mánudagur, apríl 03, 2017

Eftirlitið

Eitt af því sem fer hvað mest fyrir brjóstið á frjálshyggjumönnum eru eftirlitsstofnanir. Talað er um eftirlitsiðnaðinn* og litið svo á að eftirlit sé atvinnubótavinna fyrir vinstrimenn sem hati frjálsan markað.

Eftirlit og eftirlitsstofnanir eru nauðsynlegar en það er ekki síður mikilvægt að mark sé tekið á þeim sem sinna eftirliti ýmiskonar. Einnig að eftirlitsstofnanirnar séu ekki svo hrjáðar af innanmeinum að þær sinni ekki eftirlitsskyldu sinni eða fari með tóman þvætting.

Óumdeilt er að fjármálaeftirlitið brást í aðdraganda hruns bankanna. Það er þó enn markmið frjálshyggjumanna að draga úr því tennurnar. Meðan Guðlaugur Þór Þórðarson var þingmaður í hagræðingarnefnd vildi hann auðvitað ólmur „draga úr fjárstreymi til eftirlitsstofnana.“ Og Viðskiptaráð lagðist gegn því við afgreiðslu síðustu fjárlaga að tryggja fjármálaeftirlitinu almennilegt rekstrarfé, enda ekki hrifið af því að hlaða undir eftirlitsiðnaðinn.

Matvælastofnun er ein þeirra stofnana sem hafa algerlega brugðist hlutverki sínu. Margsinnis hafa bændur komist upp með að fara illa með dýr í lengri tíma án þess að til vörslusviptingar hafi komist. Nýlegasta og versta dæmið er auðvitað Brúneggjamálið.
„Að Brúnegg hafi ekki verið svipt rekstrarleyfi og öll dýrin tekin frá þessum dýraníðingum er auðvitað hneyksli. Að MAST hafi ekki upplýst neytendur um að verið væri að svindla á þeim er hneyksli.“
Þessi vinnubrögð og þetta aðgerðarleysi MAST er svo óskiljanlegt að maður fer að velta fyrir sér öllum mögulegum orsökum. Það hvarflar sannarlega að manni að einhverskonar spilling ríki innan MAST, og menn þiggi hreinlega mútur. Eða nægir að vera í sama stjórnmálaflokki og dýraníðingarnir til að leyfa þeim að komast upp með athæfi sitt? En kannski eru starfsmenn MAST bara meðvirkir og trúgjarnir sem lýsir sér í því að dýraníðingar eru látnir „njóta vafans“ þegar þeir lofa öllu fögru varðandi aðbúnað dýranna sem eru í þeirra umsjá.

Það eru fleiri stofnanir en Matvælastofnun sem standa sig ekki í stykkinu. Nú er ítrekað að koma í ljós að Ríkisendurskoðun er í tómu tjóni.
„Svo fara menn að skoða skýrslu frá 2006 um hlut þýska fjármálafyrirtækisins Hauck & Aufhäuser við kaup Búnaðarbankans. Ríkisendurskoðun var fengin til þess af þáverandi stjórnvöldum að skoða málið og gaf út heilbrigðisvottorð vegna kaupanna. Fann ekkert athugavert við það. Þetta er alveg þvert á niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis sem var kynnt í dag. Þar kemur skýrt í ljós blekkingarleikur sem var beitt í þessum viðskiptum. Reyndar var um það talað á sínum tíma að skýrslan væri sérstaklega pöntuð – og að hún væri kattaþvottur.“ (Egill Helgason)
Hafi ríkisendurskoðandi þess tíma ekki beinlínis verið að ganga erinda þeirra sem vildu ólmir selja framsóknarvinsamlegum mönnum** á borð við Ólaf Ólafsson og Finn Ingólfsson banka, þá var hann óhemjulega latur, því ekki nennti hann að skoða rökstuddar ábendingar Vilhjálms Bjarnasonar um að ekki væri allt með felldu með aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á Búnaðarbankanum.

