miðvikudagur, október 26, 2016

Píratar og kosningarnar

Mér endist ekki tíminn fram að kosningum til að draga fram allt það sem ég hef á móti Pírötum og gera því skil með skiljanlegum hætti. Hef skrifað talsvert um skoðanir mínar á þeim áður og verð að vísa í það fyrir sérlega spennta lesendur (hér er pistill sem nær yfir það helsta). Skal þó tæpt á nokkrum atriðum sem ýmist standa uppúr í mínum huga eða ég hef ekki nefnt eða gert nægilega grein fyrir áður.

En fyrst þetta.

Jón Þór Ólafsson hætti á miðju kjörtímabilinu og ætlaði ekki að setjast aftur á þing, en dúkkaði óvænt upp á framboðslista og í sjónvarpi sem þingmannsefni Pírata öðru sinni, og kemst líklega aftur á þing sem efsti maður á lista flokksins í suðvesturkjördæmi.

Ég fagna því hreint ekki að Jón Þór sé á leið aftur á þing. Mér skilst að Pírata megi ekki flokka eftir hægri-vinstri ásnum sem venjulega er notaður þegar rætt er um stjórnmálaskoðanir, en Jón Þór er og hefur alltaf verið mjög auðflokkanlegur: hann er frjálshyggjumaður. Sem er eitur í mínum beinum. Hann er líka með asnalega forpokaðar skoðanir á konum (það á hann sameiginlegt með nánast öllum þeim sem hafa tjáð sig sem píratar í athugasemdakerfum fjölmiðla; ekki má gleyma skoðunum Helga Hrafns fráfarandi þingmanns á feministum). Sem er einnig eitur í mínum beinum.

Jón Þór lagði til þegar hann var á þingi að skattaupplýsingar væru ópersónugreinanlegar. Það hefur lengi verið helsta stefnumál ungra sjálfstæðismanna að almenningur og fjölmiðlar fái ekki að skoða skattskrár. Jón Þór vill að skattskrárnar séu aðgengilegar sem tölfræðileg heimild en það megi bara ekki vera að hnýsast í hvort og þá hvað mikla skatta hver og einn greiðir — eða greiðir ekki. Ég hélt, eins og Jónas Kristjánsson að Píratar væru „fremstir í fylkingu þeirra, sem vilja opna samfélagið. Svo að fólk geti betur skoðað innviði samfélagsins og gert sér grein fyrir þeim.“ Tillaga Jóns Þórs var sannkölluð frjálshyggjutillaga.

Úr því ég er farin að ræða Jón Þór þá er áhugavert að svo virðist sem hann hafi villt á sér heimildir, þóst hafa menntun sem hann hefur ekki.
„Jón Þór Ólafsson frambjóðandi Pírata í Suðurvesturkjördæmi titlaði sig stjórnmálafræðing í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið 15. september 2010. Í tveimur öðrum greinum í Fréttablaðinu á svipuðu tímabili gaf hann upp starfstitla sem gáfu til kynna að hann hefði tiltekna háskólamenntun sem hann er ekki með. Hann er ekki með háskólapróf.

Menn geta þá spurt, skiptir það einhverju máli? Svarið er, nei það skiptir engu máli þótt hann sé ekki menntaður. Það sem skiptir máli er að hann sagði ósatt um þessa hluti. Hann var margsaga um menntun sína. Rétt eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson komst upp með að vera margsaga um sína menntun. Hann þorði ekki að segja upphátt og opinberlega að hann hefði aldrei lokið phd-gráðunni sinni frá Oxford,“ segir Þorbjörn."
Þetta er ansi merkilegt í ljósi þess að Jón Þór hefur talað fjálglega um malbiksvinnu sína og mætti því ætla að hann snobbaði ekki fyrir háskólagráðum. En hann hefur líklega vitað, eins og SDG, að það kæmi vel út í fjölmiðlum að skarta gráðum, og treyst því að enginn myndi athuga málið betur. Gráðuleysið er auðvitað ekki vandamál útaf fyrir sig, heldur það að villa á sér heimildir.

Áður var búið að koma í ljós að Smári McCarthy, efsti maður á lista Pírata í Suðurkjördæmi, hafði gefið til kynna á Linkedin síðu að hann væri stærðfræðingur að mennt, þegar hið rétta er að hann hóf grunnnám í stærðfræði en hætti fljótlega og lauk ekki prófi. Útfrá þessum upplýsingum hefur hann verið titlaður stærðfræðingur og ekkert gert til að leiðrétta það (ekki frekar en Sigmundur Davíð leiðrétti fjölmiðla þegar þeir kölluðu hann doktor í skipulagsfræði og stundum skipulagshagfræði enda hafði hann sjálfur kynnt sig sem slíkan). Smári gaf þá heimskulegu skýringu að hann hefði ekki komist inná síðuna hjá Linkedin og því ekki getað breytt eða eytt upplýsingunum um sig, samt hvarf síðan þegar málið komst í hámæli, svo hann hefur þá að minnsta kosti getað komist inn á síðuna til að eyða henni. (Merkilegt hvað maður sem er hvað frægastur fyrir að starfa í netheimum er lélegur í grundvallaratriðum í tölvunotkun eins og að biðja um annað lykilorð hafi það tapast.)

Hafi það verið Sigmundi Davíð til hnjóðs að gefa til kynna að hann hefði prófgráður sem hann hefur ekki, er það ekkert skárra þegar Smári og Jón Þór gera það. Og sérlega hallærislegt þegar stuðningsmenn þeirra láta sem það sé ekkert mál — og eiga þó Píratar að vera æstastir manna í gegnsæi og upplýsingar. Þær upplýsingar eiga þá líka að vera réttar, hafi ég skilið það rétt.

Örfá dæmi um málefni sem Píratar leggja lið. Þau eru hlynnt spilavítum. Leggjast gegn því að lokað sé á áróðursvefsíður Íslamska ríkisins. Hið fyrrnefnda vegna þess að þau séu ekkert verri en happdrætti, en síðarnefnda í nafni algjörs tjáningarfrelsis og rétt allra til að hafa aðgang að upplýsingunum/áróðrinum (öfugt við skattskýrslur).

Píratar hafa verið fámennir á þingi (og verða það vonandi áfram!) og af þeim sökum segjast þeir ekki geta kynnt sér mál nægilega vel og sitja því alloft — eða bara gríðarlega oft — hjá þegar greidd eru atkvæði á þingi. Það var ástæðan sem þau gáfu fyrir að hafa ekki kosið með eða gegn búvörusamningnum. Stundum bera þau því við að baklandið, grasrót flokksins hafi ekki verið búið að segja þeim hvernig þau eigi að greiða atkvæði og gera þá frekar ekkert. Veittu kjósendur þeirra þeim ekki umboð sitt til að hafa áhrif á þjóðmálin? Ætli kjósendurnir séu bara sáttir við þetta atkvæðagreiðslu-afstöðuleysi?

Björn Valur Gíslason fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna skrifaði í fyrra um skilyrði sem Píratar voru þá þegar búnir að setja fyrir ríkisstjórnarþátttöku.
„Annars vegar að kosið verði um ESB (aðild eða umsókn?) og hins vegar að kosið verði um nýja stjórnarskrá. Í greininni er þetta talið vera til merkis um nýjung í íslenskum stjórnmálum og djarflega teflda skák hjá Pírötum.

Fyrir okkur sem munum lengra en til gærdagsins horfir þetta aðeins öðruvísi við.

Við myndun vinstristjórnarinnar vorið 2009 gerði Samfylkingin aðildarumsókn að ESB að skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórn. Bæði Vinstri græn og Samfylking lögðu síðan upp með mikið starf við mótun nýrrar stjórnarskrár enda höfðu báðir flokkarnir lagt mikla áherslu á það mál í aðdraganda kosninganna. Um þessi mál var m.a. fjallað í samstarfsyfirlýsingu flokkanna frá vorinu 2009. Báðir flokkarnir hafa síðan undirstrikað mikilvægi þess að ljúka báðum þessum málum með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég get því í fljótu bragði ekki séð að Píratar séu að ryðja nýja braut í stjórnmálum í þessum efnum frekar en t.d. með tillögum sínum um stjórn fiskveiða fyrr á árinu sem allar höfðu áður komið fram hjá öðrum flokkum.
Það vekur hins vegar athygli mína að ekki eru nefnd nein sérstök ríkisstjórnarskilyrði af hálfu Pírata um heilbrigðis-, mennta- eða velferðarmál, hvað þá umhverfis-, atvinnu- og skattamál svo dæmi séu nefnd.
Það kemur kannski síðar.“
Og viti menn, Píratar bættu við af lista Björns Vals endurreisn gjaldfrjálsrar heilbrigðisþjónustu og nokkrum öðrum atriðum. Það er alltaf gott að fá góð ráð.

Svo er bara spurning hvort Píratar komast í þá oddastöðu að geta valið með sér flokka í ríkisstjórn (einhverjir hafa sagt Smára McCarthy vera forsætisráðherraefni þeirra; spurning hvort það sé með eða án stærðfræðigráðu), það veltur á því hvernig kjósendur þeirra skila sér á kjörstað. Hrakspár um kosningaþátttöku Pírata hafa verið háværar allt kjörtímabilið og er talsverð óvissa hvað kemur upp úr kjörkössunum.

Frá upphafi hef ég verið andsnúin Pírötum. Nú vona ég helst af öllu að stuðningsmenn þeirra geri það sem allir hafa búist við af þeim: sitji heima á kjördag.

Efnisorð: