sunnudagur, apríl 30, 2017

Lof og last á sterum

Í stað mánaðaruppgjörs verða hér rifjaðar upp fréttir og greinar sem birst hafa undanfarna mánuði og þeim stillt upp sem lof eða last. Sú nýbreytni verður viðhöfð að til skiptis koma lof og last en þó eru þó yfirleitt ekki efnislega tengd. Með þessu móti er reynt að koma í veg fyrir að langur þunglyndisvaldandi listi af vondum hlutum staflist upp í lokin.

LOF
Bergur Ebbi skrifaði 3. febrúar íhugunarverðan pistil sem fjallar um ferðabannið sem Trump setti á múslima og ræðir sérstaklega mál íslensk-íranska íþróttamannsins Meisam Rafiei sem var meinað að ferðast til Bandaríkjanna.
„Meisam er settur í þá aðstöðu að vera þakklátur fyrir eitthvað sem flestir aðrir íslenskir ríkisborgarar taka sem sjálfsögðum hlut … Næstu mánuði og ár munum við sífellt sjá fleiri viðtöl við fólk eins og Meisam Rafiei. Ég er að tala um fólk sem er ekki að reka neina sérstaka pólitík og er kannski ekkert sérlega að leitast eftir því að fara í viðtöl þar sem heimavarnarstefnu Bandaríkjanna ber á góma. Og oftar en ekki munum við heyra þetta fólk sýna þakklæti og auðmýkt. Og þó að tilfinningar eins og þakklæti og auðmýkt séu fyrirbæri sem mannkynið á aldrei nóg af, þá munu þau skilaboð seytlast inn í sameiginlega vitund okkar hinna, hægt og rólega, að þetta fólk sem er alltaf svona þakklátt og auðmjúkt, eigi bara að halda áfram að vera þakklátt og auðmjúkt. Múgurinn á nefnilega til að ganga á lagið þegar hópar fólks verða varnarlausir og auðmjúkir.“
Meira hér.

LAST
Í frétt á Vísi 7. mars kemur fram að dönskum hagfræðing finnst „ávinningur af sæstreng vega þyngra en hækkanir til heimila“.
„Raforkuverð innanlands mun óhjákvæmilega hækka með lagningu raforkusæstrengs milli Íslands og Skotlands. Hins vegar getur Alþingi takmarkað slíkar verðhækkanir til íslenskra heimila með lögum. Þetta er mat dansks hagfræðings sem gerði úttekt á íslenska raforkumarkaðnum fyrir Landsvirkjun.“

Það gafst ekki vel hér einu sinni að hunsa ráðleggingar að utan en ég lýsi frati á þessa skoðun hagfræðingsins.

LOF
Gerð ganga gegnum Vaðlaheiði hefur mér þótt bera (svekkjandi) kjördæmapoti vitni. En það er ekki annað hægt en verða umtalsvert jákvæðari í garð Vaðlaheiðarganga eftir að hafa lesið bloggfærslu Ástu Svavarsdóttur.

LAST
Ákveðið var við samþykkt fjárlaga ársins 2015 að gera ráð fyrir fækkun framhaldsskólanema og hætta að greiða fyrir bóknám þeirra sem eru 25 ára og eldri. Þessi stefna hefur sætt harðri gagnrýni undanfarin ár og gengið undir nafninu „25 ára reglan“ í fjölmiðlum og á vettvangi stjórnmálanna, segir í frétt Stundarinnar 28. mars. Þar segir einnig að þingkonur Sjálfstæðisflokksins þær Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður allsherjar- og menntamálanefndar og Valgerður Gunnarsdóttir, hafi snúið þessum staðreyndum á hvolf og annarsvegar hafnað því að fólki eldra en 25 standi ekki lengur til boða bóknám í framhaldsskólum og hinsvegar kennt Katrínu Jakobsdóttur og ríkisstjórninni sem hún sat í um að hafa sett á 25 ára regluna.
Kostulegasta ruglið sem kom frá Áslaugu Örnu af þessu tilefni var þó þetta:
„Ég held að mikilvægt sé að hugsa til þess af hverju og hvernig viljum við mæta þörfum nemenda sem eru 25 ára og eldri. Af hverju er mest brottfall hjá þeim nemendum og hefur verið um langa hríð? Jú, af því að, virðulegi forseti, skólinn, námsefnið og kennsluaðferðirnar er miðað að fólki á aldrinum 16–20 ára og það hentar einfaldlega ekki fólki á þrítugs- eða fertugsaldri að sitja á skólabekk með börnum sem hafa nýlokið grunnskóla.“

LOF
Lof fær Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata „og framhaldsskólakennari til margra ára“ sem steig í pontu og rak þvæluna ofan í Áslaugu Örnu:
„Mér blöskrar ýmislegt sem hér hefur verið sagt. Mér blöskrar sú vanþekking sem háttvirtur þingmaður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur sýnt að hún hefur á íslensku framhaldsskólakerfi, að það henti ekki fólki á þrítugs- eða fertugsaldri að sækja skóla með yngri nemendum. Þvílíkur þvættingur,“ sagði hann.

Einar segir að bestu nemendur sínir hafi verið þeir sem voru komnir yfir 25 ára aldur. Hann segir einnig:
„Í samtali mínu við aðstoðarskólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri, og ég tek það fram að ég hef leyfi hans til þess að vitna í hann hér, kom fram að nemendum hafi verið vísað frá bóknámi í Verkmennaskólanum á Akureyri vegna þess að þeir voru orðnir 25 ára. Punktur. Það er óþolandi.“

LAST
Talandi um menntun og óhæfuverk núverandi ríkisstjórnar. Frétt RÚV frá 24. apríl:
„ Útlit er fyrir að ekki verði lengur hægt að bjóða fólki með þroskahömlun upp á diplómanám í myndlist. Fjárveiting hefur ekki fengist til að halda námsbrautinni áfram. Fyrsti og þá líklega eini útskriftarhópurinn lýkur námi í vor.“
„Það er auðvitað réttur fólks að læra, það eru mannréttindi,“ segir Áslaug Thorlacius, skólastjóri Myndlistarskólans í Reykjavík. Undir það tekur Elín Fanney Ólafsdóttir nemandi. „Og það skiptir líka svo miklu námi fyrir fatlaða krakka að mennta sig meira eftir menntaskóla. Það eiga allir jafn mikinn rétt á menntun,“ segir Elín. 
„Atvinnuleysi er töluvert, það er lítið framboð af öðru námi, þannig að er jafnvel verið að dæma fólk til þess að vera heima,“ segir Margrét M. Norðdahl, deildarstjóri námsins.

LOF
Guðmundur Gunnarsson fær lof fyrir að fara nánar út í 25 ára regluna í grein sem birtist 21. apríl.
„Að loka framhaldsskólum fyrir nemendur eldri en 25 ára er pólitísk ákvörðun sem skerðir tækifæri fólks og samfélags. Þetta er eitt dæmið um það hvernig arðurinn af auðlindum Íslands rennur í minnkandi mæli til samfélagsins.“
Þetta er mikilvægt málefni, lesið grein Guðmundar hér.

LAST
Uppeldi barna felst m.a. í uppeldi, en sum börn virðast ekki fá neitt uppeldi. Eða svo mætti halda af þessari ömurlegu frétt sem birtist 16. apríl.
„Þrír drengir á aldrinum fimm til átta ára spörkuðu í flamengófugla í tékkneskum dýragarði svo hann drapst. Þeir höfðu áður kastað steinum að fuglinum.

Independent segir frá því að drengirnir hafi klifrað yfir girðingu og inn á lóð dýragarðsins í Jihlava og svo ráðist að fuglunum.
Martin Maláč, talsmaður dýragarðsins, segir að drengirnir hafa ekki sýnt nein merki þess að skammast sín og kann svo að fara að foreldrum þeirra verði gert að greiða bætur.“

LOF
Ill meðferð á dýrum er alltaf óþægilegt umræðuefni en að þessu sinni er frétt frá 12. apríl um að horfi til betri vegar.
„Stjórnvöld á Taívan hafa bannað sölu og neyslu hunda- og kattakjöts. Þetta kemur fram í nýjum lögum um dýravernd. Í eldri lögum var einungis bannað að versla með hunda- og kattakjöt. 
Þá eru viðurlög hert við illri meðferð dýra. Slík brot varða allt að eins árs fangelsi og háum sektum. Þá er eigendum gæludýra bannað að viðra þau með því að festa tauminn í bíl eða mótorhjól og láta þau hlaupa með ökutækjunum.“
Fyrir fólk sem lítur á hunda og ketti sem gæludýr er þetta vægast sagt jákvæð stefna sem þarna er tekin. Vonandi linnir nú dýradrápi þessu.