Frá Ríkisendurskoðun (undir stjórn annars ríkisendurskoðanda) kom önnur dæmalaus skýrsla árið 2013. Sú fullyrti að miðað við stöðu mála í Danmörku væru bótasvik hér á landi mikil og útbreidd og kostuðu þjóðfélagið 3,4 milljarða árlega. Nú semsagt er loksins búið að hrekja þessa niðurstöðu skýrsluómyndarinnar en aldraðir og öryrkjar hafa í millitíðinni mátt sæta persónunjósnum stofnana sem reyndu að koma upp um meint bótasvik þeirra. Svo ekki sé talað um illmælgina í þeirra garð, sérstaklega öryrkja, ekki síst frá þeim skötuhjúum Guðlaugi Þór og Vigdísi Hauks fyrrverandi formanni fjárlaganefndar, og frá skattgreiðendum sem sumir hverjir hafa lengi hatast útí bótaþega og séð eftir hverri krónu sem rennur til „aumingja sem nenna ekki að vinna“. Á þessu ber Ríkisendurskoðun ábyrgð.

Úr því að Ríkisendurskoðun hefur viðurkennt að hafa trommað upp með rangar upplýsingar um bótaþega og (með hálfum hug) beðist afsökunar á því — væri skemmtilegt af allt það fólk sem fór hamförum í kommentakerfum í kjölfarið og hefur farið hamförum alla tíð síðan með gífuryrði um bótasvindl (sérstaklega öryrkja) (svo ekki sé talað um allar upphrópanir Vigdísar Hauksdóttur, sem bæði talaði um hærri upphæðir en ríkisendurskoðun hafði spunnið upp, og laug til um fjölda öryrkja) — bæðist afsökunar. Það gæti auðvitað borið fyrir sig að hafa tjáð skoðanir sínar og gífuryrði útfrá röngum forsendum sem virt stofnun hafi borið á borð, en beðið samt afsökunar. Enn betra væri auðvitað ef viðkomandi athugasemdarar segðust hafa endurskoðað skoðanir sínar og álíti nú ekki bótaþega almennt stórtæka þjófa sem láti greipar sópa um skattfé almennings.

En nú er ég komin út fyrir efnið.

Málið er semsagt þetta. Það þarf að halda úti öflugu eftirliti sem fær nægilegt fjármagn og mannskap til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Því það þarf eftirlit: eftirlit með fjármálastofnunum, matvælaframleiðslu, velferð dýra, og á mörgum öðrum sviðum. Þær stofnanir sem sinna eftirliti eiga hvorki að þegja yfir því sem miður fer né hlífa þeim sem gerast brotlegir við lög, heldur stöðva lögbrot og taka t.a.m. dýr af mönnum sem fara illa með þau. Verði eftirlitsstofnanir uppvísar að því að gera mistök eða sinna starfi sínu illa, tildæmis með því að valda öldruðum og öryrkjum skaða, eiga æðstu yfirmenn að taka pokann sinn.

Eða með öðrum orðum: Yfirmenn Matvælastofnunar og Ríkisendurskoðunar ættu að sjá sóma sinn í að segja af sér. Hafi þeir einhvern sóma.


___
* Meinleg (eða viljandi?) villa var í Morgunblaðinu þegar stóð í yfirskrift pistils um „eftirlitsiðnaðinn“ að: „Oft er eftirlit í raun ótrúlega dýrt fyrir borgarana,“ en í texta greinarinnar er alveg skýrt hvað höfundurinn, framkvæmdastjóri Hollustuverndar ríkisins, ætlar sér að segja: „Oft er eftirlit í raun ótrúlega ódýrt fyrir borgarana miðað við hvað er í húfi“ (leturbreyting mín). Pistillinn birtist árið 1998, þá var Davíð Oddsson forsætisráðherra, og árið 2004 fékk forsætisráðuneytið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að gera skýrslu „um stöðu eftirlitsiðnaðarins á Íslandi út frá hagrænu sjónarmiði og reynt að varpa ljósi á kostnað og ábata hans fyrir samfélagið í heild“. Í skýrslunni „var ekki lagt mat á ábata samfélagsins af opinberum eftirlitsreglum“ enda var skýrslunni vafalaust aðallega ætlað að vera einn liður í því að draga úr eftirliti með frjálsa markaðinum sem Davíð var svo hugleikinn.

** Framsóknarmenn sverja Ólaf af sér (ekki hægt með Finn, hann var ráðherra flokksins) en þó var hann nýbúinn að gefa þeim húsið við Hverfisgötu þegar hann keypti bankann. Og S-hópurinn var samsettur af framsóknarmönnum.

Efnisorð: , , , , , ,