þriðjudagur, júlí 18, 2017

St. Brynjar

Karl Th. Birgisson skrifar merkilega úttekt á störfum og sálarlífi Brynjars Níelssonar í Stundina sem kom út fyrir nokkrum dögum (og lesa má á vef blaðsins). Þetta er opnugrein, mikill texti og skiptist í þessa hluta:

Letinginn og lögmaðurinn
Þingmaðurinn — og flokksmaðurinn
Brynjar sýknar Steingrím
Næstum því genginn í VG
Þingstörfin
Wesserbisser

Stutta útgáfan af því sem Karl Th. hefur um Brynjar að segja er strax í heiti greinarinnar og inngangi: Heiðarlegi, lati og stuðandi þingmaðurinn. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er einn umdeildasti alþingismaðurinn vegna yfirlýsinga sinna. Brynjar kynnir oft sannfæringu í orði, en fylgir flokkslínu í framkvæmd. Hann þykir sanngjarn og heiðarlegur.

Og svo er Brynjar bara mærður og dásamaður nánast útí eitt. Brynjari er mjög umhugað um þá sem hallar á. Má ekkert aumt sjá. Hann hefur svo góðan húmor fyrir sjálfum sér. Hann er einkar hjálpsamur maður og örlátur. Einkar barngóður maður. Brynjar Níelsson er heiðarlegur maður.

Það er reyndar rifjað upp að hann varði Guðmund í Byrginu, Gunnar í Krossinum og Geira í Goldfinger (hafi einhver gleymt því og verið hissa þegar Brynjar sagði að í öllum betri bæjum eigi að vera strípistaðir). Hann tekur mjög harða afstöðu um sönnunarfærslu í kynferðisbrotamálum og á nýlega lýsti hann sig mótfallinn nálgunarbanni (sem Brynjari finnst vera refsing). Hvernig þetta rímar við að vera umhugað um þá sem hallar á (þ.e. þolendur kynferðisbrota og ofbeldis af margvíslegu tagi) er erfitt að skilja. Já og svo vill hann fangelsa konur (nú eða pabbann ef þannig vill til) sem tálma umgengni við börn sín. En jújú, Karl bendir á að Brynjar sé að hugsa sinn gang í því máli.

Eina alvöru fréttin í þessari úttekt er að Brynjar hefur aðeins lagt fram tvö þingmál að eigin frumkvæði, þar af var annað þeirra eina lagafrumvarpið sem hann hefur lagt fram á þingferli sínum. Og það er einmitt frumvarp um breytingu á barnaverndarlögum í þá veru að tálmun teljist vanræksla eða ofbeldi, og viðurlögin eigi að vera fimm ára fangelsi. Það er nú fallega hugsað af Brynjari að vilja svipta börnin móður sinni árum saman,

Vegna þess auðvitað að Brynjar getur „fátt hugsað sér verra en að farið sé illa með varnarlaus börn“. Að svipta börnin móður sinni árum saman í heil fimm ár flokkast auðvitað undir að vera einkar barngóður.

Er þessi úttekt Karls Th. keypt umfjöllun?

Efnisorð: , , , , , ,