miðvikudagur, mars 01, 2017

Byttusamfélagið, eða hvernig það er stefnt að því leynt og ljóst að fá okkur til að finnast áfengisneysla alla daga hið eðlilegasta mál

Heilsíðuauglýsing óskaði lesendum Fréttablaðsins í dag til hamingju með bjórdaginn. 1. mars er semsagt dagurinn sem farið var að selja bjór á Íslandi eftir áratuga bjórbann. Einhverjum finnst að þá hafi verið stigið einhverskonar framfaraskref. Það er ekkert beðið fram að helgi með að fagna afnámi bjórbannsins, enda er ein helsta breytingin á íslensku þjóðlífi sem varð í kjölfarið einmitt sú að nú þykir það eðlilegt að drekka áfengi í miðri viku, sem áður þótti órækur vitnisburður um alkóhólisma. En semsagt, í heilsíðuauglýsingunni var kynnt nýjung, bjórís, sem seldur verður í ísbúð í tilefni dagsins.

Um áratugaskeið hefur ísbíltúr verið fastur liður í tilveru höfuðborgarbúa jafnt sumar sem vetur en þó vinsælli alltaf á sumrin af náttúrulegum ástæðum. Eflaust eru til fjölskyldur sem aldrei hafa farið saman að kaupa ís en það er örugglega fátítt. Ég þori að fullyrða að næstum allir sem eru hér á annað borð uppaldir hafa farið að kaupa ís með fjölskyldu sinni. Innifalið er samvera og almenn ánægja.

Vinsældir íss fara síst minnkandi og ólíklegt að einhver sérstök trix þurfi til að vekja athygli á honum; og varla þarf að bragðbæta hann umfram allt sælgætið og sósurnar sem nú þegar er sturtað yfir ísinn. En samt virðist einhver markaðsdúddinn hafa séð tækifæri í því að bæta við valkostinum bjór á ís, eða ís bragðbættur með bjór, hvernig sem það snýr.

Mér finnst mjög undarlegt að eigendur ísbúðarinnar hafi ákveðið að það væri sniðugt að selja bjórís, alveg burtséð frá því að fá athygli útá það. Finnst þeim það ekki vera í andstöðu við að selja börnum ís alla daga? Vilja þeir aldrei aftur fá börn þarna inn eða finnst þeim eðlilegt að foreldrarnir fái sér bjórís (og keyri svo heim með hvað-það-er-nú-mikið magn af alkóhóli í blóðinu) og börnin fái ís með dýfu í sömu andrá. Vara bönnuð börnum annarsvegar og barnagómsæti hinsvegar. Er þetta kannski einn liður í því, sem mér hefur fundist bera æ meira á undanfarið, og má líklega kalla normalíseringu áfengisdrykkju, eða upphafningu „áfengismenningar“. Alltaf þarf að hafa alkóhól um hönd með einhverjum hætti, meira segja í ísbíltúr með börnunum.

Það hefur annars lengi farið í taugarnar á mér að sterkir drykkir (sem eru að mér er sagt aðallega drukknir sem skot) séu með sælgætisbragði og beri nöfn sælgætis: Tópas, Ópal. Börn í dag kynnast heimi þar sem þetta saklausa sælgæti er eins og dyragátt inn í heim áfengisdrykkju; sama bragð meiri áhrif. Eða er það öfugt; hinir fullorðnu á fylleríinu finnst þeir vera að stíga í heim bernskunnar þegar þeir dúndra í sig hverju skotinu á fætur öðru? Mér finnst undarlegt og eiginlega óþægilegt að áfengir drykkir beri sælgætisnöfn. Og aftur finnst mér að verið sé að gera áfengisdrykkju svo sjálfsagða að hún fylgi okkur svo að segja frá vöggu til grafar.

Um daginn var í Fréttatímanum smá dálkur undir mynd af ketti þar sem sagt var frá því að „nú geta kettir og hundar dreypt á víni með eigendum sínum“. Um er að ræða óáfengt (gvuðisélof) vín og sagt er að „hugsunin á bak við þennan óvenjulega dykk er að við mennirnir getum notið þess að eiga ljúfa stund með vínglas við hönd og boðið loðnum vinum okkar að vera með“. Útaf því að það er svo áberandi annars að þú situr einn að sumbli? Eða vegna þess að það er vitavonlaust að eiga samskipti við einhvern sem er ekki 'með í glasi'? Afhverju er verið að blanda vesalings dýrunum í vínsull eigenda sinna? Þetta átti kannski að vera furðufrétt til gamans en mér finnst þetta enn eitt dæmið um upphafningu hinnar svokölluðu áfengismenningar.

Þarf alltaf að vera áfengi?


Efnisorð: , ,