fimmtudagur, september 08, 2016

Þessum 26 þingmönnum er sama um velferð dýra

Það þýðir ekkert að reyna að ljúga því að ég hafi lesið nýja búnaðarsamninginn, hvað þá skilji hann. Það eru víst fáir sem skilja landbúnaðarlög (ég er ekki þar á meðal) svo ég reyni ekki einu sinni að þykjast vita neitt í minn haus þegar kemur að samningum við bændur. Eins og áður hefur komið fram þá er ég sveitarómantíker og vil hafa hér bændastétt – en þá auðvitað vandaða bændur en ekki framleiðendur verksmiðjuframleiddra dýraafurða.

En þótt ég viti nánast ekkert um búnaðarsamninginn sem Framsóknarmenn vilja ólmir koma gegnum þingið, nema það að samningurinn sem gerður var við bændur og lögin eiga að byggja á er almennt talinn vondur og verst af öllu hve lengi hann á að gilda, rak ég upp stór augu þegar Stundin birti frétt um atkvæðagreiðslu á þingi þar sem stjórnarliðar kusu nánast sem einn maður gegn því að refsa bændum sem verða uppvísir að því að misþyrma dýrum.

Eftir fyrstu umræðu á þinginu var búnaðarsamningurinn til meðferðar hjá atvinnuveganefnd og þar lagði Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna fram þá tillögu „að eftirfarandi málsgrein yrði bætt inn í lögin:
Heimilt er að fella niður greiðslur til þeirra sem brotið hafa gróflega eða ítrekað gegn ákvæðum laga um velferð dýra, nr. 55/2013, með síðari breytingum.“
„Annarri umræðu um frumvarpið vegna búvörusamninganna lauk fyrir helgi og voru þá meðal annars greidd atkvæði um breytingartillögu Lilju. 21 þingmaður studdi breytingartillöguna; allir þingmenn Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem viðstaddir voru og einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Elín Hirst.“
Hjá sátu: Birgir Ármannsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Sigríður Á. Andersen úr Sjálfstæðisflokknum, ásamt Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, þingkonu Framsóknarflokksins. (Hún er bóndi ef ég man rétt.)

26 þingmenn úr Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum greiddu hins vegar atkvæði gegn tillögunni. Þetta eru: Ásmundur Einar Daðason (bóndi), Ásmundur Friðriksson, Brynjar Níelsson, Einar K. Guðfinnsson, Elsa Lára Arnardóttir, Eygló Harðardóttir, Geir Jón Þórisson, Gunnar Bragi Sveinsson, Haraldur Benediktsson (bóndi), Haraldur Einarsson (bóndi), Jón Gunnarsson, Karl Garðarsson, Kristján Þór Júlíusson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigrún Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson (dýralæknir), Silja Dögg Gunnarsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Vilhjálmur Árnason, Vilhjálmur Bjarnason, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir (bóndi).

Þessir þingmenn vildu semsagt að menn gætu barasta alveg fengið að níðast á dýrum án þess að það kæmi neitt við pyngjuna (en eins og flestir vita, og ekki síst framsjallar þá er talsverður hvati fyrir flesta að gera ekki það sem þeir gætu verið sektaðir fyrir eða missa sporslur ef þeir verða uppvísir að).

Auðvitað á Matvælastofnun að hafa eftirlit með bændum og meðferð þeirra á skepnum en stofnunin sú er oft á tíðum svifasein þegar um er að ræða velferð dýra (kannski þekkja dýralæknar/dýraeftirlitsmenn bændur persónulega og hlífa þeim?) og það er því ekki úr vegi að hafa fleiri úrræði til að stöðva frekara ofbeldi gegn dýrum.

Í athugasemdakerfi Stundarinnar var sagt frá hvernig sumir bændur fara með nautgripi.
„kýr eins og öll önnur dýr á að umgangast með umhyggju og virðingu.. þeir bændur sem ég var hjá í sveit á sínum tíma umgengust þær með fyrirlitningu og miskunnarleysi.. einn er ógleymanlegur.. allar kýrnar 45 að tölu voru með margbrotna hala ...“

„Þekki þannig framkomu, bóndinn var viðbjóðslegur við nautgripina lamdi þá með stunguspaða svo úr blæddi og braut hala,“
Og fleiri en einn minntist á bóndann fyrir norðan sem var
„kærður fyrir dýraníð í fyrrasumar eftir að hann brá reipi um hálsinn á ungri kvígu og festi það aftan í jeppabifreið og dró hana liggjandi á eftir bílnum, þannig að hún drapst … bóndinn játaði fyrir héraðsdýralækninum að hafa gengið of langt, en málið var ekki rannsakað frekar og leyst með áminningu“.

Augljóslega voru þessir 26 þingmenn að fylgja flokkslínunni en það er samt magnaður andskoti að þeim hafi fundist í lagi að greiða atkvæði gegn tillögu sem gæti dregið úr illri meðferð á skepnum. Bara til þess að greiða götu búnaðarsamnings sem á að auka vinsældir Framsóknar hjá bændum. Bændasamtökin hafa nefnilega áður beitt sér gegn slíku fyrirkomulagi.
„Í upphaflegu frumvarpi til laga um velferð dýra, sem Steingrímur J. Sigfússon þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra lagði fram árið 2012, var gert ráð fyrir að við brot á lögunum yrði Matvælastofnun heimilt að fella niður opinberar greiðslur til bænda að undangenginni áminningu.
Þetta ákvæði var fellt brott eftir að Bændasamtök Íslands höfðu tekið eindregna afstöðu gegn því, einkum á þeim grundvelli að slíkt fyrirkomulag væri á skjön við búvöru- og búnaðarlög.“
Og þess má geta að Steingrímur Joð, Kristján Möller og Björt Ólafsdóttir sem öll sitja í atvinnuveganefnd lögðu sig fram um að koma viti fyrir samþingmenn sína og fá þá til að sættast á ákvæði um að fella niður styrki til þeirra sem fara illa með húsdýr.

Sem betur fer tók Stundin málið upp og það var liðsinni sem munaði um því viðbrögðin í athugasemdakerfinu voru nokkurnveginn samhljóða fordæming á viðbjóðslegri afstöðu þingmannanna tuttugu og sex. Og viti menn, líklega vegna þess að það er stutt til kosninga, þá hreinlega sáu þingmennirnir í atvinnuveganefndinni að sér (eða öllu heldur sáu sína sæng útbreidda) og bættu ákvæði um niðurfellingu ríkisstyrkja vegna dýraníðs inn í frumvarpið um búvörusamninga.

Fari svo að frumvarpið verði að lögum (eða einhverjir partar úr samningnum; enn er óvíst hvaða vankanta velvakandi stjórnarandstaðan nær að sníða af honum og gera hann þannig geðslegri) þá verður þessi heimild um að fella niður greiðslur til dýraníðinga með í pakkanum.

Næst mætti beita sömu aðferð gegn meðferðinni sem svín og hænsni sæta á verksmiðjunubúum.

Efnisorð: , ,