þriðjudagur, janúar 19, 2016

Gleymdur hátíðardagur?

Það er langt síðan ég tók þennan dag frá. Merkti við á dagatalinu, en hafði jafnframt í huga að kannski yrði helgin notuð svo ég passaði mig á að vera ekkert upptekin þá (og til vara er ég heldur ekki upptekin næstu helgi). En þótt ég telji mig fylgjast þokkalega vel með, þá sá ég engar auglýsingar eða tilkynningar um fundi og mannfagnaði í tilefni dagsins.

Svo ég harkaði af mér í gær og sló inn slóðina að Kvennablaðinu. Þegar það bar ekki árangur skoðaði ég aðra samfélagsmiðla en hvergi gat ég séð að Kvennablaðið blési til fagnaðar. Samt markaði dagurinn í dag 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna (yfir fertugu) og karla í vinnumennsku, að sögn Kvennablaðsins.

Almenningur allur hélt upp á 100 ára afmælið á síðasta ári og 19. júní var helsti hátíðardagurinn, en langömmubarn Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og pistlahöfundar hennar á Kvennablaðinu aftóku með öllu að sá dagur væri merkilegur og fussuðu og sveiuðu yfir heimsku feminista að vita ekki að 100 ára kosningaréttarafmælið væri 19. janúar.

Og því hefði verið eðlilegt að álykta að Kvennablaðsfólk héldi ráðstefnu eða allavega fund, mætti á Austurvöll og héldi ræður (í dag var ágætis veður til útivistar), eða gerði sér að minnsta kosti far um að minnast dagsins á síðum Kvennablaðsins. En nei. Ekki einu sinni hins stórkostlega áfanga í karlasögunni, að vinnumenn fengu loksins kosningarétt, fær nokkra athygli, hvað þá þetta smotterí að konur fengu í fyrsta sinn rétt til að kjósa til alþingis.

Hversvegna var þá allur æsingurinn þarna í fyrra? Það var ekki vegna þess að Kvennablaðsfólki langaði svona mikið að hafa hátíðahöld á réttum degi, eða vegna þess að það bæri sérstaka virðingu fyrir körlunum forfeðrum sínum sem fengu loks að kjósa eins og húsbændur þeirra. Nei, aðalmálið var að skemma stemninguna, reyna að láta líta út fyrir að 100 ára hátíðahöldin væru eitthvað plat byggt á röngum forsendum, og síðast en ekki síst að draga úr trúverðugleika kvenréttindahreyfinga allra tíma en þó sérstaklega feminista samtímans.

Eiginlega má sjá þetta upphlaup eftirá, svona í ljósi þess að ekki nokkur hræða á Kvennablaðinu minnist opinberlega á þennan ‘hátíðardag’, að ritstjóri og pistlahöfundar hafi þarna í fyrra hegðað sér eins og nettröll. Voru bara að grilla í liðinu, engin meining bak við neitt. En auðvitað var meiningin sú að klekkja á feministum.

Eins og ég þóttist vita.


Efnisorð: