föstudagur, janúar 12, 2018

Konur sem verja rétt karla til kynferðislegrar áreitni, og ráðast á aðrar konur fyrir að segja frá

Aldrei hélt ég að ég ætti eftir að líkja Catherine Deneuve og Jónínu Benediktsdóttur saman. En sú fyrrnefnda, reynar í slagtogi við 99 aðrar franskar konur, ku hafa skrifað opið bréf þar sem þær vöruðu við púritanisma kjölfar #metoo. Þær frönsku eru ekki að segja eigin sögur heldur standa þær með körlum sem hafa verið ásakaðir um kynferðislega áreitni, og verja rétt karlmanna til að reyna við konur.
Þær harmi allar þær fordæmingar sem komið hafa fram í garð karla eftir að greint var frá ásökunum á hendur Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Að mati kvennanna skerða slíkar „nornaveiðar“ kynfrelsi.

„Nauðgun er glæpur en að reyna að draga einhvern á tálar, jafnvel oft eða klaufalega er það ekki. Það að karlmenn sýni af sér herramennsku er ekki heldur árás af hálfu feðraveldisins,“ segir í bréfinu.

Þá segir þar jafnframt að mönnum hafi verið refsað, og þeir jafnvel misst vinnuna „fyrir það eitt að snerta hnéð á einhverjum eða að reyna að stela kossi.“ Í bréfinu kemur fram að konurnar sem undir það skrifa telja það nauðsynlegt að tala um misnotkun af hálfu valdamikilla. Þær líta þó einnig svo á að fordæmingarnar séu orðnar „stjórnlausar“ og að þetta valdi því að konur séu álitnar vanmáttugar og eilífðar fórnarlömb. Þær segjast ekki finna sig í þessum femínisma.
(Umorðun og þýðing Vísis á efni bréfsins, og hefur eftir enskri þýðingu BBC)
Kannski hefur Catherine Deneuve alltaf verið illa upplýst og andfeministi, en sem ein frægasta leikkona Frakka er verulega óþægilegt að hún taki þessa afstöðu. Það hljómar þá eins og hún tali fyrir munn allra franskra kvenna. Franskir femininistar hafa reyndar svarað henni, eins og fram kemur í ofangreindum fréttum.

Jónína Ben birti reyndar ekki opið bréf heldur skrifaði á eigin Facebooksíðu, en sumir fjölmiðlar liggja yfir Facebooki íslenskra frægðarmenna, svo gera má ráð fyrir að slík skrif beri fljótlega fyrir augu almennings.

Nema hvað, Jónína er svona ansi óhress með nýjustu #metoo hrinuna sem kemur frá íþróttakonum. Hún þykist bera kennsl á eina konuna sem þar skrifar og segir að íþróttakonan hafi
„einfaldlega hafa verið ástfangna af giftum manni, og ekkert farið í felur með það. Henni hafi ekki verið nauðgað.“
Fyrir nú utan það að þetta er andstyggilega sagt (enginn ætti að segja slíkt við konu sem segir að sér hafi verið nauðgað), þá tekur Jónína ansi stórt upp í sig — hvernig getur hún fullyrt að aldrei hafi giftur maður nauðgað konu sem er ástfangin af honum — þá kemur í ljós að Jónína virðist halda að aðeins eitt handboltalandslið karla hafi starfað frá upphafi, en íþróttakonan var aðeins 3ja ára þegar landsliðið sem Jónína talar um var að æfingum fyrir Ólympíuleika. Tilgangur Jónínu virðist hafa verið álíka göfugur og frönsku kvennanna, að standa með karlmönnum sem liggja undir grun 'blásaklausir'.
„Konur bera líka ábyrgð á orðum sínum og gjörðum ekki bara karlar. Persónulega finnst mér svona hálkveðnar vísur aulaháttur. Ef einhver nauðgar þér kærðu hann til lögreglu en búðu ekki til angistarástand í fjölda hjónabanda. Fordæmum ofbeldi en látum ekki misnota okkur í Kastljósi aftur.“
Það eina sem Jónína gerði með þessu þusi var að vekja athygli allra á því að handboltalandslið karla árið 1984 hafi vaðið í kvenfólki. Þessi yfirlýsing hennar getur því hæglega „búið til angistarástand í fjölda hjónabanda“.

Við frétt Vísis eru fleiri en ein og fleiri en tvær athugasemdir um að Jónína virðist enn vera að verja Gunnar Þorsteinsson eiginmann sinn, fyrrum forstöðumanns hvítasunnusafnaðarins Krossins, sem einmitt var sakaður um kynferðislegt áreiti gagnvart sjö konum, sem sumar hverjar voru á unglingsaldri þegar hann var að djöflast í þeim.

Eða eins og ein þeirra skrifaði í athugasemdakerfið um þetta framlag Jónínu Ben til #metoo:
„þessi kona sagði nánast það sama um okkur konurnar 7 sem opinberuðu eiginmann hennar, allar yfir okkur ástfangnar af honum og auðvitað allar að ljúga.............. Ég segi nú bara hve oft er hægt að skjóta sig í fótinn og læra ekkert af því.........“
Það má vel vera að það séu ólíkar ástæður fyrir því að Catherine Deneuve og fylgifiskar annarsvegar og Jónína hinsvegar hafa fyrir því að ráðast gegn hinu ágæta #metoo framtaki með því að taka sér þétt stöðu með körlunum. En þá rifjast upp að fyrir margt löngu var skrifað hér á bloggið um styðjandi kvenleika, það er ekki örgrannt um að mér sýnist ofangreindar konur vera nokkuð skýrt dæmi um hann.

Eða hlýtur ekki vera til eitthvað nafn yfir þetta, annað en bara @#$%&?!

Efnisorð: , ,