fimmtudagur, júní 08, 2017

Landsréttardómararnir

„Í dag, 8. júní, staðfesti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, skipun 15 dómara í Landsrétt. Tilkoma þessa nýja millidómstigs gjörbreytir íslensku réttarkerfi þegar dómstóllinn tekur til starfa um næstu áramót. Einnig er einsdæmi að svo margir dómarar séu skipaðir í einu.“
Á vef Ríkisútvarpsins má lesa allt um ættir og tengsl dómaraefnanna fimmtán við stjórnmál og viðskiptalíf. Nærri helmingur dómaraefnanna er með sterk tengsl inn í Sjálfstæðisflokkinn og sitjandi þingmenn og (núverandi og fyrrverandi) ráðherra hans. Klíkuráðningar þess flokks eru þekktar þegar kemur að því að manna stöður í embættismannakerfinu og dómskerfinu. Það ætti því ekki að koma á óvart að enn einn náinn ættingi Davíðs Oddssonar fær dómarastarf.
„Dómarar við nýjan Landsrétt hafa margir tengsl við íslenskt viðskiptalíf og stjórnmál. Lögregla gerði húsleit heima hjá einum þeirra eftir hrun. Sá sami er kvæntur stjórnarmanni í þremur stórfyrirtækjum. Einn dómari situr í stjórn fjármálafyrirtækis og stórrar heildsölu, á hlut í Klíníkinni í Ármúla og er kvæntur stjórnarformanni Klíníkurinnar, annar er giftur eiganda fjármálafyrirtækis og einn er giftur eiganda stórs verktakafyrirtækis.“

„Ein þeirra sem skipuð var landsréttardómari er frænka Bjarna Benediktssonar, önnur náskyld Davíð Oddssyni, þriðji er frændi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ritara Sjálfstæðisflokksins, fjórða er gift Brynjari Níelssyni þingmanni flokksins, fimmti kvæntur Ásdísi Höllu Bragadóttur fyrrverandi framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og sjötti er fyrrverandi varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og svili Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Sá síðastnefndi er sá eini sem hefur verið kjörinn pólitískur fulltrúi.

Einn dómari á son sem var í framboði fyrir Samfylkinguna 1999, einn á tengdaföður sem var á lista Viðreisnar í síðustu þingkosningum og móðursystir eins er ekkja fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins.

Einn landsréttardómari er meðal eigenda lögmannsstofu þar sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra starfaði um árabil og annar er kvæntur öðrum eiganda á sömu lögmannsstofu.“
Smæð íslensks þjóðfélags er reyndar slíkt að ekki ætti að koma óvart að allir eru tengdir einhverju eða einhverjum sem gæti verið óheppilegt þegar kemur að því að sinna dómarastörfum. En það er samt sem áður vert að lesa listann og fletta uppí honum síðar þegar dómar taka að falla í Landsrétti.
„Í ljósi þessa, og að nú eru í dómskerfinu umfangsmikil sakamál þar sem ólík tengsl og ummæli dómara hafa leitt til endurflutnings málanna, hefur fréttastofa gert óformlega úttekt á bakgrunni og stjórnmála- og viðskiptatengslum landsréttardómaranna. Þá fylgir líka lítilsháttar ættfræði.

Úttektin er meðal annars byggð á upplýsingum úr fyrirtækjaskrá og ársreikningum, úr umsögn hæfnisnefndar, af netinu og úr Lögfræðingatali, og á samtölum við alla 15 dómarana. Upptalningin er alls ekki tæmandi, til að mynda um tengsl við félög eða um fjölskyldubönd. Sumt er aðeins sett fram til fróðleiks og skemmtunar.“
Vegna þess að vefur Ríkisútvarpsins hefur ekki reynst varanleg heimild er hér brugðið á það ráð að afrita í næstum heilu lagi (án mynda) þessa úttekt Tryggva Aðalbjarnarsonar á landsréttardómurum:

Hér á eftir er fjallað um alla dómarana 15 í stafrófsröð.

Aðalsteinn E. Jónasson
Aðalsteinn Egill Jónasson er fimmtugur hæstaréttarlögmaður og einn af eigendum LEX lögmannsstofu,* þar sem hann hefur starfað með hléum frá því hann lauk lögfræðiprófi árið 1992. Sigríður Andersen dómsmálaráðherra starfaði um árabil sem lögmaður hjá LEX. Aðalsteinn er með framhaldspróf í lögfræði frá Harvard-háskóla.

Hann gegndi fyrir hrun um tíma starfi framkvæmdastjóra lögfræðisviðs bæði hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, sem síðan sameinaðist Íslandsbanka, og hjá Straumi fjárfestingabanka. Hann var líka um tíma framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Gnúps fjárfestingafélags, sem var fyrir hrun einn af stærstu hluthöfum fjárfestingarrisans FL Group. Aðalsteinn var í mörg ár lektor og síðar dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, og hefur líka kennt við lagadeild Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað tvær bækur um fjármálalögfræði.

Aðalsteinn er varaformaður stjórnar Persónuverndar og vann fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um fall bankanna. Hann er stjórnarformaður heildsölufyrirtækjanna Nathan & Olsen og Ekrunnar og tengdra félaga. Hann situr jafnframt í stjórn fjármálafyrirtækisins Fossa markaða. Hann sat einnig í stjórn Lögmannafélags Íslands um árabil og hefur setið í ýmsum nefndum.

Eiginkona Aðalsteins er Ásdís Halla Bragadóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Garðabæ. Hún var um tíma framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Eftir að hún hætti sem bæjarstjóri var hún forstjóri BYKO. Ásdís Halla situr í dag í stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins.

Aðalsteinn og Ásdís Halla stofnuðu saman árið 2007 félagið EVA consortium hf. sem fjárfestir í velferðarþjónustu, og er meðal annars stór hluthafi í Klíníkinni við Ármúla. Ásdís Halla er stjórnarformaður Klíníkurinnar. Aðalsteinn og Ásdís Halla eiga samkvæmt nýjustu ársreikningum rúmlega þriðjungshlut í EVA consortium í gegnum félag sitt Gekka ehf.

Foreldrar Aðalsteins eru Jónas A. Aðalsteinsson lögmaður og Guðrún Ragnhildur Eiríksdóttir húsmóðir. Systir Aðalsteins er Lilja Jónasdóttir lögmaður.

Aðalsteinn var í 5. sæti í mati hæfnisnefndar um mat á umsækjendum um embætti dómara við Landsrétt.

Arnfríður Einarsdóttir
Arnfríður Einarsdóttir er 57 ára dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hún hefur starfað hjá ríkinu allt frá því hún útskrifaðist með lögfræðipróf frá Háskóla Íslands árið 1986. Hún vann hjá borgarfógetaembættinu og yfirborgardómaranum í Reykjavík og Héraðsdómi Reykjavíkur, og varð skrifstofustjóri dómsins 1999. Hún var skipuð héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjaness 2006. Frá 2010 hefur hún verið dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hún er jafnframt forseti Félagsdóms, sem dæmir í deilum stéttarfélaga og samtaka vinnuveitenda.

Arnfríður er með próf í opinberri stjórnsýslu og stjórnun frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Hún sat um árabil í málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Hún hefur líka setið í ýmsum ráðum og nefndum á vegum Þjóðkirkjunnar.

Eiginmaður Arnfríðar er Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins. Hann starfaði áður sem lögmaður og var um tíma formaður Lögmannafélags Íslands. Einn sonur Arnfríðar og Brynjars er Einar Brynjarsson, lögmaður á lögmannsstofunni Fjeldsted & Blöndal. Annar nýskipaður landsréttardómari, Jóhannes Sigurðsson, er meðal eigenda þeirrar lögmannsstofu.

Foreldrar Arnfríðar voru Henný Dagný Sigurjónsdóttir húsmóðir og Einar Þorsteinsson hárskeri.

Arnfríður var í 18. sæti í mati hæfnisnefndarinnar, og var því ekki meðal þeirra 15 sem nefndin taldi hæfasta.


Ásmundur Helgason
Ásmundur Helgason er 47 ára dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hann lauk laganámi árið 1999. Áður en hann varð dómari vann hann meðal annars hjá umboðsmanni Alþingis og sem aðallögfræðingur Alþingis. Hann var skipaður héraðsdómari í Reykjavík vorið 2010 og hefur einnig setið í Félagsdómi frá 2014.

Ásmundur hefur meðal annars verið formaður fornleifanefndar, var formaður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli Haga gegn Samkeppniseftirlitinu, og hefur kennt við lagadeild Háskóla Íslands. Áður en hann lærði lögfræði lauk Ásmundur prófi í sagnfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands.

