laugardagur, maí 30, 2015

Hitnar undir körlum

Fjöldi kvenna segir nú opinskátt frá kynferðisofbeldi sem þær hafa sætt. Fyrst í lokuðum hóp sem er eingöngu fyrir konur, svo einnig á Twitter, og fjölmiðlar fylgjast með. Konurnar sýna þarna mikinn kjark og þrátt fyrir einstaka ósmekklegheit nettrölla þá er mikill samhugur og stuðningur við þetta stóra skref sem þær stíga. (Gerendurnir eru þó ekki nafngreindir.) Sumum ummælum þeirra er af ýmsum ástæðum tíst oftar en einu sinni, þar af einu sem segir að ekki megi gleyma öllum karlmönnunum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Á sama tíma komst í hámæli að karlmaður beitti barnsmóður sína ofbeldi bæði á fæðingardeildinni og eftir að hún var nýkomin heim með tvíbura sem hún eignaðist með keisaraskurði. Nú er verið að ræða verkferla varðandi tilkynningar um heimilisofbeldi, tíðni ofbeldis gagnvart barnshafandi konum — en að öllum líkindum verða tuttugu prósent kvenna fyrir ofbeldi á meðgöngu af hálfu barnsföður síns — og þá óhugnanlegu staðreynd að karlmenn hafa barið börn úr konum, meðal annars í frétt sem birtist á Vísi.

Þarna er óhægt um vik að segja að karlar verði líka fyrir ofbeldi þegar þeir séu óléttir, en þeir eru nú ekki af baki dottnir samt, karlarnir í athugasemdakerfinu. Þeir fara nefnilega að tala um fóstureyðingar.

Þær eru margvíslegar, leiðirnar til að dreifa athyglinni frá ofbeldi karla gegn konum.


___

[Viðbót, síðar] Í janúar 2016 skrifar Hrannar Björn Arnarsson um ofbeldi karla gegn konum og þá sérstaklega morð í nánum samböndum. Athugasemdir við greinina eru lýsandi dæmi um undanbrögð karlmanna; þeir fara umsvifalaust að ræða ofbeldi sem konur beita.


Efnisorð: , , , , ,