LAST
Gervifeldur er valkostur þeirra sem ekki vilja að dýr séu ræktuð eða veidd til þess eins að vera drepin til að hægt sé að flá þau (eða enn verra: flegin lifandi). En nú hefur komið í ljós að í sumum tilvikum eru fatnaður og fylgihlutir, sem sagðir eru skreyttir gervifeldi, í rauninni með alvöru loðfeld. Við nánari skoðun reyndust vera feldir af mink, kanínu og ketti á flíkum sem fást í verslunum í Bretlandi, skv. frétt Sky News frá 10. apríl.

Stóra spurningin hlýtur að vera hvort vara sem hér á landi er keypt (af innlendum eða erlendum framleiðendum) í góðri trú um að engin dýr kveljist við framleiðsluna, sé einnig svikin vara — eða öllu heldur ekta loðfeldur. Vonandi á það ekki við um „gerviskinnið“ sem er á íslenskum útivistarfatnaði. Sennilega er best að forðast gerviskinn rétt eins og loðfeldi.

LOF
Guðmundur Andri skrifaði góðan pistil þann 20. apríl um hryðjuverkið í Stokkhólmi.
„Hryðjuverk á borð við það sem framið var í Stokkhólmi núna bitnar svo sannarlega á vegfarendum en um leið eru slíkar aðgerðir nánast eins og hernaður á hendur múslimum í Evrópu, til þess ætlaður að koma í veg fyrir aðlögun. Lífið á að verða óbærilegt karlmönnum með brúna húð í Evrópu – verkin beinast gegn fjölmenningu og sambúð ólíkra trúarhópa.

Markmiðið er að gera sambúð kristinna manna og múslima í Evrópu óhugsanlega, sá fræjum tortryggni og haturs milli þeirra. Að baki liggja hugsjónir um einangrun, hugmyndaþrengsli og hreinlíft kalífadæmi í anda miðalda með niðurnjörvuðum lífsháttum, stífum kynhlutverkum, karlveldi og virku eftirliti klerka með hugsunarhætti og hegðun, til dæmis kynhegðun þar sem harðbannað er að laðast að eigin kyni.

Þessi eftirlitshyggja, kynhlutverkastífnin, kvennakúgunin, rasisminn, fáránleg boð og bönn, vandlætingin í garð þeirra sem skera sig úr norminu – hatrið á fjölbreytninni og andúðin á öðrum húðlit en maður hefur sjálfur, annarri kynhegðun, annarri sjálfsmynd – allt er þetta sameiginlegt í trúarbrögðunum stóru sem við kennum við Abraham – islam, gyðingdóm og kristni – þegar þessi hugmyndakerfi eru orðin trénuð og inntakslaus og þeim fylgt af bókstafstrú. Þess vegna hljóma bókstafstrúarklerkar í Bandaríkjunum nokkurn veginn eins og múllarnir sem predika í moskum heimsins. Rasistarnir hvítu á Norðurlöndum sem kveikja í flóttamannabúðum aðhyllast ekki ólíka hugmyndafræði og þeir sem kenna sig við islam og aka trukkum inn í mannfjölda.“
Mikilvæg lokaorð pistilsins má lesa hér.

LAST
Ísland tekur ekki þátt í viðræðum Sameinuðu þjóðanna um að banna tilvist kjarnorkuvopna og hefur verið mjög þversum í því máli öllu. Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður Vinstri grænna bendir á þetta í grein 20. apríl og lýsir yfir vonbrigðum sínum að Ísland skuli ekki „skipa sér í sveit með meira en 130 þjóðum til að vinna að þessu brýna máli“.

Í grein Steinunnar kemur fram að níu ríki búa yfir kjarnorkusprengjum, alls um 15 þúsund talsins, og því miður er staðreyndin sú að sumum (flestum?) ríkjanna er stjórnað af brjálæðingum og vitleysingum.

LOF
Hin ágæta Úrsúla Jünemann skrifaði í fyrradag um húsnæðismál, en þau eru í klessu eins og allir vita. Hennar uppástunga er að „reisa lítil ódýr einingahús á steyptri plötu, ekki seinna en núna, til að vinna gegn þessum bráða húsnæðisvanda? Alveg eins og eftir Vestmannaeyjagosið á sínum tíma“. Þetta er ágæt ábending.
(Þess má geta að hér á blogginu var minnst á viðlagasjóðshúsin ekki alls fyrir löngu en í öðru samhengi.)

