavíkurborgar um langt árabil. Hótelrekendur og verktakar fara sínu fram að vild.

Nú er þetta alveg að verða búið en þessu má ekki gleyma

Leið flóttamanna frá Norður Afríku yfir Miðjarðarhafið til Evrópu er ein sú hættulegasta í heimi fyrir konur og börn, samkvæmt nýrri skýrslu sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna birti í dag. Helmingur þeirra sem rætt var við í skýrslunni segist hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun á leiðinni frá heimahögum sínum í Afríku í leit að betra lífi í Evrópu. Næstum 26 þúsund börn fóru fylgdarlaus yfir Miðjarðarhafið í fyrra; helmingi fleiri en árið 2015. 

Í skýrslu UNICEF kemur fram að þrjú af hverjum fjórum börnum sem rætt var við, höfðu á einhverjum tímapunkti orðið fyrir ofbeldi, áreitni eða yfirgangi af hálfu fullorðinna. Helmingur kvennanna og barnanna sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun á leiðinni, í mörgum tilfellum oft og á mismunandi stöðum. 

Afshan Khan, svæðisstjóri UNICEF sem samhæfir aðgerðir samtakanna í flóttamannamálum í Evrópu segir í skýrslunni að leiðin yfir Miðjarðarhaf frá Norður-Afríku til Evrópu sé meðal hættulegustu og mannskæðustu leiða flóttamanna í heiminum, og sú hættulegasta fyrir konur og börn. 

„Leiðinni er aðallega stjórnað af smyglurum, þeim sem stunda mansal og öðrum sem nýta sér neyð örvæntingarfullra barna og kvenna sem eru einfaldlega að leita hælis eða betra lífs. Við þurfum örugga og löglega leið, sem og öryggisráðstafanir til að vernda börn á flótta, tryggja öryggi þeirra og halda þeim í burtu sem ætla sér að níðast á þeim,“ segir Khan í skýrslu UNICEF.“ (RÚV)

Á síðasta ári greindi CNN frá því að flóttamenn í Líbíu væru seldir í þrældóm en af fréttum að dæma er ástandið enn verra en áður var talið. Á myndböndum af súdönskum flóttamönnum má sjá þá pyntaða. Í einu þeirra má sjá átta þeirra hýdda með svipum. Þeir voru síðar frelsaðir af líbanska hernum.
„Þetta ógeðfellda myndefni sýnir glæpi manna sem geta vart talist mennskir. Þeir pynta flóttamenn og brenna þá. Taka það upp á myndband og senda á fjölskyldur fanga sinna til þess að kúga af þeim peninga,“ sagði í tilkynningu líbíska hersins. Í öðru myndbandi mátti sjá Súdana liggja nakinn á jörðinni og engjast um af sársauka á meðan maðurinn á bak við myndavélina hellir sjóðheitri olíu á bakið á honum og kveikir í. Annar maður, grímuklæddur, sérst beina byssu að fórnarlambinu.“

Fjölskyldur flóttamanna sem haldið er föngnum af glæpagengjum hafi„ þurft að reiða af hendi um hálfa milljón króna til að frelsa fangana og hægt hafi verið að leggja lausnargjaldið beint inn á bankareikning í Kartúm. Þá hafi CNN einnig fundið gögn sem sýna fram á að fjölskyldur í Bangladess og Níger hafi greitt sams konar lausnargjald.“ (Vísir)
Það er verulega langt gengið að níðast á flóttamönnum, hvað þá með svo viðbjóðslegum hætti.

Og talandi um mannvonsku.

Illugi Jökulsson getur ekki komist að annarri niðurstöðu en að það hafi verið vont fólk sem ákvað að lauma Houssin Bsraoui úr landi.
Ekki mótmæli ég þeirri staðhæfingu.




Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,