föstudagur, febrúar 09, 2018

Barátta Fréttablaðsins fyrir (saksótta) auðmenn gegn dómsvaldi og almenningsáliti

Stundin datt innum bréfalúguna í dag og að vanda er leiðari ritstjóra á fyrstu opnu. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir skrifar þar undir yfirskriftinni „Aðferðir til að lama fjölmiðla“ og leiðarinn hefur að auki undirtitilinn Hundrað og sextán dagar lögbanns. Millifyrirsagnirnar segja sína sögu: Blaðamenn dregnir fyrir dóm; Farið fram á fangelsisdóm; Árekstur hagsmuna; Ráðning ritstjóra; Úthýst úr verslunum; Ólögmætt lögbann gildir enn.

Augljóslega er þarna mikið til verið að fjalla um lögbann á fréttir Stundarinnar uppúr gögnum Glitnisbanka, en einnig fjallar Ingibjörg Dögg um hvernig sótt hefur verið að öðrum fjölmiðlum með ýmsum hætti. 

Í kaflanum Ráðning ritstjóra kemur þetta fram:
„Hagsmunaaðilar munu alltaf beita valdi sínu gegn ritstjórnum sem eru þeim ekki þóknanlegar. 

Ritstjórar eru ráðnir í takt við áherslur eigenda og hagsmunaaðila. Eins og þegar Davíð Oddsson var ráðinn á Morgunblaðið, þrátt fyrir fjölda uppsagna á meðal starfsfólks og áskrifenda […]

Á 365 var ráðinn aðalritstjóri sem hafði gagnrýnt sérstakan saksóknara. Seinna var vikulegur pistill vinsæls höfundar látinn víkja fyrir gagnrýni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á sérstakan saksóknara og dómstóla.“
Þetta eru ekki nýjar fréttir fyrir mér (sjá umfangsmikla gagnaöflun fyrir neðan bloggpistilinn*) en það sem stakk mig við að lesa þetta var að síðast í gær skrifaði Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri Fréttablaðsins, leiðara um dóma yfir bankamönnum, og ég hugsaði þegar ég las hann: Hún er enn að verja bankamenn. Og þegar ég kíkti aftur á leiðarann, eftir að hafa lesið leiðarann í Stundinni, þá var það sem mig minnti: Kristín er enn að gagnrýna sérstakan saksóknara.
„Sérstakur saksóknari hafði allt frá hruni her manns í fullu starfi við rannsókn og saksókn hrunmála. Að auki menn sem voru í fullu starfi annars staðar, í verktakavinnu fyrir sérstakan saksóknara og þáðu milljónir ofan á dagvinnulaun sín. Þegar mest var störfuðu um 110 manns hjá embættinu.

Embættið kostaði að minnsta kosti 6,2 milljarða á núvirði samkvæmt ríkisreikningi 2009 til 2014 og árshlutauppgjöri fyrstu níu mánuðina á árinu 2015. Gera má ráð fyrir að þessi tala hafi hækkað, þegar allt er talið í hátt í 10 milljarða. Sérstakur saksóknari hætti starfsemi í lok árs 2015 og tók héraðssaksóknari við öllum verkefnum embættisins.

Þessi saga snertir miklu fleiri en þá sem dæmdir voru. Fjöldi fólks sat á sakamannabekk um árabil meðan mál voru rannsökuð. Þeim var haldið í spennitreyju meðan rannsókn fór fram – dæmdir úr leik á vinnumarkaði. Sumir hristu það af sér og standa keikir eftir, aðrir þoldu það síður. Dæmi eru um mikla harmleiki fólks sem hvorki var dæmt né ákært á þessari vegferð.



Það verður barna okkar og barnabarna að dæma, þegar frá líður, hvort þessum tíma og peningum hafi verið vel varið. Var eftirtekjan rýr eða var þetta ill nauðsyn – allt þess virði?“
Kristín var ráðin útgefandi og aðalritstjóri 365 miðla árið 2014 (hafði þá setið í stjórn fjölmiðlasamsteypunnar í tvö ár, og þaráður verið upplýsingafulltrúi Baugs) og í apríl árið eftir rakti Stundin skrif Kristínar, og tilefnið er leiðarinn „Satt eða ósatt“ sem hún skrifaði 4. apríl 2015 og vakti nokkra athygli. Jafnframt má sjá í úttekt Stundarinnar brot úr einum pistla Kristínar frá því áður en hún varð ritstjóri en þar er hún að gagnrýna Evu Joly, talar um réttarmorð og líkir rannsóknum á hrunmálum við Guðmundar- og Geirfinnsmál. Eftir þetta var hún ráðin sem útgefandi og síðar aðalritstjóri hjá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Ingibjörgu Pálmadóttur, sem sjálf voru útsett fyrir allskonar rannsóknir fyrir og eftir hrun.

Hér er dæmi úr pistli sem Kristín skrifaði árið 2012 (þá ekki orðin útgefandi eða ritstjóri) þar sem hún hvetur til að hætt sé að garfa í hrunmálum.
„Drögum úr lögreglurannsóknar- og dómstólaþrasi, sem er allt að drepa úr heift og leiðindum. Verjum kröftunum þess í stað í að átta okkur á hvað fór úrskeiðis í raun og veru og fáum til þess fólk sem er sérhæft í að kryfja samfélagið og mannlega hegðun. Vinna saksóknarans getur orðið hluti af þessu verkefni. Það getur ekki verið að allt í einu hafi fjöldi glæpamanna á Íslandi margfaldast og lausnin felist í að dæma sem flesta til tugthúsvistar.“
Fréttablaðið hefur verið vettvangur þeirra sem afsaka og réttlæta ýmiskonar fjármálabrask og gjörðir bankamanna, og var lítillega gerð grein fyrir því hér á blogginu árið 2015, í pistli sem fjallaði annars að mestu leyti um Jón Ásgeir og hvernig hann beitti fjölmiðlinum sér í hag, auk þess sem hann skrifaði varnargreinar fyrir sjálfan sig.
„Fáum dögum síðar hóf eiginkona eins sakborninga og tugthúslima Al-Thani málsins varnarskrif sem var einnig stillt upp á leiðaraopnu blaðsins. Þegar svo Aurum-málið var ómerkt af Hæstarétti og sent aftur í héraðsdóm, vegna þess að bróðir þessa sama tugthússlims reyndist hafa verið meðdómandi, lét Fréttablaðið það eftir sér að láta þetta vera lokaorð fréttar um úrskurð Hæstaréttar, og er þar að vitna í Gest Jónsson verjanda eins sakborninga:


„Afleiðingin af þessu er að fjórir menn sem voru sýknaðir í héraði, og áttu von á að fá enda í sín mál á næstu mánuðum, verða að bíða enn eitt árið eftir niðurstöðu í málinu. Minn skjólstæðingur í þessu máli, Jón Ásgeir, er nú þegar búinn að hafa réttarstöðu sakbornings í á þrettánda ár. Mér finnst þetta vera bara alveg til vansa,“ segir Gestur.“
Verjandi Jóns Ásgeirs, eiganda (ok, giftur eiganda) Fréttablaðsins á síðasta orðið. Blákalt og grímulaust.“

Gestur Jónsson er mágur Kristínar Þorsteinsdóttur, ekki að það sé aðalatriði í málinu, en sýnir þó einnig hve nátengd hún er þessum málum öllum. Ekki að hún segi sig frá þeim vegna vanhæfni, þótt hún geri þær kröfur á aðra.

Mörgum er löngu orðið ljóst að Fréttablaðið með Kristínu Þorsteinsdóttur í broddi fylkingar, hefur verið í herferð gegn dómstólum. Guðmundur Andri skrifaði fasta pistla alla mánudaga (nema þegar Jón Ásgeir ruddist inná hans pláss þegar honum þótti mikið liggja við) og hann skrifaði þetta í desember 2016:
„Hvenær er dómari vanhæfur til að úrskurða í málum? Því verða aðrir að svara en ég, sem er bara maður úti í bæ, fæddur í spurningamerkinu.

Þessari spurningu verða líka aðrir að svara en verjendur og aðrir launaðir starfsmenn úr þeim mikla Hrunamannahreppi sem sakborningar úr auðmannahópi virðast hafa kringum sig um þessar mundir, verjendur, ráðgjafar, almannatenglar, auglýsingamenn, þartilráðnir mótendur almenningsálits, sem skipuleggja PR-átak með markvissum lekum í valda fjölmiðla, sem að sjálfsögðu bregðast við með umfjöllun, eins og eðlilegt er.“
Guðmundur Andri virðist þarna skjóta ansi föstum skotum á vinnuhjú Jóns Ásgeirs.

Það vildi svo til að á sömu blaðsíðu þennan mánudag skrifað Hreiðar Már Sigurðsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings, þá þegar margdæmdur og búinn að sitja í fangelsi, grein undir því galna nafni „Að velja sér dómara“. (Í ljós kom reyndar að hann var að ásaka Sérstakan fyrir að hafa valið dómara.) Af greinarskrifum Hreiðars Más má merkja að honum þyki lesendahópur Fréttablaðsins líklegur til að vera sammála sér um alla þá ósanngirni sem honum þykir sér hafa verið sýnd. Líklega fengið þá hugmynd, eins og eiginkona Ólafs Ólafssonar, vegna afstöðu ritstjóra og eigenda blaðsins.