Eiginkona Ásmundar er Sigurborg Sólveig Guðmundsdóttir, viðskiptafræðingur og leikskólakennari. Hún starfar sem fjármálastjóri Hostel LV 105 hf., rekstrarfélags hótelsins og farfuglaheimilisins Hlemmur Square í Reykjavík. Sigurborg sat einnig um tíma í stjórn félagsins. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru endanlegir eigendur hótelsins bróðir Sigurborgar, Auðun Már Guðmundsson fjárfestir, og breski lögmaðurinn Stephen David Jones.

Ásmundur er sonur Helga E. Helgasonar, fyrrverandi varafréttastjóra Ríkissjónvarpins og fréttamanns þar um áratugaskeið. Faðir Helga var Helgi Sæmundsson, skáld og ritstjóri Alþýðublaðsins. Móðir Ásmundar er Ásdís Ásmundsdóttir, dóttir Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara.

Ásmundur var í 17. sæti í mati hæfnisnefndarinnar, og var því ekki meðal þeirra 15 sem nefndin taldi hæfasta.


Davíð Þór Björgvinsson
Davíð Þór Björgvinsson er 61 árs prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Hann er settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem nú er á leið aftur fyrir Hæstarétt.

Davíð Þór lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1985 og síðan framhaldsprófi frá Duke-Háskóla í Norður-Karólínu. Davíð hefur meðal annars unnið á lögmannsstofum, hjá yfirborgardómara í Reykjavík og sem prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hann var dómari við Mannréttindadómstól Evrópu í níu ár og um tíma prófessor við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla.

Hann hefur tekið þátt í að semja lagafrumvörp og setið í refsiréttarnefnd. Hann var um tíma formaður mannanafnanefndar.

Davíð Þór hefur verið formaður Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og setið í vísindasiðanefnd. Hann hefur skrifað fjórar bækur um lögfræði og mikinn fjölda ritrýndra bókakafla og fræðigreina. Áður en hann lærði lögfræði lauk hann prófi í sagnfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi í lögfræði frá háskólanum í Strassborg 2013.

Fyrrverandi eiginkona Davíðs Þórs er Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Foreldrar Davíðs Þórs voru Björgvin Ólafsson, vagnstjóri hjá Strætisvögnum Reykjavíkur, og Guðfinna Guðlaugsdóttir, húsmóðir og verkakona. Systir Davíðs Þórs er Guðlaug Björgvinsdóttir, sem er gift Halldóri Halldórssyni, framkvæmdastjóra harðfiskframleiðandans Tradex, sem selur vörur sínar meðal annars undir merkjunum Gullfiskur og Gæðafiskur.

Davíð Þór var í 1. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.


Hervör Þorvaldsdóttir
Hervör Lilja Þorvaldsdóttir er 60 ára dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Eftir að hún lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1985 vann hún meðal annars hjá yfirborgardómaranum í Reykjavík. Árið 1992 var hún skipuð dómari við Héraðsdóm Vesturlands. 1998 var hún skipuð dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Haustið 2012 var hún kosin varadómstjóri þar og hefur verið starfandi dómstjóri frá því í desember í fyrra.

Hervör stundaði framhaldsnám í lögfræði við Óslóarháskóla. Hún hefur verið formaður landskjörstjórnar og kennt við Háskólann í Reykjavík. Hervör er varaformaður dómstólaráðs og situr í gjafsóknarnefnd. Hún hefur setið í stjórn Dómarafélags Íslands og stjórn Lögfræðingafélags Íslands.

Fyrrverandi eiginmaður Hervarar er Örn Erlendur Ingason bæklunarskurðlæknir.

Systkini Hervarar eru Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari, Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna og Þórhallur Haukur Þorvaldsson lögmaður. Foreldrar þeirra voru Ásdís Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur og Þorvaldur Lúðvíksson lögmaður. Þorvaldur var móðurbróðir Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra. Davíð og Hervör eru því systkinabörn. Sonur Davíðs er Þorsteinn Davíðsson, dómari við Héraðsdóm Norðurlands eystra, og eru Hervör og hann því skyld í annan og þriðja lið.

Skipun Ólafs Barkar sem hæstaréttardómara árið 2003 var umdeild, meðal annars vegna skyldleika hans við Davíð. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra skipaði Ólaf Börk í embættið þótt tveir aðrir umsækjendur hefðu verið metnir hæfari.

Skipun Þorsteins Davíðssonar árið 2007 var líka umdeild. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði sig frá ráðningunni þar sem Þorsteinn hafði áður verið aðstoðarmaður hans í ráðuneytinu. Árni Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, sá um skipunina. Hann skipaði Þorstein í embættið þótt þrír aðrir umsækjendur hefðu verið metnir hæfari.

Ráðning Hrafnhildar Ástu árið 2013 var jafnframt umdeild. Stjórn LÍN hafði metið þrjá umsækjendur hæfasta, þar á meðal Hrafnhildi Ástu. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra skipaði Hrafnhildi Ástu. Annar umsækjandi, sem stjórnin hafði raðað skör framar í hæfnismatinu, höfðaði dómsmál gegn ríkinu, en tapaði því, enda þótti ósannað að ráðningin hefði verið ómálefnaleg eða ólögmæt.

Dómnefnd hefur tvisvar metið hæfi Hervarar og í bæði skiptin hefur hún verið metin hæfust eða í hópi hæfustu. Þegar hún sótti um héraðsdómaraembætti á Vesturlandi var hún metin hæfust. Hervör var í 15. sæti í mati hæfnisnefndar um Landsrétt.


Ingveldur Einarsdóttir
Ingveldur Þuríður Einarsdóttir er 58 ára dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, en hefur starfað sem settur hæstaréttardómari frá ársbyrjun 2013. Eftir að hún lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1985 vann hún hjá yfirborgarfógetanum í Reykjavík og Héraðsdómi Reykjavíkur. Ingveldur var skipuð héraðsdómari haustið 1999, fyrst við Héraðsdóm Suðurlands, en frá 2004 við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Ingveldur hefur verið formaður barnaverndarráðs, kærunefndar barnaverndarmála, dómstólaráðs og Dómarafélags Íslands. Hún lauk framhaldsprófi í lögfræði frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð og hefur stundað framhaldsnám við Óslóarháskóla.

Eiginmaður Ingveldar er Ársæll Friðriksson, kennari í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Sonur þeirra er Friðrik Ársælsson lögmaður. Friðrik og eiginkona hans, Rakel Eva Sævarsdóttir, eiga og reka ásamt vinahjónum sínum veitingahúsið Borðið við Ægisíðu í Reykjavík. Annar sonur Ingveldar og Ársæls er Eiríkur Ársælsson, fjármálaverkfræðingur hjá Arion banka.

Bróðir Ingveldar er Ingimundur, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur og fyrrverandi varalögreglustjóri í Reykjavík og bæjarstjóri á Siglufirði. Móðir þeirra var Erla Axelsdóttir húsmóðir. Föðurbróðir hennar var Haraldur Böðvarsson stórútgerðarmaður á Akranesi.

Faðir Ingveldar og Ingimundar var Einar Ingimundarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og sýslumaður og bæjarfógeti víða um land. Móðir Einars var Ingveldur Einarsdóttir, systir Eiríks Einarssonar þingmanns Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, og föðursystir Steinþórs Gestssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins og söngvara í MA-kvartettinum og Þorgeirs Gestssonar læknis og söngvara í MA-kvartettinum.

Föðursystir Ingveldar landsréttardómara var Helga Ingimundardóttir, eiginkona Sveins Benediktssonar stórútgerðarmanns og föðuramma Bjarna Benediktssonar, núverandi forsætisráðherra. Ingveldur og Bjarni eru því skyld í annan og þriðja lið.

Ingveldur var í 6. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.


Jóhannes Sigurðsson
Jóhannes Sigurðsson er 57 ára hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi aðstoðarforstjóri Milestone. Hann útskrifaðist með próf í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1986 og framhaldspróf frá Virginíuháskóla í Bandaríkjunum árið eftir.

Hann hefur unnið á ýmsum lögmannsstofum og var meðeigandi Logos í um áratug. Hann kenndi jafnframt við Háskóla Íslands um árabil. Hann hefur unnið hjá Eftirlitsstofnun EFTA, verið prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og lögfræðingur hjá Actavis og skrifað tvær bækur um lögfræði.

