föstudagur, júlí 28, 2017

Nauðgarar hafa nefnilega tilhneigingu til að gangast ekki við glæpum sínum heldur safna liði

Mörg skjalfest dæmi eru til um það að nauðgarar njóti stuðnings vina, kunningja og ættingja (og séu þeir þekktir í samfélaginu styður ókunnugt fólk þá líka) þegar þeir eru ásakaðir um glæpinn sem þeir frömdu. Þeir sem umgangast nauðgarann fá hans útgáfu af sögunni (sem er í stystu máli sú að þeir myndu aldrei gera svona og að stelpan sé að ljúga) og trúa honum vegna þess að þeir vilja ekki trúa neinu svona, því enginn vill þekkja nauðgara. Og svo er lagst í vörn fyrir „meinta nauðgarann“, hamast á samfélagsmiðlum eða efnt til undirskriftarsöfnunar. Alltaf hlýtur stelpan/konan að vera að ljúga, því tilhneigingin til að trúa því að konur upp til hópa ljúgi kynferðisofbeldi uppá karlmenn er sterk.

Vinir Elvars Sigmundssonar* trúðu honum þegar hann sagði stelpu hafa logið uppá sig að hann hefði nauðgað henni. Hann fékk þá til að sækja að henni og hóta henni. Þeir sögðust berja bróður hennar ef hún drægi ekki kæruna til baka, alveg sannfærðir um að hún væri að ljúga og Elvar væri ekki nauðgari. Viku síðar voru þeir hreinlega vitni að annarri nauðgun sem Elvar framdi. Þurftu að hlúa að fórnarlambi hans meðan beðið var eftir lögreglu. Það má segja þeim til hróss að þeir fóru eftir þetta til fyrri stúlkunnar, þessarar sem þeir hótuðu áður, og báðu hana afsökunar. Eftir stendur að þeir stóðu með nauðgara (áður en þeir vissu sannleikann) og gengu erinda hans.

Vonandi verður frásögn þeirra til þess að fleiri hugsi sig tvisvar um áður en þeir leggja trúnað á yfirlýsingar um sakleysi sé vinur þeirra sakaður um nauðgun.


___
* Elvar Sigmundsson framdi tvær nauðganir sem hann var kærður og dæmdur fyrir á síðasta ári. Hann var handtekinn strax sama dag og hann framdi fyrri nauðgunina en sleppt lausum og viku síðar framdi hann aðra nauðgun, fórnarlambið var 15 ára stúlka eins og í fyrra skiptið. Hann var dæmdur um áramótin í fimm ára og sex mánaða fangelsi en er þegar sloppinn út og er á Vernd.

Áður hefur verið skrifað um glæpi Elvars hér á síðunni. Fyrst í ágúst í fyrra skömmu eftir að raðnauðgarinn framdi glæpi sína, og svo fyrir viku síðan þegar ljóst var honum hafi verið sleppt lausum meðal almennings, og við þá bloggfærslu bætast nú slóðir á umfjöllun DV um Elvar og glæpi hans.

Efnisorð: , , ,