Árið 2016 var hlutabréfaeign dómara talsvert fréttaefni. Dómarar höfðu eins og margir aðrir fjárfest í hlutabréfum fyrir hrun og tapað peningum á viðskiptunum. Sumir þeirra voru því hugsanlega vanhæfir að dæma í hrunmálum, og það er sjálfsagt að sú hlið málanna væri rædd, sem og hagsmunaskráning dómara. En í meðförum Fréttablaðsins varð umræðan um meint vanhæfi dómaranna eins og enn ein árásin á dómstóla, og þar með enn ein málsvörnin fyrir eigendur blaðsins, Jón Ásgeir og Ingibjörgu, og aðra auðmenn. Dæmi um leiðara Fréttablaðsins er einn skrifaður af Hafliða Helgasyni 23. september 2016 (ekki svo stóryrtur) og annar skrifaður af Kristínu 2. desember 2017 (stóryrtur) þar sem hún býsnast yfir gagnrýni formanns dómarfélagsins sem talaði um þaulskipulagða aðgerð til að koma höggi á dómstóla.

En semsagt, eftir að hafa hamrað lengi og vel á vanhæfi dómara og að allir væru vondir við bankabófa og aðra fjárglæframenn gerði Fréttablaðið, Stöð 2 og Vísir (sem þá voru allir 365 miðlar í eigu Ingibjargar og Jóns Ásgeirs) könnun á því hvort eigi að rannsaka ætti hlutabréfaeign dómara fyrir hrun, og hversu mikið traust almenningur bæri til Hæstaréttar. Þessu var slegið upp þann 16. desember 2016 á forsíðu Fréttablaðsins, sem sannaði þar með endanlega að það væri flaggskip þeirrar herferðar sem miðaði að því að draga úr trausti á dómstóla og rétta hlut sakborninga í bankahrunsmálum.

En áður en þessari stuttu yfirferð lýkur er nauðsynlegt að rifja upp hina frægu heimsókn Þorbjörns Þórðarsonar fréttamanns Stöðvar 2 á Kvíabryggju, hvar hann átti gott spjall við fangana sem þá sátu þar (blásaklausir auðvitað), sem voru þeir Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings banka, Ólafur Ólafsson sem var einn stærsti eigandi Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Luxemburg. Hér má sjá úttekt Láru Hönnu á þessu dæmalausa viðtali.

Þetta viðtal varði Kristín svo með kjafti og klóm í leiðara nokkrum dögum síðar.
„Það eru alvarlegar ásakanir að ætla fjölmiðlum að standa í einhvers konar herferð. Sú er svo sannarlega ekki raunin á okkar fréttastofu, þótt á þessum vettvangi hafi stundum birst greinar þar sem varað er við stemningu sem ríkir gagnvart ákveðnum þjóðfélagshópi.“
Og við trúum hverju orði — úr því hún sagði það.

Leiðari gærdagsins sýnir að Kristín Þorsteinsdóttir er enn við sama heygarðshornið. Það er vægast sagt óheppilegt að hún ritstýri stærsta dagblaði landsins, og ekki síður ef litið er til þess að næststærsta blaðinu stýrir annar hrunverji, sem er ekki síður upptekinn af því að móta sögurnar sem sagðar eru af fjárglæframönnum fyrirhrunsáranna.

En nú er almenningur svo upptekinn af því að græða á daginn og panta utanlandsferðir og versla á netinu á kvöldin, að enginn kippir sér upp við þetta lengur.

___
* Fréttir, leiðarar, blaða- og bloggpistlar:

Kristín Þorsteinsdóttir, 6. febrúar 2012, „Erum við verri en annað fólk?“
http://www.visir.is/g/2012702069965/erum-vid-verri-en-annad-folk-

Kristín Þorsteinsdóttir, 3. janúar 2013, „Eva Joly og afkvæmið“,
http://www.visir.is/g/2013701039995

Kristín Þorsteinsdóttir (nú orðin útgefandi og aðalritstjóri), 4. apríl 2015, „Satt eða ósatt“, http://www.visir.is/g/2015704049936/satt-eda-osatt-

DV, 11. apríl 2015, „Er þetta frétt?“ [um Satt eða ósatt leiðara Kristínar]
http://www.dv.is/frettir/2015/4/11/kristin-thorsteinsdottir-er-thetta-frett/

Stundin, 14. apríl 2015, „„Grafalvarlegt“ hjá ritstjóra Fréttablaðsins segir Ögmundur“,[um Satt eða ósatt leiðara Kristínar],
https://stundin.is/frett/grafalvarleg-segir-ogmundur/