Árið 2006 var Jóhannes ráðinn aðstoðarforstjóri Milestone, fjárfestingarfélags Karls og Steingríms Wernerssona. Eftir hrun hóf sérstakur saksóknari umfangsmikla rannsókn á málefnum Milestone og dótturfélags þess, tryggingafélagsins Sjóvá almennra, og var meðal annars gerð húsleit á heimili Jóhannesar. Mál Sjóvár voru síðar felld niður hjá saksóknara. Jóhannes bar vitni í einu máli sem tengdist Milestone.

Jóhannes hefur frá 2009 verið lögmaður og eigandi hjá Fjeldsted & Blöndal lögmannsstofu. Hann situr í stjórnum félaga á vegum orkufyrirtækisins Arctic Green Energy og í varastjórn Landsnets. Hann hefur í gegnum tíðina setið í stjórn fjölmargra fyrirtækja bæði á Íslandi og erlendis.

Eiginkona Jóhannesar er Heiðrún Jónsdóttir lögmaður. Hún situr í stjórn Símans, Íslandsbanka og Olíuverzlunar Íslands. Heiðrún sat um tíma í stjórn Gildis lífeyrissjóðs, auk þess að hafa setið í stjórnum fleiri einkafyrirtækja.

Sonur Jóhannesar og fyrrverandi eiginkonu hans, Valgerðar Andrésdóttur, er Sigurður Logi Jóhannesson lögmaður. Annar sonur þeirra er Andrés Már Jóhannesson, leikmaður Fylkis í knattspyrnu.

Foreldrar Jóhannesar voru Edda Guðjónsdóttir verslunarmaður og Sigurður Sigurðsson sjómaður.

Jóhannes og Kristín Steinarsdóttir, móðir Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ritara Sjálfstæðisflokksins og formanns allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, voru systkinabörn. Jóhannes og Áslaug Arna eru því skyld í annan og þriðja lið.

Jóhannes var í 9. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.


Jón Finnbjörnsson
Jón Finnbjörnsson er 59 ára dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1983 og síðan prófi frá Norrænu sjóréttarstofnuninni í Ósló. Jón hefur líka stundað framhaldsnám við Ludwig-Maximilians-háskóla í München.

Jón hefur unnið hjá borgarfógetaembættinu í Reykjavík, sem aðstoðarmaður hæstaréttardómara og hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Suðurlands árið 1998. Árið 2001 var hann skipaður dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem hann hefur unnið síðan.

Jón hefur meðal annars kennt við Stýrimannaskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands og setið í stjórn Lögfræðingafélags Íslands.

Eiginkona Jóns er Erla Svanhvít Árnadóttir, lögmaður og einn af eigendum LEX lögmannsstofu,* þar sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra starfaði um árabil. Erla Svanhvít sat um tíma í skilanefnd Glitnis.

Móðir Jóns er Guðrún Jónsdóttir, fyrrverandi gjaldkeri. Systir Guðrúnar, Ragnheiður Jónsdóttir, var eiginkona Björns Fr. Björnssonar, þingmanns Framsóknarflokksins. Guðrún og Pálmi Jónsson í Hagkaup voru systrabörn, og er Jón því þremenningur við athafnasystkinin Ingibjörgu Pálmadóttur eiginkonu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Lilju Pálmadóttur eiginkonu Baltasars Kormáks kvikmyndaleikstjóra, Sigurð Gísla Pálmason föður tónlistarmannsins Gísla Pálma, og Jón Pálmason.

Faðir Jóns Finnbjörnssonar var Finnbjörn Guðmundsson skipstjóri. Systir Finnbjörns er Sigríður Guðmundsdóttir, föðuramma Kristínar Völundardóttur forstjóra Útlendingastofnunar. Jón og Kristín eru því skyld í annan og þriðja lið. Finnbjörn og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, faðir Vilhjálms H. Vilhjálmssonar landsréttardómara, voru systkinasynir. Dómararnir Jón og Vilhjálmur eru því þremenningar. Jón er einnig þremenningur við Ólaf Helga Kjartansson, lögreglustjóra á Suðurnesjum.

Jón var í 30. sæti í mati hæfnisnefndarinnar, og var því ekki meðal þeirra 15 sem nefndin taldi hæfasta.


Kristbjörg Stephensen
Kristbjörg Stephensen er 51 árs og hefur verið borgarlögmaður í Reykjavík í tíu ár. Hún lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1991 og framhaldsprófi frá Gautaborgarháskóla 1993. Hún hefur unnið hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og skrifstofu borgarstjórnar. Hún gegndi ýmsum störfum hjá Reykjavíkurborg þar til hún varð borgarlögmaður 2007. Kristbjörg situr í stjórn félaga á vegum Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Eiginmaður Kristbjargar er Björn Hafsteinn Halldórsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri Sorpu. Foreldrar Kristbjargar eru Guðbjörg Ingólfsdóttir Stephensen, fyrrverandi sölumaður, og Magnús Ó. Stephensen tæknifræðingur, sem er látinn. Bróðir Magnúsar er Þórir Stephensen, fyrrverandi dómkirkjuprestur og staðarhaldari í Viðey. Sonur Þóris er Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, og eru Kristbjörg og Ólafur því bræðrabörn.

Kristbjörg var í 8. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.


Oddný Mjöll Arnardóttir
Oddný Mjöll Arnardóttir er 47 ára prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Hún lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1994 og doktorsprófi í lögfræði frá Edinborgarháskóla 2002. Hún hefur unnið á lögmannsstofu, verið framkvæmdastjóri Reykjavíkurakademíunnar og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og verið sjálfstætt starfandi lögmaður.

Hún var aðjúnkt við Háskólann á Bifröst, prófessor við Háskólann í Reykjavík og frá 2012 prófessor við Háskóla Íslands.

Oddný Mjöll hefur meðal annars verið formaður Félags kvenna í lögmennsku, setið í vísindasiðanefnd, verið formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands og setið í yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis suður. Hún hefur tekið sæti sem varadómari Íslands í einu máli við Mannréttindadómstól Evrópu. Oddný Mjöll hefur skrifað eina bók um lögfræði, byggða á doktorsritgerð sinni, og mikinn fjölda ritrýndra bókarkafla og fræðigreina. Á námsárum sínum sat hún í háskólaráði fyrir Röskvu.

Eiginmaður Oddnýjar Mjallar er Gylfi Gíslason, rekstrarhagfræðingur og framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Jáverks. Hann á jafnframt 40% hlut í fyrirtækinu í gegnum félagið GG ehf. Oddný Mjöll hefur verið varamaður í stjórn Jáverks. Gylfi er einnig stjórnarmaður í ýmsum félögum.

Foreldrar Oddnýjar Mjallar eru Halla Mjöll Hallgrímsdóttir, fyrrverandi bókari, og Örn Harðarson rennismiður.

Oddný Mjöll var í 13. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.

Ragnheiður Bragadóttir
Ragnheiður Bragadóttir er 54 ára dómari við Héraðsdóm Reykjaness. Eftir að hún lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1989 vann hún hjá yfirborgardómaranum í Reykjavík, hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og var aðstoðarmaður hæstaréttardómara. Árið 1999 var hún sett í embætti héraðsdómara til rúmlega tveggja ára og dæmdi við þrjá dómstóla. Frá 2002 til 2005 starfaði hún sem lögmaður. Hún var svo skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Austurlands haustið 2005 en fluttist til Héraðsdóms Reykjaness haustið 2008, þar sem hún hefur starfað síðan.

Ragnheiður stundaði framhaldsnám við Kaupmannahafnarháskóla. Hún var varamaður í óbyggðanefnd í sjö ár, hefur setið í samkeppnisráði, kennt við Háskóla Íslands, verið varaformaður Lögmannafélagsins og setið í stjórn Dómarafélagsins.

Eiginmaður Ragnheiðar er Eymundur Sigurðsson, rafmagnsverkfræðingur hjá Lotu verkfræðistofu.

Foreldrar Ragnheiðar eru Halla Bjarnadóttir húsmóðir og Bragi Þorsteinsson bóndi.

Ragnheiður var í 23. sæti í mati hæfnisnefndarinnar, og var því ekki meðal þeirra 15 sem nefndin taldi hæfasta.


Ragnheiður Harðardóttir
Ragnheiður Harðardóttir er 53 ára dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og fyrrverandi vararíkissaksóknari. Eftir að hún lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1989 fór hún í framhaldsnám í afbrotafræði við San Jose State University í Kaliforníu. Hún lauk svo framhaldsprófi í lögum frá London School of Economics árið 1994.

Áður en hún varð dómari var Ragnheiður fulltrúi hjá ríkissaksóknara, deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu og saksóknari hjá ríkissaksóknara. Hún var vararíkissaksóknari frá 2005, en hætti að eigin ósk haustið 2008 og varð settur héraðsdómari í Reykjavík. Hún var skipuð dómari þar vorið 2010 og hefur starfað þar síðan.

Hún hefur meðal annars verið stundakennari við Háskóla Íslands og setið í fjölmörgum nefndum og starfshópum á vegum ríkisins. Þá hefur hún setið í stjórn Lögfræðingafélags Íslands og Ákærendafélags Íslands.

Foreldrar Ragnheiðar eru Hörður Vilhjálmsson, fyrrverandi fjármálastjóri Ríkisútvarpsins, og Hólmfríður Birna Friðbjörnsdóttir fyrrverandi fulltrúi á skrifstofu Kennaraháskóla Íslands. Tvær systur Ragnheiðar eru Margrét arkitekt og Hildur, framkvæmdastjóri hjá Ríkisútvarpinu.

Eiginmaður Ragnheiðar er Jón Scheving Thorsteinsson, framkvæmdastjóri, stofnandi og eini eigandi Arev verðbréfafyrirtækis. Jón starfaði áður hjá Hagkaupum og síðar Baugi, þar sem hann stýrði erlendum fjárfestingum fyrirtækisins til ársins 2003. Jón situr í stjórn ýmissa félaga.

Faðir Jóns er Davíð Scheving Thorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Smjörlíkis hf. og drykkjarvöruframleiðandans Sólar. Davíð var á lista Viðreisnar í Alþingiskosningunum síðasta haust. Ein systir Jóns er Guðrún Scheving Thorsteinsson, barnalæknir og stofnandi, stjórnarformaður og rúmlega fjórðungs hluthafi í félaginu Indira ehf., sem rekur verslunina INDISKA í Kringlunni. Bróðir Jóns er Magnús Scheving Thorsteinsson, forstjóri eignarhaldsfélagsins Klakka, sem áður hét Exista. Helstu eignir Klakka eru eignaleigu- og fjármögnunarfyrirtækin Lýsing og Lykill.

Móðir Jóns var Soffía Jónsdóttir Matthiesen, en hún og Matthías Á. Matthiesen, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, voru systkinabörn. Matthías var faðir Árna Matthiesen, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Jón og Árni eru því þremenningar. Langafi Jóns í föðurætt var Gunnar Magnús Pétursson Hafstein, bróðir Hannesar Hafstein, skálds og fyrsta ráðherra Íslands.

Ragnheiður var í 3. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.


Sigurður Tómas Magnússon
Sigurður Tómas Magnússon er 56 ára prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og fyrrverandi héraðsdómari, saksóknari í Baugsmálinu og ráðgjafi sérstaks saksóknara. Eftir að hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1985 vann hann meðal annars hjá yfirborgardómaranum í Reykjavík, á lögmannsstofu og sem aðstoðarmaður hæstaréttardómara. Hann hefur verið skrifstofustjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu og héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Sigurður Tómas hefur skrifað eina bók um lögfræði. Hann hefur meðal annars setið í Félagsdómi, verið formaður dómstólaráðs, setið í jafnréttisráði og setið í fjölda stjórnsýslunefnda, þar á meðal verið formaður kærunefndar jafnréttismála. Hann sat í endurupptökunefnd þegar hún fjallaði um endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins.

Eiginkona Sigurðar er Huld Konráðsdóttir, BA í frönsku, lýðheilsufræðingur og flugfreyja. Faðir hennar var Konráð Sigurðsson læknir. Systir Huldar er Sif Konráðsdóttir, lögmaður Landverndar.

Foreldrar Sigurðar voru Sigrún Tómasdóttir og Magnús Sigurðsson garðyrkjubændur.

Sigurður Tómas var í 2. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.


Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er 66 ára hæstaréttarlögmaður og einn af eigendum lögmannsstofunnar Landslaga. Eftir að hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1976 byrjaði hann að vinna á lögmannsstofu og hefur starfað nær óslitið á lögmannsstofu síðan, í hátt í 40 ár. Vilhjálmur stundaði framhaldsnám í lögfræði við Norrænu sjóréttarstofnunina í Ósló.

Vilhjálmur hefur verið dómari við Félagsdóm og dæmdi í landsdómsmálinu gegn Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, þar sem hann var í hópi meirihluta dómara sem dæmdu Geir fyrir að hafa ekki haldið ráðherrafundi um hættuna sem steðjaði að íslenska bankakerfinu í aðdraganda hrunsins, en sýknuðu hann af alvarlegustu ákæruatriðunum.

