fimmtudagur, febrúar 09, 2017

Frjálshyggjuskoðanir á svokölluðum „launamun kynjanna“ meðan kvenfrelsisflokkur mælist stærstur

Skoðanakannanir um fylgi stjórnmálaflokka segja afskaplega lítið um hvað kemur uppúr kjörkössunum, eins og Píratar vita. Engu að síður kætir það gamla kommahjartað að sjá að Vinstri hreyfingin grænt framboð mælist stærsti stjórnmálaflokkurinn . Sjálfstæðisflokkurinn telur sig alltaf stærstan og sterkastan en þótt hann stýri núna ríkisstjórn hrapar hann í vinsældum og eru þó aðeins örfáar vikur síðan ríkisstjórnin var mynduð. Það gleður líka.

Könnunin var gerð 1.-5. febrúar en þá var hvorki einn ráðherra ríkisstjórnarinnar búinn að tala niður til kvenna í þingsal (Benedikt Jóhannesson, hann hefur beðið afsökunar á lélegri tilraun til fyndni) né annar (Sigríður Á Andersen) búin að birta grein þar sem hún efast svo um launamun kynjananna að hún hefur hann í gæsalöppum til öryggis svo enginn haldi að hún trúi að launamunurinn sé raunverulegur. Hún er hreint ekki líkleg til að biðjast afsökunar á því, né leggja frumvarpi Viðreisnar um jafnlaunavottun liðsinni sitt.

Það væri áhugavert að sjá hvernig kjósendum finnst þessi skoðun dómsmálaráðherrans og hvort hún auki eða minnki vinsældir Sjálfstæðisflokksins. Þá er líka spennandi að sjá hvernig stjórnarsamstarfið gengur þegar einn flokkurinn leggur áherslu á jafnlaunavottun en annar flaggar stækum andfeministum á borð við Sigríði Á Andersen.

Efnisorð: , , , ,