laugardagur, september 30, 2017

Sturlaður september

Það er algjörlega vonlaust að rekja aðdraganda og fall ríkisstjórnarinnar í einu mánaðaruppgjöri, og verður ekki reynt hér. Hinsvegar verða nokkur önnur mál rifjuð upp. Það nefnilega gerðist fleira í september.

Kvenréttindafélag Íslands gefur öllum fyrsta árs nemum í framhaldsskólum landsins bókina Við ættum öll að vera femínistar eftir Chimamanda Ngozi Adichie, um 4300 ungmennum. Snilldarframtak!

Það var líka gott að Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemi United Silicon kísilverksmiðjunnar í Helguvík við Keflavík í byrjun mánaðarins og er verksmiðjan eiturspúandi nú komin í greiðslustöðvun. Eftir það hefur gengið á með fréttum um svindlibrask fyrrverandi forstjóra og helsta forkólfs verksmiðjunnar.

Sólarkísilverksmiðja Silicor Materials verður ekki reist á Grundartanga. Þetta eru góð tíðindi enda er ekki bætandi á mengandi stóriðju í Hvalfirði.

Sádi-Arabar fengu sólsting og í óráðinu leyfðu þeir konum að keyra bíla. Þetta er svo mikil hraðferð inn í nútímann að mann svimar. Hvað næst?

Eftir einn ei aki neinn, er gamalt slagorð. Því mætti snúa uppá smáfuglana en „Hífaðir þrestir og sjaldgæfir fuglar“ var fyrirsögn lítillar fréttar um þresti og gerjuð ber. Í fréttinni er sagt frá ölvunarflugi þrasta sem hefur stundum hörmulegar afleiðingar. Öl er böl.

Í september gerðist það að Kim Jong-un hafði rétt fyrir sér.
„Kim var engu myrkari í máli en Trump í yfirlýsingu sem kóreska ríkisfréttastofan birti í kvöld“, mátti lesa á vef RÚV 22. þessa mánaðar undir yfirskriftinni Kim segir Trump vera brjálaðan.
„Auk þess að lofa Trump maklegum málagjöldum fyrir hótanir hans í garð Norður-Kóreu dregur Kim geðheilsu hans í efa með vísan til þeirrar „brjálæðislegu hegðunar forseta Bandaríkjanna að nota vettvang Sameinuðu þjóðanna til að lýsa opinberlega siðferðislega forkastanlegum vilja sínum til að 'gjöreyða' fullvalda og sjálfstæðu ríki.“

Talandi um stríð og frið. Stanislav Petrov dó í mánuðinum, en honum er þakkað að hafa komið í veg fyrir kjarnorkustyrjöld, já eiginlega bara bjargað heiminum. Þrátt fyrir að öll mælitæki sýndu að bandarísk kjarnorkuflugskeyti stefndu í átt að Sovétríkjunum ákvað hann að taka mark á innsæi sínu því hann hafði á tilfinningunni að þetta stæðist ekki, væri ekki að gerast eins og einhver myndi líklega orða það í dag. Með því að tilkynna ekki um yfirvofandi árás var heldur engin gagnárás gerð af hálfu yfirboðara hans, og þannig forðaði hann heiminum frá kjarnorkustyrjöld. Þetta er vert að hafa í huga þegar skammast er útí tilfinningarök.

En aðeins aftur að meginumræðuefni þessa mánaðar og reyndar síðustu mánaða. Uppreist æru og meðmælendur hinna uppreistu. Eitt er það fyrirtæki sem hugsanlega komst í var vegna falls ríkisstjórnarinnar en það er Henson. Halldór Einarsson var í stutta stund óvinsælasti maður landsins og íþróttafélög og stuðningsmenn í vandræðum með Henson merktu íþróttabúningana sína. Það má með sanni segja að allt annað hafi fallið í skuggann af þeim upplýsingum að faðir forsætisráðherra skuli hafa veitt barnaníðingnum Hjalta Sigurjóni Haukssyni blessun sína. Það verður því fróðlegt að vita hvort Henson treyjunum verður lagt, eða hvort mönnum finnist nóg að gert nú þegar búið er að svæla refinn úr greninu.

Þó fagna því kannski ekki allir að falla í skuggann af uppreistar æru málum.

Tvær heimildarmyndir voru sýndar í Ríkissjónvarpinu um Guðmundar- og Geirfinnsmálið í sömu vikunni. Sú fyrri var Out of Thin Air (þýdd sem Sporlaust en hefði mátt þýða sem Úr lausu lofti gripið) þar sem allt sakamálið var rakið en hin síðari hét Meinsærið — rangar sakargiftir í Geirfinnsmálinu og snerist um þann þátt málsins sem varð til þess að Sævar Ciesielski, Erla Bolladóttir og Kristján Viðar Viðarsson voru dæmd fyrir meinsæri. Fyrri myndin var sýnd mánudaginn 11. september (en sama dag hafði úrskurðarnefnd um upplýsingamál sagt að dómsmálaráðuneytinu gert að veita aðgang að gögnum um Robert Downey, og umræða næstu daga snerist um þau) en sú síðari fimmtudagskvöldið 14. september — nokkrum klukkutímum áður en ríkisstjórnin sprakk. Það hlýtur að vera sárgrætilegt fyrir Erlu Bolladóttur að þetta bar upp á sama tíma, því ef ekki hefði verið þessi ótrúlega vika með endalausum uppákomum, hefðu allar umræður snúist um Guðmundar- og Geirfinnsmál.

Næsta mánuðinn verður hinsvegar endalaust talað um stjórnmál. Eða eins og við köllum það hér á bloggheimilinu: Jólin, jólin.


Efnisorð: , , , , , , , , , ,