laugardagur, september 16, 2017

Upphafnir og uppreistir barnaníðingar

Heil helvítis ríkisstjórn sprakk í gær vegna þess að forsætisráðherrann þagði yfir því að faðir hans væri einn þeirra sem greiddi götu barnaníðings. Það má því heita óheppileg ráðstöfun að Ríkissjónvarpið skuli sýna kvikmynd Romans Polanskis í kvöld.

Roman Polanski er barnaníðingur. Þegar hann var 44 ára nauðgaði hann 13 ára stelpu, játaði en flúði frá Bandaríkjunum þar sem hann hafði búið í nærri áratug. Þangað hefur hann ekki átt afturkvæmt því hann er enn eftirlýstur (nauðganir á börnum virðast ekki fyrnast þar í landi) og verður handtekinn og fangelsaður við komuna, stígi hann aftur fæti á bandaríska jörð. Það breytir þó ekki því að fjöldi leikara leikur með glöðu geði í myndum hans og hann hefur gert fjölda kvikmynda í útlegðinni.

Engin ríkisstjórn er í landinu vegna máls barnaníðings: á dagskrá er mynd eftir Polanski

Það vill einnig svo til að fyrir réttu ári, 16. september 2016, skrifaði forseti Íslands á skjal frá dómsmálaráðuneytinu að hann féllist á tillögu þáverandi dómsmálaráðherra Ólöfu Nordal, um uppreist æru barnaíðinga og nauðgara. Sá fyrsti sem við fréttum af var Robert Downey, sem hafði fengið dóm meðan hann hét Róbert Árni Hreiðarsson og lagði mikla vinnu í að tæla til sín og á endanum brjóta kynferðislega á fjölda ungra stúlkna. Næsta nafn: Hjalti Sigurjón Hauksson, hann nauðgaði stjúpdóttur sinni nærri daglega frá því hún var 5-12 ára. Sá þriðji,Sigurður Ágúst Þorvaldsson, hafði hlotið dóm fyrir að nauðga 17 ára stúlku.

Maður hefur gengið undir mann til að hjálpa barnaníðingunum til að hljóta uppreist æru, og hafa sjálfir misst við það mannorðið. Ríkisstjórn fallið.

Það var örugglega ekki með vilja gert hjá starfsfólki Sjónvarpsins að velja þennan dag — sléttu ári eftir að viðbjóðslegir glæpamenn fengu uppreist æru — til að sýna „sígilda“ bíómynd eftir Polanski, með aðfararorðum eins af aðdáendum myndarinnar. Auðvitað gat heldur engan grunað að ríkisstjórnin myndi springa. Dagskráin var kannski ákveðin mörgum mánuðum áður en allt þetta mál um uppreista æru fór af stað.

En í 40 ár hefur heimsbyggðin öll vitað um glæp Polanskis og það er ákaflega undarlegt hjá upplýstu fólki að draga fram myndir eftir hann til að hampa framan í almenning. Og í ljósi alls framangreinds hefði það verið sterkur leikur hjá Ríkissjónvarpinu að fella niður sýningu myndarinnar.

Efnisorð: ,