föstudagur, september 08, 2017

Hvalárvirkjun

Fjör hefur færst í náttúruverndarumræðu eftir að Lækna-Tómas við annan mann (Ólaf Má Björnsson augnlækni) skrifaði í blöðin um gönguferð sína um svæði það á Vestfjörðum þar sem stendur til að reisa rafaflsvirkjun í Hvalá. Tómas hefur birt (og mun birta fleiri) myndir af fossum sem munu hverfa ef af virkjunarframkvæmdum verður. Annarsvegar er það alltaf óvinsælt að „vera á móti framförum“ og hinsvegar þykir Tómas óheppilegur kandídat til að gagnrýna það sem gerist á Vestfjörðum því hann er búsettur í Reykjavík. Sumir Vestfirðingar virðast jafnvel telja að hann líti niður á þá vegna þess að hann sagði að þeir væru að láta plata sig með Hvalárvirkjun.

Allt hljómar þetta eins og endurtekið efni: áður var það Kárahnjúkar, Austfirðingar og Andri Snær Magnason. Nú eru eflaust margir Austfirðingar hæstánægðir með Kárahnjúkaframkvæmdina og álverið á Reyðarfirði sem nýtir rafmagnið þaðan (þá helst þeir sem vinna í álverinu eða búa nálægt og hafa atvinnu sem tengist álverinu á einhvern hátt) en einhverjum fannst svona eftir á að hyggja – ekki síst þegar í ljós kom hvernig fór um Lagarfljót — að þetta hefði nú kannski verið helst til skaðræðisleg framkvæmd.

En nú á semsagt að virkja fyrir vestan. Virkja á fallega fossa í fallegu landslagi sem er eitt af þessum ósnortnu víðernum sem fara óðum minnkandi hér á landi. Vestfirðingar vilja ólmir virkja (þ. á m. meirihluti hreppsnefndar Árneshrepps), og segja að það muni bæta til muna rafmagn og netið og alla þjónustu og vegina … Þeir telja virkjun semsagt til mikilla framfara og sjá fyrir sér aukin atvinnutækifæri og almennan uppgang. (Það sama segja þeir um laxeldi í sjókvíum.)

En ef marka má gagnrýnisraddir þá munu íbúar Árneshrepps sjálfir lítt fá útúr því að náttúran sem er næst þeim verði skemmd heldur muni annarsvegar Vestfirðingar á öðrum stöðum á Vestfjarðarkjálkanum njóta þess (í einhverjum mæli) en þó aðallega stóriðja á suðvesturhorninu, nánar tiltekið á Reykjanesskaganum þar sem hin geðþekka verksmiðja United Silicon hefur þegar verið reist, öllum til ómældrar gleði. (Það voru líka úrtöluraddir og neikvætt atvinnuhatandi fólk í 101 Reykjavík sem „talaði niður“ stóriðju á Suðurnesjum, en það má auðvitað ekki ræða það núna.) Það eru að auki, segir Tómas sömu fjárfestar sem eiga í fyrirhuguðum verksmiðjum á Suðurnesjum og berjast fyrir norður á Ströndum.
„Ljóst er að rafmagn frá Hválárvirkjun verður að stórum hluta nýtt til stóriðju fyrir sunnan, enda framleiðslan langt umfram þarfir Vestfjarða, sérstaklega þar sem Orkubú Vestfjarða framleiðir í dag í kringum 90 gígawattstundir árlega, aðallega í Mjólkurárvirkjun. Framkvæmdaaðilar við virkjunina eru aðallega tveir, HS Orka og Vesturverk. Tengsl HS Orku við stóriðju á Íslandi eru sterk en hún er í 68% eigu kanadísks fjárfestis. HS Orka er síðan eigandi að 70% Vesturverks. Ljóst er að orku vantar til stóriðju fyrir sunnan, til dæmis fyrir umdeild kísiliðjuver United Silicon í Helguvík. Áhugi HS Orku og Vesturverks á virkjun Hvalár er því mikill.“
Tómas segir að það trufli þá Ólaf félaga hans að
„eigandi Eyvindarfjarðarár sé ítalskur huldu-barónn sem selt hefur vatnsréttindi sín til kanadísks milljarðamærings, Ross Beaty, sem er eigandi 68% hlutar í HS Orku - fyrirtækis sem síðan á 70% í Vesturverki, framkvæmdaaðila virkjunarinnar. Því er vandséð að íslenskir eða vestfirskir hagsmunir séu í forgangi.“
Elín Agla Briem, íbúi í Árneshreppi segir hreint út: „Þannig er Vesturverk í raun handbendi Ross Beaty.“

Tómas segir að:
„Virkjanaárátta er stórt vandamál á Íslandi. Ljóst er að gríðarlegir hagsmunir er í húfi hjá orkufyrirtækjum og fjölda verktakafyrirtækja sem á síðustu 50 árum hafa tekið þátt í að auka orkuframleiðslu Íslendinga rúmlega tífalt.“
Talandi um orkuframleiðslu.
„Hvalárvirkjun hefur sífellt verið að stækka á teikniborðinu, og er nú 55 MW, sem er langt umfram orkuþörf Vestfjarða. Nafnið er úlfur í sauðagæru, enda ljóst að auk þeirra 35 MW sem fást með virkjun Hvalár og Rjúkanda bætast 20 MW við með virkjun Eyvindarfjarðarár. Réttara heiti væri því Hvalár-, Rjúkanda- og Eyvindarfjarðarárvirkjun, en í síðastnefndu ánni eru flestir af tilkomumestu fossunum – fossar sem heimamenn segja okkur að þeir myndu sjá mest eftir.

Það er ótrúlegt að svo breyttri „Hvalárvirkjun“ hafi verið laumað í gegnum þarsíðustu Rammaáætlun, án nauðsynlegrar kynningar og umræðu. Það ferli virðist götótt og kanna þarf hvort reglum hafi verið fylgt. Við teljum eðlilega kröfu að umhverfisáhrif virkjunarinnar verði metin að nýju, ekki síst fyrir þá staðreynd að nú er ljóst að tugir tilkomumikilla fossa í Eyvindarfjarðará munu að mestu þurrkast upp.“ 
Elín Agla bendir á
„Hvaleyrarvirkjun er 55 megavattavirkjun en Landsnet hefur aðeins lýst sig reiðubúið að kaupa 10 megavött fyrir Vestfirði,“ segir Elín Agla og bætir við: „Það eru valkostir um miklu minni virkjanir á Vestfjörðum sem myndu uppfylla þessa 10 megavattaþörf með miklu minna raski en Hvalárvirkjun.“
Lækna-Tómas hefur, eins og tæpt var á hér að ofan, verið gagnrýndur fyrir að skipta sér af því sem honum kemur ekki við, vera hrokafullur, tala niður til Vestfirðinga og ég veit ekki hvað og hvað. Í grein sem birtist í Fréttablaðinu og á Vísi í dag svarar hann þessum ásökunum og kemst þá þannig að orði:
„Með þessu viljum við kynna fyrir almenningi, ráðamönnum og þeim sem koma að þessari umdeildu framkvæmd hvað er í húfi. Og það gerum við á forsendum náttúrunnar. Ástæðan er sú að okkur hefur fundist skorta mjög á upplýsingagjöf um framkvæmdina og við teljum að náttúran á þessu stórkostlega svæði hafi ekki fengið að njóta vafans. Við erum ekki aðeins að beina spjótum okkar að framkvæmdaaðilum virkjunarinnar, HS Orku og Vesturverki, heldur ekki síður þeim sem veitt hafa virkjuninni brautargengi í Rammaáætlun og sveitarstjórn Árneshrepps.“
Það er ekki ný saga að sveitastjórnir liðki til fyrir virkjunaráformum. Það gerðist þegar Kárahnjúkavirkjun var reist, og þá hafa áform um frekari virkjanir í Þjórsá fengið góða smurningu í formi allskyns kostatilboða á borð við brúarsmíð og ljósleiðara. Sama er uppi á teningnum í Árneshreppi.
Elín Agla Briem segir höfðingjana í HS Orku búna að kasta ljósleiðara sem agni til íbúa Árneshrepps. „Það er svo auðvelt að koma og segja: „Heyrðu, við skulum redda ljósleiðara og hvað viljið þið meira? Klæðningu á skólahúsið?“ Það er eitt af samfélagsverkefnunum sem þeir vilja taka þátt í. Þá er heimafólk í erfiðri stöðu og ég skil alveg fólk sem kaupir þetta, þó ég sé ekki sammála því. Byggðastefna á Íslandi er bara stóriðjustefna því með henni geta stórfyrirtæki farið inn í sveitarfélög og lofað gulli og grænum skógum.“
Í augum náttúruverndarsinna skiptir náttúran auðvitað mestu máli. Þótt ekki verði af Hvalárvirkjun eru aðrir möguleikar í stöðunni. Á þá benti Tómas í fyrstu greininni: „Nærtækara og skynsamlegra er að leggja frekar áherslur á bættar samgöngur og sanngjarnari byggðakvóta til fiskveiða en virkja ósnortna náttúruperlu“.

Atkvæði Vestfirðinga hafa margfalt vægi á við lattelepjandi atkvæðin. Vestfirðingar gætu beitt atkvæðamagni sínu (beita þingmenn þrýstingi) til að fá byggðakvóta og samgöngubætur, og væri það betra til langframa heldur en þiggja sælgæti frá gírugum fésýslumönnum sem hafa hámarksgróða í öndvegi en hvorki fólk né náttúru.

