föstudagur, ágúst 19, 2016

Bjarninn

Bjarni Ben er mjög ringlaður þessa dagana, nú þegar styttist í kosningar. Hann les fjölmiðla þar sem fjölmiðlafólk virðist ekki allt fylgja ströngustu kröfum eigenda um hvað beri að segja. Í fjölmiðlum sem Bjarni treystir er skoðunum og stefnumálum eigenda og ritstj. hampað og lesendur þurfa ekki að velkjast í vafa um hvaða skoðun beri að aðhyllast. En allskonar uppivöðslusamir fjölmiðlar sem virðast hafa það eitt að augnamiði að hafa aðhald með stjórnvöldum, og grúska í því sem þeim kemur ekki við, eru ekkert með svona skýra ritstjórnarstefnu, sem ruglar Bjarna alveg í ríminu.

Ekki bætir úr skák að verða sjálfur og persónulega vitni að því að til sé fólk – jafnvel samstarfsfólk hans – sem ekki lætur flokkshollustu ganga fyrir öllu. Bjarni er alveg bit á því að Eygló sé ekki barasta rekin úr ríkisstjórninni (sem kannski mun gerast en það tekur því nú varla úr því stutt er til kosninga) fyrir að greiða ekki atkvæði með fjármálaáætlun (sem er náttúrlega bara kosningaloforð) sem henni þótti ekki gagnast lífeyrisþegum nægilega. Hún tók eitthvað bótapakk framyfir ríkisstjórnina og flokkinn sinn! Bjarni bara skilur ekki svona.

Bjarni hefur sjálfur talsvert lengi stundað að skipta um skoðun og ham eftir því sem henta þykir. Hann hefur bæði verið með og á móti evru og inngöngu í Evrópusambandið, en þá alltaf til að aðlagast flokklínunni sem er lögð fyrir hann. Hann var einlægur um efasemdir sínar um að halda áfram í formannshlutverkinu þegar hann þurfti samúð kjósenda (sem mýktust mjög í hans garð í kjölfarið), en þegar upp komst að hann væri skráður á framhjáhaldssíðu fór hann glaðbeittur í hvern hressa spjallþáttinn á fætur öðrum, til að sýna framá að þetta hefði allt verið flipp í þeim hjónum (svo ósennilegt sem það nú er). Þegar Sigmundur Davíð var bæði búinn að gera sig á viðundri á alþjóðavettvangi með því að rjúka úr viðtalinu fræga, og í ofanálag lenda í deilum við þáverandi forseta með þeim afleiðingum að Bjarni Ben var alltíeinu kominn með nýjan forsætisráðherra sér við hlið í tröppurnar á alþingi, þá sýndi Bjarni valdsmannlega og pirraða Bjarna (og leitaði þar í smiðju Davíðs Oddssonar). Með því sýndi hann að hann að það væri Bjarninn sem í raun réði ferðinni og að það skipti hann engu hver væri með honum í forystu ríkisstjórnarinnar.

Nú þegar Eygló leyfir sér að standa gegn (eða öllu heldur sitja hjá) þegar kosið er um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, þá sýnir hann aftur valdsmannlega Bjarna. En nú má lesa úr hegðun hans að honum sé slétt sama um Framsóknarflokkinn, það sé ekkert hans vilji endilega að vera í samfloti með svona fólki. (Heldur vill hann vera með Brynjari Níelssyni í liði, sem segir að Eygló sé búin að vera með súkkulaði út á kinn allt kjörtímabilið, svona eins og hann trúi því sjálfur að bótaþegar og aðrir þeir sem undir félagsmálaráðuneytið falla, séu eins og súkkulaðigrísir sem fá aldrei nóg.) Auðvitað á Bjarni sér margar hliðar, eins og allt annað fólk, en þessar hliðar sem hann sýnir eru dregnar fram þegar á þarf að halda, en eru ekki til sýnis annars. Það er ekki einlægi Bjarni sem furðar sig á Eygló, eða pirraði Bjarni sem mætir í hressa spjallþætti, heldur er þetta allt gert til að vinna kjósendur á sitt band. Bjarni gæti aldrei unnið á fjölmiðli við að skrifa fréttaskýringar þar sem hann væri ekki að reyna að afla Sjálfstæðisflokknum fylgis. Og hann gæti líklega ekki skrifað greinar fyrir flokkinn nema búið væri að leggja honum línurnar.

Því hvað sem um Bjarna má segja, þá er hann alltaf fyrst og fremst með hagsmuni sína, ættarinnar og flokksins í fyrirrúmi. Og það vill til að þessir hagsmunir falla svona ágætlega saman í einn farveg.

Efnisorð: , ,