laugardagur, desember 05, 2015

Nú er úti veður vont

Það er veður til að klæða sig hlýlega. Íslendingar jafnt sem túristar eru í úlpum af öllu tagi, margar þeirra er framleiddar af íslenskum fyrirtækjum með smart ímynd. Eftir því sem ég hef séð fleiri úlpur vaknaði forvitni mín svo að ég lagðist í njósnaleiðangur inn á síður íslenskra fyrirtækja sem framleiða og selja útivistarfatnað.* Tilgangurinn var ekki að skoða hvaða úlpur væru smartar heldur hafði ég örlitlar áhyggjur af öllum þessum skinnskreyttu úlpuhettum.


66°norður
Mér telst til að sex úlpur fyrir karlmenn séu með því sem við fyrstu sýn virðist vera skinnkragi. Þar af reyndust þrjár vera með gerviskinni, en þrjár með dýrafeldi. Af þeim ein með silfurrefaskinni og tvær með þvottabjarnarfeldi. Tekið er fram að skinnið komi frá „frá Sagafurs í Finnlandi en það starfar samkvæmt ströngustu kröfum og reglum um meðferð á dýrum“,** og að dúnninn í úlpunum komi frá „frá Þýskalandi og er VET vottaður“.***

Fleiri flíkur fyrir konur voru með gerviskinni og nokkrar dýrafeldi. Eins og á karlmannaúlpunum voru þrjár úlpur með silfurrefaskinni og þvottabjarnarskinni. Fimm flíkur (úlpur, kápa, jakki og anorak) voru með skinnkannti á hettu eða einangraðar með gervifeldi.

Barnafatnaðurinn var í þremur tilvikum með gerviskinni en ein úlpa hefur þvottabjarnarskinn á hettunni.

Spurningin hlýtur að vera sú hversvegna 66° hættir ekki alfarið að nota loðfeldi dýra, sem alin eru í búrum eingöngu til að flá af þeim skinnið, úr því þeim tekst að framleiða og selja fjölmargar flíkur sem eru með gerviskinni.


Icewear
Gerviloðfeldir eru á kvenúlpu og karlúlpu. Hinsvegar eru til hanskar og ungbarnaskór úr lambaskinni; eyrnabönd, kragi, treflar, og sjöl úr kanínuskinni; sjal með bæði kanínu- og þvottabjarnarskinni.


ZO-ON
Fyrirtækið notar mjög loðið orðalag til að lýsa því sem er á hettum útivistarfatnaðar.

Þrjár úlpur fyrir karlmenn eru með „hettu með loði sem hægt er að taka af“ og sömuleiðis eru þrjár úlpur fyrir konur og ein barnaúlpa með „loði“.

Hvað hefur ZO-ON að fela? Hvað er þetta „loð“? Kattarskinn?


Cintamani
Ein karlmannsúlpa frá Cintamani hefur gerviskinn á hettu. Sex úlpur eru með „ekta loðskinnkraga“, „ekta þvottabjarnarskinn“, og „hágæða þvottabjarnarskinn á hettu“.

Allar kvenmannsflíkurnar sem á annað borð hafa skinnkraga eru með „ekta loðskinnkraga“, „ekta kanínuskinn“, og „hágæða þvottabjarnarskinn“, alls sex tegundir af úlpum og jökkum.

Ein barnaúlpa er með gerviskinni og önnur með „loðkraga“ – ekki nánar skilgreint. Ullarhúfa fyrir börn er með „loðskinnslíningu“ og er sögð vera úr 70% ull, 20% angóra og 10% nylon. (Þetta er mjög óljóst - er hér um angórakanínuskinn að ræða?)

Cintamani tekur fram að „Allar vörur okkar eru framleiddar með dýravernd að leiðarljósi.“ Alveg er ég viss um að allar kanínurnar og þvottabirnirnir**** (og hin óskilgreindu dýr sem lögðu til „ekta loðskinn“) eru þakklát fyrir að hafa fórnað lífi sínu fyrir svo göfugt markmið.


Í harðbýlu landi — og eins og veðrið hefur verið undanfarið — er erfitt að hvetja fólk til að sniðganga öll helstu fyrirtæki sem framleiða útivistarfatnað. En það er sannarlega hægt að biðja fólk um að kaupa ekki flíkur sem skreytt eru dauðum dýrum.

___
* Mér gæti hafa sést yfir einhver fyrirtæki.

** Án þess að ég viti nákvæmlega í hverju þessar „ströngustu kröfur og reglur“ felast þá gef ég mér að þar sé átt við stærð búra og aflífunaraðferðir. Það skiptir ekki meginmáli fyrir dýrið þótt búrið sem það elur allan sinn aldur í sé nokkrum senitmetrum stærri (lítil og þröng búr eru þó auðvitað verri en þau rúmbetri), vistin er hræðileg samt sem áður og líf dýranna ömurlegt.

*** Ég fór ekki útí dúnrannsóknir en vona að dúnninn sé fenginn með mannúðlegum hætti. Loðdýrarækt tel ég að fari aldrei mannúðlega fram og einbeiti mér því að notkun skinna á skjólfatnaði. Cintamani tekur fram að fyrirtækið noti einungis „andadún sem er plokkaður af slátruðum öndum sem nýttar eru til manneldis“. Valkostur við dún gæti verið primaloft, en það er fylling úr gerviefni sem samanstendur af fjölmörgum mjúkum örþráðum sem halda hita að líkamanum.

**** Þvottabjörn eða raccoon dog sem líkist þvottabjörnum í útliti? Og eru gervifeldirnir örugglega úr gerviefni eða dulbúnir feldir af dýrum?

[Viðbót síðar] Þessar upplýsingar er að finna í pistli sem birtur var hér á síðunni 30. apríl 2017: Nú hefur komið í ljós að í sumum tilvikum eru fatnaður og fylgihlutir, sem sagðir eru skreyttir gervifeldi, í rauninni með alvöru loðfeld. Við nánari skoðun Sky News reyndust vera feldir af mink, kanínu og ketti á flíkum sem fást í verslunum í Bretlandi.
Og þá er bara spurningin hvort vara sem hér á landi er keypt (af innlendum eða erlendum framleiðendum) í góðri trú um að engin dýr kveljist við framleiðsluna, sé einnig svikin vara — eða öllu heldur ekta loðfeldur.“

Efnisorð: ,