En svo getur auðvitað vel verið að virkjunarmenn fái sínu fram, þeir kunna til þess leiðir, eins og Elín Agla hefur áttað sig á:
„Þetta er ekkert útkljáð og auðvitað er erfitt að standa gegn peningaöflunum sem þarna eru að verki“.


___

Búið er að skrifa helling um fyrirhugaða Hvalárvirkjun og ekkert lát virðist á. Hér eru nokkrar frréttir en aðallega greinar með og á móti.* Byrjað er á tveimur greinum frá í fyrra eftir formann Landverndar.

Snorri Baldursson, Hvalárvirkjun á Ströndum: Mikil og óafturkræf umhverfisáhrif, 14. september 2016, https://kjarninn.is/skodun/2016-09-14-hvalarvirkjun-strondum-mikil-og-oafturkraef-umhverfisahrif/

Snorri Baldursson, Hvalárvirkjun á Ströndum: Ríkisstyrkur til einkaaðila, 15. september 2016, https://kjarninn.is/skodun/2016-09-14-hvalarvirkjun-strondum-rikisstyrkur-til-einkaadila/

[Skipulagsstofnun] Telur verulega neikvæð áhrif af Hvalárvirkjun, 4. apríl 2017, http://www.ruv.is/frett/telur-verulega-neikvaed-ahrif-af-hvalarvirkjun

Óskiljanlegt að Landvernd vilji hindra framfarir í Árneshreppi segir oddvitinn, 22. júní 2017, http://www.visir.is/g/2017170629712 

[Sumir] Íbúar [Árneshrepps] ánægðir með fyrirhugaða virkjun í Hvalá, 25. júní 2017, http://www.visir.is/g/2017170629326

Hvalárvirkjun bæti raforkuöryggi Vestfirðinga [segja forsvarsmenn virkjunarinnar], 26. júní 2017,
http://www.ruv.is/frett/hvalarvirkjun-baeti-raforkuoryggi-vestfirdinga

Saka Vesturverk um að gefa skakka mynd af afstöðu til Hvalárvirkjunar, 26. júní 2017, http://www.visir.is/g/2017170629215

Sjálfstæðismenn komnir með uppí kok af Lækna-Tómasi og öðrum náttúruverndarsinnum, 3. júlí 2017, http://www.visir.is/g/2017170709773

Mjög fagurlega myndskreytt grein eftir Tómas Guðbjartsson, Fossarnir sem hverfa, 22. júlí 2017, https://stundin.is/grein/5125/fossarnir-sem-hverfa/

Viðtal við Elínu Öglu Briem: Virkjunarmálið snertir djúpar tilfinningar, 5. ágúst 2017, http://www.visir.is/g/2017170809490

Tómas Guðbjartsson, Stóriðju- og virkjanaárátta – stríð á hendur ósnortnum víðernum, 8. ágúst 2017, http://www.visir.is/g/2017170809246

Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, Fossar til framtíðar í stað Hvalárvirkjunar, 30. ágúst 2017, http://www.visir.is/g/2017170839999

Auglýsa skipulag fyrir virkjun í Strandasýslu, 4. september 2017, http://www.visir.is/g/2017170909593

Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar gagnrýnir Lækna-Tómas: Vestfirðingum ekki boðið að borðinu, 5. september 2017, http://www.ruv.is/frett/vestfirdingum-ekki-bodid-ad-bordinu

Fréttaskýring [vegna ummæla um rammaáætlun]: Hvalá: Ásakanir um blekkingar bornar til baka, 7. september 2017, http://fotspor.is/wordpress/wp-content/uploads/2017/09/vestfirdir_7sept_16sidur_web.pdf (bls. 9).

Tómas Guðbjartsson, Umræða um Hvalárvirkjun á villigötum [andsvar við herferð Nannýjar Örnu], 8. september 2017, http://www.visir.is/g/2017170909021/umraeda-um-hvalarvirkjun-a-villigotum-

Að lokum má kannski minna á pistil frá 2013 eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson, um baráttu milli verndarsinna og heimamanna, http://www.dv.is/blogg/pall-asgeir-asgeirsson/2013/5/29/omar-ragnarsson-og-diane-fossey/

* Það er reyndar afar vond hugmynd að birta svona lista yfir fréttir og greinar um umdeild mál. Það hefur áður verið gert hér á blogginu, um mál Roberts Downey (áður Róberts Árna Hreiðarssonar) og um laxeldi í sjókvíum. Síðan listarnir voru fyrst birtir (með það að markmiði að safna saman á einn stað öllu því sem skrifað væri um þessi mál) hefur varla liðið sá dagur að fréttir og greinar hafi ekki bæst við, og hefur ritari bloggsins löngu gefist upp við að færa það til bókar. Ekki verður gengið í sömu gryfjuna hér því þessi upptalning á greinum um Hvalárvirkjunaráform verður ekki uppfærð.



Efnisorð: , ,