þriðjudagur, september 12, 2017

Þingvetur að hefjast

Þing var sett í dag og fjármálafrumvarp ríkisstjórnarinnar lagt fram. Margt í því var fyrirsjáanlegt en olli samt vonbrigðum.


Fréttaskýring Stundarinnar um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar ber yfirskriftina
Fjárlög: Boða aðhald í heilbrigðismálum, samdrátt í hjúkrunarþjónustu og aukið samstarf við einkafyrirtæki
„Ríkisstjórnin boðar aukið samstarf við einkafyrirtæki í heilbrigðismálum. Útgjöld vegna hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu dragast saman um tæpan hálfan milljarð og aðeins er gert ráð fyrir 597 milljóna aukningu til reksturs Landspítalans og 75 milljóna aukningu til Sjúkrahússins á Akureyri.“
Svo er þetta nánar útlistað:
„Fjárveitingar vegna þjónustu og reksturs Landspítalans aukast um 597 milljónir króna og um 75 milljónir hjá Sjúkrahúsi Akureyrar samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í morgun. Þetta er umtalsvert minni aukning en stjórnendur spítalanna hafa fullyrt að þurfi til að tryggja viðunandi þjónustu við sjúklinga. 

Skýringin liggur aðallega í „stefnu ríkisstjórnarinnar um aðhald í útgjöldum ríkissjóðs“ eins og það er orðað í fjárlagafrumvarpinu. Aðhaldið gerir það að verkum að útgjöld til Sjúkrahússins á Akureyri eru rúmum 40 milljónum lægri en þau ellegar væru og hjá Landspítalanum 332 milljónum lægri.

Þá fellur tímabundið framlag vegna hjúkrunar- og dvalarrýma, meðal annars til að mæta útskriftarvanda Landspítalans, niður á komandi fjárlagaári. Alls lækkar rekstrargrunnur hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu um tæplega hálfan milljarð á næsta fjárlagaári.

Framlög til byggingar nýs Landspítala verða 2,8 ma.kr. og hækka um 1,5 ma.kr. frá fjármálaáætlun. Áfram verður haldið með átak til að bæta núverandi húsnæði Landspítala. Þá er lagt til að veitt verði heimild til aukins samstarfs sjúkrahúsa og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við einkafyrirtæki sem vinna að vísindarannsóknum og þróun nýjunga á sviði heilbrigðismála og læknisfræði. 

Alls aukast útgjöld til sjúkrahússþjónustu úr 83 milljörðum í 85,9 milljarða. Álíka mikil aukning er til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, úr 42 milljörðum í 45 milljarða. Megnið af aukningunni í heilbrigðismálum rennur hins vegar til uppbyggingar nýs spítala eða stafar af áætluðum launa- og verðlagsbreytingum.“
Ríkisstjórn Engeyinganna notaði semsagt ekki sumarið til að endurhugsa fimm ára fjármálaáætlun sína, eins og hún hefði betur gert.
„Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir það sem hún kallar sveltistefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum, sem mörkuð var með fjármálaáætlun til fimm ára sem samþykkt var í vor, sé nú lögfest með fjárlagafrumvarpi næsta árs.“
Katrín segir ennfremur fjárlagafrumvarpið
„ganga í berhögg við ákall kjósenda í síðustu kosningum um að blásið yrði til sóknar í heilbrigðis- og menntamálum og uppbyggingu innviða“.
Ákall kjósenda kom tildæmis fram í 86 þúsund undirskriftum þeirra sem kröfðust þess að Alþingi verji árlega 11% af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins. Með því var ekki átt við að setja allan peninginn í steypubyggingar á spítalalóðinni eða til að hlaða undir einkarekstur vina og ættingja ríkisstjórnarforustunnar.

Það eru fleiri sem eru ekki himinlifandi með fjármálafrumvarpið. Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ:
„Stór velferðarverkefni eru mjög vanfjármögnuð. Þar má nefna rekstur heilbrigðis- og öldrunarþjónustunnar, húsnæðismál, breytingar á almannatryggingakerfinu gagnvart örorku- og lífeyrisþegum og svo sýnist okkur að bætur úr atvinnutryggingakerfinu séu í sögulegu lágmarki í hlutfalli við lægstu laun.“
Þá bendir ASÍ á að útgjöld til barnabóta lækki að raunvirði auk þess sem vaxtabætur lækki verulega eða sem nemur tveimur milljörðum á næsta ár
„Það mun þá þýða fækkun á þeim sem eiga rétt á bótunum og þeim hefur nú þegar fækkað verulega á síðustu árum.“
Hér eru svo nokkur dæmi um hverju þarf að breyta til betri vegar í fjármálafrumvarpinu og raunar allri stefnu ríkisstjórnarinnar.

Magnús Guðmundsson segir í leiðara Fréttablaðsins:
„… á tímabilinu frá 1998 til 2016 jókst skattbyrði langmest hjá þeim tekjulægstu. Þannig að á þessum tíma sáu stjórnvöld ástæðu til þess að ýmist halda í við eða létta álögur á þá sem afla meiri tekna á kostnað þeirra sem eru á því sem í daglegu tali kallast skítakaup. Þannig að á umræddu átján ára tímabili hefur stjórnvöldum tekist að auka skattbyrði t.d. para á lágmarkslaunum með tvö börn og lágmarks eigið fé í húsnæði (20%) um 21%.“
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segir þetta:
„Í nýrri könnun ASÍ kemur fram að skattar hafa hækkað á alla tekjuhópa frá árinu 1998, langmest á þá tekjulægstu. Á þessum 19 árum hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í ríkisstjórn í 15 ár, lengst af í öndvegi. Hann hefur horn í síðu skatta og lítur alls ekki á þá sem leið til tekjujöfnunar. Þess vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn nú og á síðasta kjörtímabili, dregið úr þrepaskiptingu skattkerfisins, afnumið auðlegðarskatt og stórminnkað barna- og húsnæðisstuðning. Álögum hefur verið létt af ríkasta fólki landsins en verið auknar á venjulegt fólk, ekki síst þá tekjulægstu. Þetta er ómannúðleg forgangsröðun í samfélagi þar sem fjöldi fólks, á öllum aldri, berst í bökkum og meira en 6.000 börn búa við skort. Og það í góðæri.“
En einum hóp gleymdi ríkisstjórnin ekki.

Ríkissjóður verður rekinn með 44 milljarða afgangi á næsta ári. Þessa 44 milljarða hefði kannski mátt nota til að styrkja innviðina, hætta sveltistefnunni gagnvart mikilvægum stofnunum samfélagsins? Gera betur við gamla fólkið og öryrkjana? En nei, hverjir haldiði að fái að njóta velvildar ríkisstjórnarinnar? Ferðaþjónustan!
„Hins vegar hefur fyrirhugaðri hækkun á virðisaukaskatti í ferðaþjónustu verið frestað vegna þess að ferðaþjónustugeirinn gagnrýndi hana harðlega. Nú verður skatturinn hækkaður 1. janúar 2019 í stað þess að hækka um mitt næsta ár. Við þetta lækka tekjur ríkissjóðs á árinu 2018 um níu milljarða króna. Með öðrum orðum verða níu milljarðar króna, sem annars hefðu farið til ríkissjóðs, áfram hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu."
— Þar á meðal Kynnisferðum, sem er í eigu fjölskyldu Bjarna Benediktssonar. Erettekki krúttlegt?