Vilhjálmur hefur meðal annars setið í yfirkjörstjórnum, í kjararáði og fjölmiðlanefnd. Hann hefur kennt við Háskóla Íslands, setið í stjórn Lögmannafélags Íslands og var um tíma eftir hrun stjórnarformaður Íslandsbanka. Hann hefur einnig verið stjórnarformaður Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Vilhjálmur situr í stjórn félaganna Fjalls ehf. og Þinghóls hf. Hvorugt þeirra er í rekstri.

Fyrrverandi eiginkona Vilhjálms er Fríða S. Kristinsdóttir textílkennari. Synir þeirra eru Ingi Freyr blaðamaður, Finnur Þór saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara og starfsmaður rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku Hauck & Aufhäuser í kaupum í Búnaðarbankanum, og Vilhjálmur H. lögmaður. Vilhjálmur yngri var fyrsti formaður Ungra jafnaðarmanna og var á lista Samfylkingarinnar í Alþingiskosningunum 1999.

Foreldrar Vilhjálms landsréttardómara voru Margrét Aðalheiður Sigurgeirsdóttir húsmóðir og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, heildsali í Reykjavík. Hálfbróðir Vilhjálms er Þorsteinn J. Vilhjálmsson sjónvarpsmaður.

Vilhjálmur var í 4. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.


Þorgeir Ingi Njálsson
Þorgeir Ingi Njálsson er 57 ára dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness og aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík. Eftir að hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1985 vann hann meðal annars hjá sýslumönnum og bæjarfógetum á Sauðárkróki og Selfossi og var settur sýslumaður í Strandasýslu.

Hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Suðurlands árið 1992 og við Héraðsdóm Reykjaness sex árum síðar. Frá 2008 hefur hann verið dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness. Þorgeir Ingi hefur tvisvar fengið leyfi frá störfum sem héraðsdómari til að starfa hjá umboðsmanni Alþingis og hefur einnig starfað sem settur umboðsmaður.

Þá hefur hann verið settur dómari í Hæstarétti, verið formaður nefndar um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, setið í yfirkjörstjórn Suðurlandskjördæmis og í stjórn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, stjórn Dómarafélags Íslands og í dómstólaráði.

Þorgeir Ingi sat á árunum 2010-2011 í rannsóknarnefnd sem kirkjuþing Þjóðkirkjunnar skipaði til að rannsaka viðbrögð og starfshætti kirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni, fyrrverandi biskupi Íslands, um kynferðisbrot.

Þorgeir Ingi var varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Sauðárkróki 1986-1987 og varabæjarfulltrúi á Selfossi 1990-1992, einnig fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann sat um tíma í stjórn Handknattleikssambands Íslands og áfrýjunardómstóli þess og í aganefnd Körfuknattleikssambandsins.

Eiginkona Þorgeirs Inga er Kristjana Aradóttir, viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka. Hún er systir Kristjáns Arasonar, fyrrverandi landsliðsmanns í handknattleik og fyrrverandi framkvæmdastjóra viðskiptabankaþjónustu hjá Kaupþingi til ársins 2009. Kristján er nú starfsmaður og einn af eigendum Centra fyrirtækjaráðgjafar. Eiginkona Kristjáns er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þorgerður Katrín er því svilkona Þorgeirs Inga.

Foreldrar Þorgeirs Inga voru Guðríður Þórðardóttir hótelstarfsmaður og Njáll Þorgeirsson bifreiðaeftirlitsmaður. Bróðursonur Þorgeirs Inga er Njáll Þórðarson, hljómborðsleikari í hljómsveitunum Vinum vors og blóma og Landi og sonum. Systir Þorgeirs Inga er Jóhanna Sigríður Njálsdóttir sem á, ásamt eiginmanni sínum Ellert Vigfússyni, fiskútflutningsfyrirtækið ClearIce ehf.

Þorgeir Ingi var í 10. sæti í mati hæfnisnefndarinnar.
(Lýkur þar með úttekt á landsréttardómurunum fimmtán.)

Kannski er öll lögmannastéttin svona og ekki hægt að finna neinn sem ekki hefur (vafasöm) tengsl. En ansi er þetta óheppilegt samt.


___
* Viðbót, síðar: Bjarni Benediktsson var eitt sinn meðal eigenda lögmannsstofunnar LEX.

Efnisorð: ,