LAST
Talandi um húsnæðisvanda. IKEA á Íslandi ku vera að byggja blokk fyrir starfsmenn sína. „Tilgangurinn með byggingunni er að halda í starfsfólk og mæta vanda þess fyrir húsnæði.“

Enda þótt það megi líta það jákvæðum augum að húsgagnarisinn beri hag starfsmanna sinn þannig fyrir brjósti þá er ekki heppilegt að starfsmenn séu háðir vinnuveitanda sínum um húsnæði. Því hvað ef fólk vill hætta í vinnunni - eða er rekið? Þá stendur það á götunni ofan á allt annað. Það eru óþolandi aðstæður.

LOF
Sif Sigmarsdóttir skrifaði enn og aftur frábæran pistil 25. mars. Þar ræðir hún „endalok sögunnar“ en það er hugtak bandaríska stjórnmálafræðingsins Francis Fukuyama sem trúði því að hugmyndafræðilegri þróun mannkynsins væri lokið. Einnig koma hryðjuverk, nasismi og lýðræði við sögu hjá Sif, ásamt Theresu May, Trump og Erdogan. Lokaorð Sifjar eru þessi (lesið samt allan pistilinn):
„Helsta ógnin við lýðræðið í dag – og alla daga – er blind trú á goðsögnina um framþróun mannsins. Því lýðræði er hvorki náttúrulegt né óhjákvæmilegt ástand. Lýðræði er ekki örlög okkur sköpuð. Það er hvorki annarra náðarsamlegast að gefa okkur né annarra að taka. Það býr með okkur sjálfum og er á okkar eigin ábyrgð. Gleymum því ekki.“

LAST
Sjálfstæðiskonan Sirrý Hallgrímsdóttir fyrrverandi aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar og skrifar eldsúra bakþankapistla í Fréttablaðið. Hver öðrum verri.

LOF
Þorvaldur Gylfason skrifar vikulega í Fréttablaðið og hér má lesa ágætan pistil hans um uppruna okkar í Afríku, Henry Louis Gates, og rasisma í Bandaríkjunum.
„Það gerist aftur og aftur að blökkumenn vestra láta jafnvel lífið af litlu tilefni í viðureign við lögreglu sem mörgum virðist fordómafull gagnvart blökkumönnum – enn í dag, meira en 150 árum eftir að þrælahald lagðist af.“

LAST
„Íslenskar klappstýrur með metnað“, var fyrirsögn á bls. 28 í Fréttatímanum 10. mars, og segir þar frá klappstýruliði „eins og í Ameríku“ sem ætlar að sýna listir sínar í hálfleik þegar strákar keppa í amerískum fótbolta. Það er sorglegt að sjá stelpur ganga svona fúslega í hlutverk stuðningssaðila karlmanna sem alltaf eru aðal. Og með þessum líka hallærisgangi sem klappstýruhlutverkið gengur útá. Svekk svekk.

LAST
Einstaklega leiðinlegur endir varð á ritstjórnartíð Gunnars Smára hjá Fréttatímanum. Ömurlegur viðskilnaður.

LOF
Helga Vala Helgadóttir skrifaði ágætan bakþankapistil 6. mars Ríkisútvarpinu til varnar.
„Samkeppnisaðilarnir“, sem frjálshyggjufólk vill meina að geti vel sinnt því starfi sem unnið er í Efstaleiti, fjalla ekkert um sögulega hluti. Fjalla ekki ítarlega um hljómsveitir eða tónverk. Flytja ekki útvarpsleikrit, útvarpssögur eða flakka um borg og bæi með sagnfræðingi sem tjáir sig um sögu húsa og gatna.“

LAST
Lykilstjórnendur Haga eru jafnframt hluthafar. Enda þótt þeir (eða eiginkonur þeirra) hafi selt helling af hlutafé í fyrra þá eiga þeir enn helling eftir (þetta eru rúnnaðar tölur). Í því ljósi ber að lesa frétt um að verðmæti Haga geti aukist um 5,9 milljarða verði áfengi selt í búðum fyrirtækisins.

Áhugi þeirra snýst ekki bara um að auka þjónustu við neytendur.

