mánudagur, apríl 27, 2015

Til þess eiga menn fjölmiðil

Það olli mér miklum vonbrigðum að pistil Guðmundar Andra var hvergi að finna í Fréttablaðinu í morgun. Yfirleitt er hann eina tilhlökkunarefnið á mánudagsmorgni (ekki er það veðurblíðan). En ekki nóg með að pistilinn vantaði, skýringarlaust,* heldur var í stað hans munnræpa úr Jóni Ásgeiri Jóhannssyni þar sem hann býsnaðist yfir ofsóknum á hendur sér, rétt eina ferðina.

Ritstjórn Kjarnans hefur greinilega fylgst með greinaskrifum Jóns Ásgeirs og fjallaði heldur háðslega um þau á eftirfarandi hátt:
„Jón Ásgeir Jóhannesson skrifar reglulega greinar í Fréttablaðið, sem hann átti einu sinni en er nú í eigu eiginkonu hans.** Greinarnar snúast vanalega um ofsóknir sem hann hefur orðið fyrir að ósekju. Slíkar má lesa hér, hér, hér, hér og hér. Eina undantekningin frá þessu leiðarstefi var mýkri grein sem Jón Ásgeir skrifaði nokkrum dögum eftir að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis hafði opinberað alla ævintýralegu vanhæfnina, græðgina og skeytingarleysið sem átti sér stað í íslensku viðskipta- og fjármálalífi á árunum fyrir hrun. Þar sagðist hann hafa misst sjónar á góðum gildum en ætlaði að leggja sitt af mörkum til „að byggja Ísland upp að nýju.“

Og í dag skrifaði hann enn eina greinina í Fréttablaðið, nú í tilefni þess að Hæstiréttur hefur ómerkt dóm héraðsdóms í Aurum-málinu. Í greininni er kunnuglegt stef. Hann kvartar yfir því að hafa þurft að verja hendur sínar í 13 ár og að tilgangurinn virðist vera „sá að koma mér í fangelsi hvað sem það kostar“. Hann segir ákæruvaldið hafa eytt milljörðum króna af fé íslenskra skattgreiðenda síðustu 13 ár til að reyna að reyna að finna einhvern glæp svo hægt sé að taka hann úr umferð.“
Í einu hefur Jón Ásgeir rétt fyrir sér: það myndi gleðja fjölmörg okkar að sjá á eftir honum bak við lás og slá. Lengi.

Það gleður ekki eins mikið hve Fréttablaðinu hefur verið beitt grímulaust í þágu Jóns Ásgeirs undanfarið. Reyndar ekki bara hans heldur annarra auðmanna — sem sumir hverjir sitja nú vestur á Kvíabryggju. Reynt hefur verið að grafa undan sérstökum saksóknara í blaðinu, svona til að ýta undir þá skoðun að þetta séu allt ofsóknir en mennirnir saklausir, og þá Jón Ásgeir sömuleiðis. Ögmundur Jónasson skrifaði í febrúar grein sem byrjar svona:
„Á síðasta degi liðins árs birtist leiðari í Fréttablaðinu sem fjallaði um meðferð embættis Sérstaks saksóknara á málum sem embættið hefur haft til meðferðar. Áður hafði Fréttablaðið – sem stundum fyrr – slegið upp fréttum af meintri valdníðslu embættisins við rannsókn á efnahagsbrotum í aðdraganda hrunsins.“
Var þó eftir einn umtalaðasti leiðarinn hingað til, skrifaður af fyrrverandi blaðafulltrúa Baugsveldisins og núverandi yfirritstjóra Kristínu Þorsteinsdóttur. Lokaorð hans voru „Niðurstaða Hæstaréttar er óboðleg, og má ekki verða endahnútur þessa máls. Nú taka fjölmiðlar við.“ Mörgum hefur þótt þetta vera stríðsyfirlýsing blaðsins um enn grímulausari áróður í þágu eigenda þess.

Fáum dögum síðar hóf eiginkona eins sakborninga og tugthúslima Al-Thani málsins varnarskrif sem var einnig stillt upp á leiðaraopnu blaðsins. Þegar svo Aurum-málið var ómerkt af Hæstarétti og sent aftur í héraðsdóm, vegna þess að bróðr þessa sama tugthússlims reyndist hafa verið meðdómandi, lét Fréttablaðið það eftir sér að láta þetta vera lokaorð fréttar um úrskurð Hæstaréttar, og er þar að vitna í Gest Jónsson verjanda eins sakborninga:
„Afleiðingin af þessu er að fjórir menn sem voru sýknaðir í héraði, og áttu von á að fá enda í sín mál á næstu mánuðum, verða að bíða enn eitt árið eftir niðurstöðu í málinu. Minn skjólstæðingur í þessu máli, Jón Ásgeir, er nú þegar búinn að hafa réttarstöðu sakbornings í á þrettánda ár. Mér finnst þetta vera bara alveg til vansa,“ segir Gestur.“
Verjandi Jóns Ásgeirs, eiganda (ok, giftur eiganda) Fréttablaðsins á síðasta orðið. Blákalt og grímulaust.

Þetta er semsagt ekki í fyrsta sinn sem Jón Ásgeir notar Fréttablaðið til að reyna að snúa almenningsálitinu sér í vil. En ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem hann gerir þau mistök að ryðja Guðmundi Andra frá til að koma eigin pistli í andlitið á lesendum. Það sýnir að dómgreindin er ekki nú frekar en áður að þvælast fyrir Jóni Ásgeiri.

___

* Skýringin á þessum umskiptum á leiðaraopnu Fréttablaðsins frá góðum stílista til útrásarvíkings með lítið siðvit var ekki sú að Guðmundur Andri væri í fríi eða hefði svikist um að skrifa sinn vikulega pistil. Þvert á móti, og hafði Egill Helgason þetta eftir Guðmundi Andra: „Í gær skilaði ég af mér mánudagsgrein samkvæmt venju. Í blaði dagsins reyndist hins vegar vera köttur í bóli bjarnar.“ [Viðbót: Daginn eftir, þriðjudag, birtist loks pistill Guðmundar Andra. Á eftir pistlinum kom svo þessi klausa, skáletruð: „Grein Guðmundar Andra átti að birtast í blaði gærdagsins. Lesendur er beðnir velvirðingar á þessu.“ Ha!]


** Ég vek athygli lesenda á þessu með eignarhaldið á Fréttablaðinu, en í síðasta pistli skrifaði ég á svipuðum nótum um framsóknarþingmann sem þykist ekki vanhæfur um að úthluta útgerðarfyrirtæki eiginkonu sinnar kvóta.

Efnisorð: , ,