fimmtudagur, október 13, 2016

Móttökur þeirra sem flýja heimili sín

Þegar fólk segir að Íslendingar geti ekki tekið á móti hælisleitendum og flóttafólki vegna þess að hér sé húsnæðisleysi, öryrkjar og aldraðir hafi það skítt, og fleira í þeim dúr, verður mér oft hugsað til Vestmannaeyjagossins. Mér finnst það svo ágætt dæmi um hvernig heilt samfélag var boðið velkomið þegar það þurfti að flýja heimkynni sín. Það var riggað upp fjöldahjálparstöðvum, einstaklingar opnuðu heimili sín, og áður en langt um leið voru allir komnir í skjól. Síðan var reist í Breiðholti þyrping lítilla húsa — Viðlagasjóðshúsin — sem ætluð voru 'þessu fólki' og voru þau svo ágæt að þau eru enn í notkun og hverfið sem þau mynda er einstaklega notalegt.*

Þetta er dæmi um hjálpsemi, úrræðasemi og hlýjan hug sem hefur eflaust grætt sár (að minnsta kosti sumra) þeirra eyjaskeggja sem misstu eða óttuðust að missa heimili sitt endanlega. Og þessvegna hef ég stundum sagt sisvona þegar borið er á móti því að hleypa inn í landið hælisleitendum og öðru flóttafólki: Finnst þér þá að við hefðum ekki átt að hleypa Vestmannaeyingum lengra en í Þorlákshöfn? Rýma kannski einhverja fiskiskemmu til að gista í og láta þá dúsa þar uns þeim var óhætt að fara heim? Enginn gat vitað hvenær gosinu lyki eða hvort yfirleitt yrði byggilegt á Heimaey að því loknu. En var ekki gott hvernig við brugðumst við — með faðminn opinn? Afhverju gátum við gert þetta þá en ekki núna?

Þessar ágætu röksemdir mínar byggja auðvitað á því að við hljótum öll að vera sammála um að það hafi verið rétt af okkur að hýsa flóttamennina frá Eyjum og hjálpa þeim á alla lund meðan þeir voru húsnæðislausir og allslausir. Og ég hef í barnaskap mínum haldið að allir hljóti alltaf að hafa verið sammála um þetta. En svo bar fyrir augu mér blaðaúrklippu frá því skömmu eftir að gos hófst, og sjá, það voru greinilega ekki allir hrifnir af þessum góðu móttökum sem flóttamennirnir frá Eyjum fengu.

Í dálknum Lesendur hafa orðið í Vísi, nokkrum dögum eftir að gos hófst, er þetta haft eftir „GH“ sem hringdi:
„Nú hefur okkar hæstvirta ríkisstjórn ákveðið að leysa húsnæðisvandamál Vestmannaeyinga á kostnað húsnæðisvanda Reykvíkinga. Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum, að í alvöru hafi verið talað um að taka íbúðir í Breiðholti, sem byggðar voru fyrir borgarbúa, til afnota fyrir Vestmannaeyinga. Þetta leysir engan vanda, því þá eru það bara Reykvíkingar í stað Eyjabúa, sem eru húsnæðislausir. Það er hörmulegt, að þessar náttúruhamfarir skuli hafa skollið yfir, og allir vilja hjálpa, en þetta er röng aðferð. Það voru 90 íbúðir, sem auglýstar voru til sölu, en um þær sóttu 500 manns. Þetta fólk hefur annaðhvort ekkert húsnæði eða mjög slæmt. Því er það, að ef Vestmannaeyingar fá þetta húsnæði, þá eru það Reykvíkingar, sem eru á götunni.“**
Allar mínar röksemdir og samanburður við samheldni Íslendinga á erfiðum stundum eru farnar útum gluggann eftir að lesa þetta. Sömuleiðis sú veika von að hægt sé að tala um fyrir harðbrjósta fólki. Í þessu tilfelli er ekki hægt að brigsla GH um rasisma eða útlendingaótta; fólk sem er gjörsneytt samkennd er og verður alltaf til.*** En það er ekki þar með sagt að það verði ekki að berjast gegn rasisma og útlendingaótta, þó ekki væri nema til að koma í veg fyrir að slík viðhorf breiðist út og verði almennt samþykkt. Að sama skapi er mikilvægt að berjast fyrir því að samkennd sé mikilvægur útgangspunktur þegar kemur að hælisleitendum og flóttamönnum allra landa.

___
* Viðlagasjóðshúsin voru flutt inn á vegum Viðlagasjóðs sem var stofnaður vegna eldgossins og fjármagnaður af ríkissjóði og atvinnuleysistryggingasjóði. Húsin voru sett upp víðar en í Breiðholti.

** Úr Vísi 2. febrúar 1973. Viðtöl og fréttir um peningaaðstoð við Vestmannaeyinga, sem var ekki veitt eftir föstum reglum heldur var hvert einstakt tilfelli metið, eru á sömu síðu. Blaðið allt er stútfullt af fréttum um hvernig fólkinu reiddi af fyrstu dagana.

*** Reyndar má segja að GH líti á Vestmannaeyinga sem „hina“ og það skiptir þá engu hverjir „hinir“ eru, þeir eru alltaf óvelkomnir og annars flokks.