laugardagur, október 22, 2016

Smáflokkar II

Nú er komið byr í seglin hjá Bjartri framtíð eftir langt skeið þar sem allar skoðanakannanir sýndu fjandskap kjósenda (á tímabili 4%). Hin jákvæða ásýnd flokksins hefur ekki slegið í gegn hingaðtil, kannski vegna þess að kjósendur vilja átakastjórnmál eftir allt saman. Nýtilkomnar vinsældir Bjartrar framtíðar virðast eingöngu vera vegna þess að þingmenn flokksins greiddu atkvæði gegn búvörusamningnum, öfugt við aðra flokka á þingi. Þannig að segja má að kjósendur sem segja nú í skoðanakönnunum að þeir ætli að kjósa Bjarta framtíð séu fyrst og fremst að þakka þeim þá einörðu afstöðu — eða kannski að refsa öðrum flokkum fyrir afstöðuleysi sem túlka má sem þegjandi samþykki þeirra. Björt framtíð var orðin örflokkur þegar atkvæðagreiðslan um búvörusamninginn fór fram, en nær nú hugsanlega manni inn á þing, öfugt við það sem leit út fyrir.

Það sem mér hefur hinsvegar lengi fundist undarlegt, er hve barátta Bjartar framtíðar fyrir málefnum forræðislausra foreldra hafa notið lítillar hylli.

Guðmundur Steingrímsson sagði í viðtali í mars 2013:
„Kerfið gerir ráð fyrir því að eftir skilnað þá fari barnið bara til mömmu sinnar og pabbinn fari bara og kaupi sér sportbíl, eigi ekki barn lengur og borgi bara meðlag samkvæmt opinberum gögnum. Það eru skilaboðin,“ segir Guðmundur Steingrímsson alþingismaður sem hefur lagt fram tvær þingsályktunartillögur sem gera ráð fyrir breytingum á lögum er varða búsetu skilnaðarbarna.

Önnur tillagan hefur fengið jákvæða umsögn úr velferðarnefnd og segist Guðmundur ætla að beita sér sérstaklega fyrir því að hún fari í gegnum núverandi þing. Í henni segir að innanríkisráðherra skuli stofna starfshóp sem myndi semja frumvarp um annað hvort tvöfalt lögheimili barna eða búa til nýtt lagalegt hugtak um jafna búsetu. Hin tillagan fjallar um breytingar á skráningarkerfi hins opinbera þannig að báðir umgengnisforeldrar verði skráðir sem foreldrar.

„Það skekkir mjög alla pólitík gagnvart fjölskyldum og börnum að það eru bara lögheimilisforeldrar sem eru skráðir foreldrar barna en ekki umgengnisforeldrar,“ segir Guðmundur. „Stórir hópar fólks sem hafa börnin sín lungann úr árinu eru bara ekki skráðir foreldrar þeirra og njóta þá ekki stuðnings sem slíkir. Þetta er arfur frá gömlum tíma, gamaldags kynjapólitík.“
Þingsályktunartillaga hans um jafnt búsetuform var samþykkt á Alþingi 12. maí 2014. Þingsályktunartillaga um skráningu upplýsinga um umgengnisforeldra var samþykkt á Alþingi 12. maí 2014.

Afhverju hafa ekki karlar sem eiga í forræðisdeilum og umgengnisréttardeilum hrópað endalaust húrra fyrir Guðmundi Steingrímssyni og Bjartri framtíð? Hvernig stendur á því að sá hópur hefur ekki staðið með Bjartri framtíð og aflað flokknum fylgis útá þessi málefni sem forræðislausir feður hafa endalaust talað um árum saman? Einu svörin sem mér detta í hug er að annaðhvort sé þetta svona fámennur hópur eða, og það þykir mér líklegra, að þetta brenni ekki nærri jafn mikið á körlum þeir vilja vera láta. Þeir kjósi frekar stjórnmálaflokka sem sem henta þeim útfrá öðrum hagsmunum þeirra.

Björt framtíð hefur reyndar sett málefni barna og foreldra mjög á oddinn. Þannig voru gerðar breytingar á fæðingar- og foreldraorlofi vegna andvana fæðinga (frumvarpið var samþykkt 15. mars á þessu ári). Fyrsti flutningsmaður: Páll Valur Björnsson (meðflutningsmenn voru úr stjórnarandstöðuflokkunum).