LOF
Halldóra K. Thoroddsen rithöfundur hlýtur Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins í ár fyrir skáldsögu sína Tvöfalt gler.
Húrra fyrir því! (Nú þarf bara að ná sér í bókina og byrja að lesa.)

LAST
Óvenju margir greindust með HIV á síðasta ári, segir í frétt frá 1. febrúar. Útbreiðsla kynsjúkdóma er mikil, klamidía algengust, sárasótt (sem ég hélt að væri útdauð) sækir í sig veðrið og lekandatilfellum fjölgar jafnt og þétt. Nota smokkinn, krakkar!

En svona í alvöru:
„Það er ákveðin fræðsla sem þarf líka að fara af stað fyrir ungmenni. Hún er í gangi í skólum landsins, en það þarf að skerpa á því starfi. Þetta er þróun sem við sjáum í nálægum löndum, sem er nákvæmlega eins og hér,“ segir Þórólfur og bætir við að það sé greinilegt að kynslóðirnar sem ekki muna óttann vegna HIV-faraldursins hegði sér samkvæmt því. Eins þurfi að tryggja hreinar nálar fyrir sprautufíkla og fjölga hraðgreiningarprófum og endurskipuleggja hvernig hægt er að nálgast fólk sem er smitað.“

LOF
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir tók Björn Bjarnason fyrrverandi dómsmálaráðherra (þáði semsagt laun frá skattgreiðendum) á beinið í beittum pistli sem birtist 17. desember 2016. Björn hafði hvatt stjórnvöld „til að grípa til harðari aðgerða gegn straumi innflytjenda frá Makedóníu eða Albaníu og þeirri „ásókn í skattfé almennings sem þeim fylgir.“

Þóra Kristín segir:
„Mér finnst þessar áhyggjur af skattfé almennings annarlegar og með því að setja þær fram í þessu samhengi, er verið að reyna að særa fram smásálina í þjóðinni og læða að þeirri hugsun að allt fólk sem þurfi á okkur að halda sé að ræna Íslendinga og koma í veg fyrir að við getum haldið uppi samfélagi.

Slíkar hugmyndir eru, ásamt misskiptingunni, orðin raunveruleg ógn við friðinn og lífskjörin í Evrópu. Fólk sem telur okkur trú um að við höfum ekki efni á mannúð og okkur stafi hætta af annarlegu fólki, sem sveimi yfir og allt um kring eins og engisprettuplága, albúið að éta venjulegt fólk út á guð og gaddinn.

Og þeim fjölgar stjórnmálamönnunum sem eru tilbúnir til að klappa þennan stein og uppskera lófatak á samfélagsmiðlum, oft frá fólki sem telur sig hafa orðið útundan í samfélaginu.

Það er einhver ódýrasta og ómerkilegasta pólitík sem til er. Og ef eitthvað er annarlegt, þá er það þegar hún kemur frá skjólstæðingi íslenskra skattgreiðenda til áratuga.“

LAST
Í annars ágætri úttekt Inga F. Vilhjálmssonar (sem birtist á í Fréttatímanum 3. mars) á vafasömum viðskiptum greiðslumiðlunarfyrirtækja (sem meðal annars hafa haft milligöngu um klám og lyfseðilsskyld lyf og ekki fylgt lögum um varnir gegn peningaþvætti) er haft eftir Andra Vali Hrólfssyni fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Valitor að hvert einasta hótel á Íslandi sé með þrjár til fimm klámrásir og einnig talar hann um að Stöð 2 hafi haft (hefur?) „fjórar svæsnar klámrásir, alveg svæsnar“. Andra finnst því fíflalegt að núa Valitor því um nasir að vera milliliður um klám á netinu. Þá gerir Andri greinarmun á klámi og sóðaklámi. „Sóðaklám er ógeðslegt og það er auðvitað til á netinu. Ég á við barnaklám til dæmis.“

Það er nógu slæmt að dreifing á klámi sé réttlætt með því að allir séu að dreifa klámi, en að eingöngu barnaklám sé neikvætt og allt annað klám sé þá í lagi … nei, það er hreint ekki þannig.

LOF
Sænski fréttaskýringaþátturinn Uppdrag Granskning hlaut í byrjun apríl Gullspaðann, mikilvægustu verðlaun samtaka sænskra rannsóknarblaðamanna, fyrir þáttinn um Panamaskjölin.

Verðskulduð verðlaun!


Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,