En þótt frændurnir B og B séu uppteknir af að hygla sínum líkum (og ættingjum sínum) hafa kjósendur áhuga á að þingið sinni mörgum fleiri málum en komast endilega í fjárlagafrumvarpið. Það verður t.d. að laga margt sem snýr að eltihrellum, stafrænu kynferðisofbeldi, neteinelti, og rannsóknarskyldu lögreglu í vændismálum. Það þarf að auka fjárstuðning við menningarstofnanir (Ríkisútvarpið þar með talið), banna sjókvíeldi í núverandi mynd, auka byggðakvóta á Vestfjörðum og öðrum jaðarsvæðum. Einnig verður stjórnarskráin að komast á dagskrá (forsetinn bað í dag um að skerpt yrði á reglum um stöðu sína). Loka verður eiturspúandi verksmiðjum og hætta við að reisa fleiri, virkja minna en ekki meira, náttúran njóti vafans. Og svo þarf auðvitað að koma í veg fyrir að Mary Iserien (nígerísk, 8 ára) og Haniye Maleki (ríkisfangslaus, 11 ára) verði vísað úr landi, og til lengri tíma litið að gera Útlendingastofnun ljóst að Dyflinarregla er viðmið en gerir það ekki að skyldu að reka alla úr landi sem áður hafa tyllt niður fæti annarstaðar. Í staðinn mætti reka dómsmálaráðherra úr starfi (og hún má taka Bjarna Benediktsson með sér, þann spillingargosa).

Að lokum þetta.

Fyrir tæpum tveimur vikum sagði hinn eljusami baráttumaður Björgvin Guðmundsson þetta:
„Á næsta ári hækka lágmarkslaun á mánuði í 300 þúsund kr. fyrir skatt. Það er of lítið. Eldri borgarar og öryrkjar þurfa að hafa að lágmarki 400 þúsund fyrir skatt. Og að sjálfsögðu eiga lágmarkslaun að vera a.m.k. þessi fjárhæð. Telur einhver þetta of mikið til þess að lifa af? Nei, þetta er ekki of mikið. Þetta er aðeins brot af launum þingmanna, ráðherra og embættismanna. En ráðamenn í þessu landi vilja hafa mismunun í launum; þeir vilja hafa ójöfnuð í landinu.“ 
Þetta er rifjað upp í tilefni af viðtalinu við Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra í fréttum kvöldsins. Þar sagði hann aðspurður um hækkun á elli- og örorkulífeyri til einstaklinga sem búa einir upp í 300 þúsund krónur:
„Það munar auðvitað mjög miklu fyrir einstakling sem er ekki með nema 280 þúsund krónur á mánuði að fá 20 þúsund krónur í viðbót“.
Baldvin Þór Bergsson fréttamaður staldraði við og spurði nánar út í þessi orð, og útskýrði Engeyjarráðherrann þau þannig:
„Þá veltirðu hverri einustu krónu. Þannig að það munar um það. Þetta er ekki eins og fyrir einhvern sem er 600-700 þúsund að þá finnst honum þetta vera kannski minni fjárhæð en þarna erum við að tala um hækkun upp á um sjö prósent."
Þessi veruleikafirrti fjármálaráðherra og frændi hans stýra landinu. Fyrir utan prívat eignir og ættarauðinn eru þeir báðir svo heppnir að Kjararáð ákvarðar laun þeirra, og sker ekki við nögl: í fyrra hækkuðu laun ráðherra um 35% á einu bretti og eru litlar 1.826.273 krónur. Þarna erum við ekki að tala um hækkun uppá nein sjö prósent. Þá frændur munar ekkert um 20 þúsund kall til eða frá en finnst einhvernveginn að sú upphæð hljóti að skila hlutfallslega meiri kaupmætti þegar hún lendir í vasa þeirra sem eru við fátæktarmörk. Gvuð gefi að lítilmagninn muni eftir að vera Engeyjarfrændum þakklátur.

Það verður hlutskipti vinstriflokkanna í stjórnarandstöðu að berjast fyrir breytingum á fjárlagafrumvarpinu og standa gegn einkavæðingarbröltinu. Betra væri þó að Engeyingarnir segðu af sér og leyfðu sér betra fólki að stýra landinu, en sú ósk mín rætist líklega ekkert á næstunni. Við sitjum uppi með þetta sérhagsmunagæslulið, svo sárgrætilegt sem það er.


Efnisorð: , , , , , , , , , , ,