Páll Valur varð reyndar mikils og verðskuldaðs heiðurs aðnjótandi nýlega, þegar hann hlaut Barnaréttindaverðlaun ungmennaráða UNICEF á Íslandi, Barnaheilla og ráðgjafarhóps umboðsmanns barna.
„Í tilkynningu frá UNICEF kemur fram að verðlaunin falli í hlut þess þingmanns sem ungmennum þykir hafa staðið sig best í að vekja athygli á og berjast fyrir réttindum barna á Alþingi á ári hverju. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru afhent. 

Í rökstuðningi ungmennaráðanna kom fram að Páll Valur skari fram úr öðrum þingmönnum við að vekja athygli á hagsmunum barna á Íslandi, ekki síst þeirra barna sem standa höllum fæti í samfélaginu. Hann hafi án afláts sett upp „barnagleraugun“ í þeim tilgangi að berjast fyrir réttindum barna á Íslandi.“
Meira um börn. Róbert Marshall lagði fram þingsályktunartillögu um vöggugjöf að hætti Finna, meðflutningsmenn voru úr stjórnarandstöðuflokkunum. Ekkert meira hefur heyrst um það mál að vísu.

Og talandi um Róbert Marshall þá flutti hann frábæra ræðu þegar hann lagðist gegn brennivín-í-búðir frumvarpinu, og var ræðunni fagnað hér á blogginu.

Í október í fyrra lagði Róbert Marshall fram þingsályktunartillögu sem mér líkar einnig mjög vel:
„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að móta nýja stefnu í málefnum íslenska melrakkans sem miði að því að hætta opinberum fjárstuðningi við refaveiðar og efla þess í stað rannsóknir á vistfræði refsins. Rannsóknirnar verði grundvöllur framtíðarskipulags refaveiða og mótunar verndaráætlunar fyrir tegundina.“
Ekkert hefur gerst í því máli því miður.

Tvívegis hefur Björt Ólafsdóttir fram frumvarp um að banna hrelliklám (nefnt hefndarklám í frumvarpinu), fyrst í desember 2014 og svo aftur óbreytt í september í fyrra, en umræður um málið fóru fram í janúar á þessu ári, sem endaði á að það var sent til allsherjar- og menntamálanefndar.

Þá að þeim málum Bjartrar framtíðar sem ég er ekki jafn hrifin af. Breytingar á mannanafnalögum fóru þversum ofan í mig, aðallega þó vegna þess að mér líst ekkert á upptöku ættarnafna. Þá þykir mér hreinlega miður að lesa að þetta sé það sem Björt framtíð leggur áherslu á:
„Opnum meira fyrir fjölbreytileg rekstrar- og þjónustuform í velferðarkerfinu og ólíka skólastarfsemi“.
Ég segi nei takk við einkavæðingu og einkaskólum.

Þegar ég les umhverfisstefnu Bjartrar framtíðar, er ég ekki heldur neitt jákvæð í garð þessarar yfirlýsingar: „Raforkusala um sæstreng verði könnuð til hlítar sem raunhæfur valkostur.“ Í október 2013 lagði allur þingflokkur Bjartrar framtíðar fram þingsályktunartillögu um einmitt þetta: „að hrinda án tafar í framkvæmd tillögum ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu“. Málið gekk til atvinnuveganefndar í sama mánuði og hefur mér vitanlega ekki heyrst af því síðan.

Margt er gott við Bjarta framtíð. Hinsvegar finnst mér galli að hún sé miðjuflokkur ekki síst vegna reynslunnar af Framsókn. (Ljótt að líkja neinum flokki við Framsókn, ég veit.) Björt framtíð er hlynnt inngöngu í ESB og upptöku evru, og finnst sæstrengur greinilega góð hugmynd. Það ásamt því að stungið er uppá „fjölbreytilegu rekstrarformi“ í því sem mér finnst að eigi að vera eingöngu eða allavega sem allra mest rekið af því opinbera, gera útum áhuga minn á að kjósa Bjarta framtíð, þrátt fyrir gott mannval á framboðslistum. Mér þætti þó leitt ef hún verður ekki áfram á þingi.

Efnisorð: , , , , , ,