Bloggpistill 27. apríl 2015, „Til þess eiga menn fjölmiðil“, [um hvernig Fréttablaðinu er beitt til varnar Jóni Ásgeiri, skrif hans í blaðið, svo og skrif eiginkonu Ólafs Ólafssonar], http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2015/04/til-ess-eiga-menn-fjolmiil.html

Kjarninn, 25. febrúar 2015, „Ólafur Ólafsson kominn í fangelsi, afplánar á Kvíabryggju“,
https://kjarninn.is/frettir/olafur-olafsson-kominn-i-fangelsi-afplanar-a-kviabryggju/

Jón Trausti Reynisson, 8. janúar 2016, „Hver er að gefa þér þetta allt?“ [um ritstjóra sem henta hagsmunum],
https://stundin.is/leidari/hver-er-ad-gefa-ther-thetta-allt/

Bloggpistill 9. janúar 2016, „Bankamannablús“ [um greinar sem bankabófar hafa skrifað sér til varnar],
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2016/01/bankamannablus.html

Lára Hanna Einarsdóttir, 13. janúar 2016, „Vesalingarnir á Kvíabryggju“,
[úttekt á Kvíabryggjuviðtalinu og viðtalið allt í mynd], https://stundin.is/pistill/vesalingarnir-kviabryggju/

Bloggpistill 14. janúar 2016, „Peningamannaþvottur“ [um Kvíabryggjuviðtalið],
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2016/01/peningamannavottur.html

Kristín Þorsteinsdóttir, 16. janúar 2016, „Stóra samsærið“ [leiðari um Kvíabryggjuviðtalið], http://www.visir.is/g/2016160119140/stora-samsaerid

Bloggpistill, 22. janúar 2016, „Kostað grjótkast (ósýnilegt spurningamerki)“ [m.a. um Kvíabryggjuviðtalið],
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2016/01/kosta-grjotkast-osynilegt-spurningamerki.html

Bloggpistill, 21. apríl 2016, „Jón Ásgeir kannast líklega enn ekkert við Tortóla“ [umfjallanir Kjarnans og Stundarinnar um Panamaskjöl], http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2016/04/jon-asgeir-kannast-liklega-enn-ekkert.html

Bloggpistill 23. apríl, 2016, „Fréttablaðið fellur á prófinu“ [um þögn Fréttablaðsins um að eigendur blaðsins væru í Panamaskjölunum],
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2016/04/frettablai-fellur-profinu.html

Bloggpistill, 27 apríl 2016, „Fjlmðlr“ [um þögn Fréttablaðsins um að eigendur blaðsins væru í Panamaskjölunum],
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2016/04/jon-asgeir-kannast-liklega-enn-ekkert.html

Hafliði Helgason, 23. september 2016, „Dómarar skrái hagsmuni sína“ [leiðari], http://www.visir.is/g/2016160929501

Guðmundur Andri Thorsson, 12. desember 2016, „Um vanhæfi“, http://www.visir.is/g/2016161219798

Hreiðar Már Sigurðsson, 12. desember 2016, „Að velja sér sinn dómara“, http://www.visir.is/g/2016161219797

Forsíðufrétt 16. desember 2016, „Traust á Hæstarétti hríðfellur í desember“, http://www.visir.is/paper/fbl/161216.pdf

Kristín Þorsteinsdóttir, 2. desember 2017, „Dæmir sig sjálfur“, http://www.visir.is/g/2017171209830

Kristín Þorsteinsdóttir, 8. febrúar 2018, „Eftirhrunssaga“, http://www.visir.is/g/2018180208965/eftirhrunssaga- 

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, 9. febrúar 2018, „Aðferðir til að lama fjölmiðla: Hundrað og sextán dagar lögbanns“, https://stundin.is/grein/6220/adferdir-til-ad-lama-fjolmidla/


Svo hér að lokum tveir gamlir bloggpistlar, frá því áður en Kristín Þorsteinsdóttir settist í stól aðalritstjóra en eftir hrun,

sá fyrri sem er frá 24. febrúar 2012, segir frá hvernig Fréttablaðinu er beitt til að fegra ímynd Ingibjargar Pálmadóttur eiganda blaðsins. „Gott að eiga blað“, http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2012/02/gott-eiga-bla.html

Seinni bloggpistillinn er frá 13. apríl 2014. Raktar eru fréttir um Jón Ásgeir þar sem blaðamenn Frbl. geta ekki tengsla hans við blaðið, „365 í Aurum talið“
http://vegidurlaunsatri.blogspot.is/2014/04/365-i-aurum-tali.html

Efnisorð: , , , , ,