fimmtudagur, janúar 14, 2016

Peningamannaþvottur

Vegna þess að ég horfi nánast aldrei á fréttir Stöðvar 2 eða Ísland í dag, vissi ég ekkert um viðtalið við heilögu þrenninguna á Kvíabryggju fyrr en seint og síðar meir og sá það enn síðar. Sem var að vissu leyti heppilegt því þá þegar voru búnar að birtast ýmsar greinar og glósur um viðtalið, heilindi fjölmiðlamannsins og það sem viðmælendur hans höfðu að segja.

Það vill líka svo heppilega til að fyrir örfáum dögum síðan skrifaði ég um
„herferð sem lengi hefur staðið, ekki síst á síðum Fréttablaðsins, þar sem borið er blak af auðmönnum og bankamönnum (eða þeir skrifa sjálfir fullir heilagrar reiði) og þeir sagðir ranglega ákærðir, illa með þá farið, og saklausir dæmdir.“
Viðtalið sem Þorbjörn Þórðarson tók er sannarlega afar gott dæmi um það.

Þórður Snær Júlíusson segir efnislega það sama og ég í grein á Kjarnanum:
„Viðtalið við Ólaf og samfanga hans tengdum Kaupþingi var liður í mjög fyrirferðamikilli herferð þeirra sem annað hvort hafa hlotið dóma fyrir hruntengda glæpi eða eru til rannsóknar í slíkum málum þess efnis að bankafólk sé fórnarlömb samsæris. Undanfarnar vikur og mánuði hefur sú herferð birst í fjölmörgum aðsendum greinum í blöð frá aðstandendum, lögmönnum, fyrrverandi upplýsingafulltrúum eða mönnunum sjálfum þar sem talað er um aðför að réttaríkinu og dómsmorðið sem þeir hafi orðið fyrir.“
Ingi Freyr Vilhjálmsson hefur einnig skrifað fína grein í Stundina þar sem hann tínir til nokkur ágæt dæmi þess að Ólafur Ólafsson hafi notið klíkuskapar og pólitíkur þegar hann eignaðist Búnaðarbankann (sem svo hlaut nafnið Kaupþing) og ræðir einnig Al Thani-málið (þó ekki eins ítarlega og Þórður Snær) og afskipti Ólafs Ólafssonar af einkavæðingu Vátryggingafélags Íslands.

Ekki er síðri samantekt Láru Hönnu Einarsdóttur þar sem hægt er að sjá Kvíabryggju-viðtalið og ýmis önnur viðtöl sem draga fram allt aðra sögu en þá sem þeir „vesalingarnir á Kvíabryggju“ hafa að segja. (Já og góður punktur hjá Láru Hönnu að benda á að þetta gagnrýnislausa viðtal á Stöð 2, „sem er undir hæl auðmanna“ sé staðfesting á nauðsyn Ríkisútvarpsins.)

Hvort sem Þorbjörn Þórðarson fór nauðugur viljugur eða þótti það þarfaverk að brenna vestur á Snæfellsnes til að taka viðtalið, vafðist honum tunga um tönn þegar hann sagði [á 12:40 mín]:
„Eitt örstutt að lokum, vegna þess að umræðan er oft á tíðum svolítið hatrömm. Svona núna þegar þið vitið meira og þið eruð búnir að hafa tíma til að hugsa málið; Þið vitið alveg sjálfir að það eru ekki … það eru ekkert allir á móti ykkur?“
Þessi spurning, hvort sem spyrjandinn samdi hana sjálfur eða ekki, er versta augnablikið í vondu viðtali, og hlýtur að gera út af við feril Þorbjörns sem fagmanns í blaðamannastétt, enda þótt hans geti beðið glæstur ferill sem málpípa auðmanna.

Ólafur (fyrir hönd auðmanna í fangelsi) svarar spurningunni og segir að reynt sé að draga upp mynd af þeim þremur eins og þeir séu „virkilega svona fólk“ og talar um „þetta almenna viðhorf sem er verið að reyna að búa til í samfélaginu gegn okkur“.

Sjálfur er hann auðvitað blásaklaus af því að reyna að hafa áhrif á viðhorf fólks gagnvart sér og sökunautum sínum, og Jón Ásgeir jafn saklaus af því að beita fjölmiðlum sínum í sama skyni. Einmitt.

Efnisorð: ,