fimmtudagur, apríl 23, 2015

Verkföll og lokuð rými

Oft hef ég séð í bíómyndum þegar einhver er rotaður og settur inní skáp til að þvælast ekki fyrir. Þegar fréttist að stjórn Granda hefði — þrátt fyrir útbásúnaðar skoðanir stjórnarformanns síns Kristjáns Loftssonar sem þá hafði nýlega fengið arðinn sinn og hækkuð stjórnarlaun — ákveðið að bæta starfsfólki lág laun með því að hækka hjá því bónusinn, þótti mér einsýnt að stjórnin hefði tekið til þess örþrifaráðs að loka Kristján inní skáp. Líklega bundinn og keflaðan.

Fram að þessari bónusreddingu var hægt að benda á Granda sem dæmi um misskiptingu auðs í þjóðfélaginu. Þeir ríku verða ríkari og skara endalaust að eigin köku með öllum ráðum, meðan starfsmaður á plani rétt skrimtir. Auk lélegra launa býr fólk sem vinnur við mikilvægar atvinnugreinar á borð við sjávarútveg og ferðaþjónustu ekki við atvinnuöryggi. Háskólamenntað fólk sem hefur varið mörgum árum í að afla sér menntunar uppsker ekki í samræmi við það í launaumslaginu. Þessvegna eru verkföll og það verða fleiri verkföll.

Stéttarfélög Bandalags háskólamanna hafa nú í apríl farið í verkföll.
Á vefsíðu BHM) segir að „Um mismunandi aðgerðir er að ræða allt frá því að vera verkfall part úr degi yfir í ótímabundin allsherjarverkföll. Alls taka rúmlega 3000 manns þátt í aðgerðunum.“

Fóru í verkfall 7. apríl:
Félag geislafræðinga: ótímabundið verkfall 108 félagsmanna
Félag lífeindafræðinga: ótímabundið verkfall 215 félagsmanna frá kl. 8-12 alla virka daga
Ljósmæðrafélag Íslands á Landspítala: ótímabundið verkfall 135 félagsmanna á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum
Stéttarfélag lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu: ótímabundið verkfall 27 félagsmanna
Félag íslenskra náttúrufræðinga á Landspítala: ótímabundið verkfall 75 félagsmanna

Fóru í verkfall eða voru enn í verkfalli 9. apríl:
Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, 27 félagsmenn
Félag ísl félagsvísindamanna, 88 félagsmenn
Félag íslenskra náttúrufræðinga, 579 félagsmenn
Fræðagarður, 556 félagsmenn
Iðjuþjálfafélag Íslands, 76 félagsmenn
Ljósmæðrafélag Íslands, 84 félagsmenn
Sálfræðingafélag Íslands, 148 félagsmenn
Stéttarfélag bókasafns og upplýsingafræðinga, 103 félagsmenn
Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði, 33 félagsmenn
Félagsráðgjafafélag Íslands, 85 félagsmenn
Stéttarfélag lögfræðinga, 311 félagsmenn
Félag sjúkraþjálfara, 121 félagsmenn
Þroskaþjálfafélag Íslands, 33 félagsmenn
Félag íslenskra hljómlistarmanna (Starfsmannafélag Sinfóníunnar) 9. apríl frá kl. 19:00-23:00, 89 félagsmenn
Ljósmæðrafélag Íslands á Sjúkrahúsinu á Akureyri: ótímabundið verkfall 17 félagsmanna á mánudögum og fimmtudögum frá 9. apríl

Enn í verkfalli:
Félag geislafræðinga: ótímabundið verkfall frá 7. apríl
Félag lífeindafræðinga: ótímabundið verkfall frá 7. apríl frá kl. 8-12 alla virka daga
Ljósmæðrafélag Íslands á Landspítala: ótímabundið verkfall á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum frá 7. apríl
Stéttarfélag lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu: ótímabundið frá 7. apríl
Félag íslenskra náttúrufræðinga á Landspítala: ótímabundið frá 7. apríl

Fóru í verkfall eða eru enn í verkfalli 20. apríl:
Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hjá Fjársýslu ríkisins: tímabundið verkfall 35 félagsmanna frá 20. apríl til 8. maí
Félag íslenskra náttúrufræðinga á Matvælastofnun: ótímabundið verkfall 12 félagsmanna frá 20. apríl
Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði á Matvælastofnun: ótímabundið verkfall 13 félagsmanna frá 20. apríl
Dýralæknafélag Íslands : ótímabundið verkfall 39 félagsmanna frá 20. apríl

Enn í verkfalli:
Félag geislafræðinga: ótímabundið verkfall
Félag lífeindafræðinga: ótímabundið verkfall frá 7. apríl frá kl. 8-12 alla virka daga
Ljósmæðrafélag Íslands á Landspítala: ótímabundið verkfall á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum frá 7. apríl
Stéttarfélag lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu: ótímabundið verkfall
Félag íslenskra náttúrufræðinga á Landspítala: ótímabundið verkfall
Ljósmæðrafélag Íslands á Sjúkrahúsinu á Akureyri: ótímabundið verkfall 17 félagsmanna á mánudögum og fimmtudögum frá 9. apríl

Ofan á þetta munu líklega bætast verkföll Starfsgreinasambandsins. Starfsgreinasambandið er fjölmennasta landssamband verkafólks á Íslandi og stærsta sambandið innan ASÍ, með samtals um 50.000 félagsmenn. Í frétt segir enda að „Verkfallið kemur til með að hafa víðtæk áhrif meðal annars á ferðaþjónustu og fiskvinnslu á landsbyggðinni.“

30. apríl 2015: Allsherjar vinnustöðvun frá klukkan 12:00 á hádegi til miðnættis sama dag.

6. maí: Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis.
7. maí: Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis.

19. maí: Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis.

20. maí: Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis.

26. maí: Ótímabundin vinnustöðvun hefst á miðnætti aðfaranótt 26. maí 2015.

Til þess að leysa verkfall háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, þ.á m. heilbrigðisstarfsmanna, og koma í veg fyrir allsherjarverkfall undirstöðuatvinnugreinanna, væri kannski ráð að læsa fleiri þrjóskupúka inní skáp meðan gengið er frá mannsæmandi samningum.

Efnisorð: