mánudagur, febrúar 26, 2018

Er Framsókn enn að?

Jón Sigurðsson sem eitt sinn var utanþingsráðherra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og síðar formaður Framsóknarflokksins skrifaði grein um umskurð sveinbarna fyrir nokkrum dögum. Hann er einn fárra (fyrir utan presta þjóðkirkjunnar) sem vill leyfa að gerð sé óafturkræf aðgerð á ómálga börnum, sem hann segir að sé „smávægileg og fljótleg skurðaðgerð á húðfellingu“ sem „samrýmist öllum þekktum hugmyndum um forræði foreldra“. Svo þvælir hann eitthvað meir um það. En það sem hefur setið í mér síðan ég las pistil hans er þessi setning hér:
„Í núverandi aðstæðum hérlendis snertir bann þetta nær einvörðungu fjölskyldur aðfluttra múslíma.“
Síðast þegar kosið var í borgarstjórnarkosningum bauð Framsókn fram undir heitinu Framsókn og flugvallarvinir og eftir nokkrar vendingar varð Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir oddviti framboðsins með Guðfinnu J. Guðmundsdóttur sér til fulltingis. Tekin var sú stefna í kosningabaráttunni að verja ekki eingöngu flugvöllinn í Vatnsmýri fyrir þeim sem vildu hann burt, heldur hamast einnig gegn þá fyrirhugaðri byggingu mosku í Reykjavík, og þykir ljóst að furðu gott gengi Framsóknar og flugvallavina (en flokkurinn hafði áður, þá án flugvallaráherslunnar, verið að þurrkast út í borginni) hafi fengist fram með þessum lítt dulbúna (og í málflutningi Sveinbjargar allsekki dulda) áróðri gegn múslimum.

Eftir kosningar steig Jón Sigurðsson fram og var greinilega mjög ósáttur við að Framsóknarflokkurinn væri farinn að viðra rasískar skoðanir.
„Þó að við höfðum verið þjóðrækilega sinnaðir og erum það ennþá og þjóðhyggjufólk, þá voru okkar viðhorf mjög ólík þessum viðhorfum. Ég tel að þetta séu mjög óheppileg og óæskileg sjónarmið sem hérna hafa komið fram.“
Í ljósi þessa, og þeirrar afstöðu sem Jón tekur gegn „þessum viðhorfum“, þ.e. múslimaandúð, þá má e.t.v. setja það í samhengi við pistil hans um umskurð sveinbarna. Jón er sennilega enn nægilega tengdur inní flokkinn til að vita hvað í raun liggur að baki þeirri ákvörðun að leggja fram einstök frumvörp. Er það kannski herkænska en ekki tilviljun að umskurðarfrumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur þingmanns Framsóknarflokksins verður að miklu umtalsefni örfáum mánuðum fyrir sveitarstjórnarkosningar? Er Jón að benda á að það sé enn verið að fiska í gruggugu vatni?

Vont er til þess að hugsa að frumvarpinu sé ætlað að ala á óvild í garð múslima eða fæla þá frá því að setjast hér að.

Ef rétt er þá kollvarpar þetta allavega öllum kenningum um að frumvarpinu sé beint gegn gyðingum. Ætla ég rétt að vona. Hitt er nógu slæmt.

Hver sem undirrótin er ætla ég enn að halda því fram að frumvarpið sé þarft því það er mikilvægt að vernda börn gegn umskurði, hvaða trú sem foreldrarnir aðhyllast eða bábiljur aðrar.

Hitt kemur væntanlega í ljós í vor.

Efnisorð: , , , , , , ,