miðvikudagur, júlí 26, 2017

Þjóðgarður stækkar

Það var falleg mynd og gleðileg frétt á forsíðu Fréttablaðsins í morgun. Myndin af Jökulsárlóni og meðfylgjandi texti fjallaði um friðlýsingu lónsins og svæða sem að því liggja „en með friðlýsingunni er svæðið fellt inn í Vatnajökulsþjóðgarð. Með þessu nær þjóðgarðurinn nú frá hæsta tindi landsins og niður að fjöru.“ Sannarlega jákvætt framtak og góð frétt.

Hvernig ber þá að skilja gjörningaþokuna sem skyggði á fyrirhugaðan hitabólginn og sólríkan sumardaginn? Eða jarðskjálftana sem einnig hristu upp í tilveru okkar hér á suðvesturhorninu? Og nú fyrir skemmstu skalf Mýrdalsjökull líka. Svarið er sennilega að náttúruna varðar ekkert um huglæg mörk þjóðgarða, hvað þá sólarfrí launaþræla. Náttúruverndarsinnar fagna nú samt og við lítum á það sem góða áminningu að náttúran er okkur stærri í öllum skilningi.

Efnisorð: