sunnudagur, janúar 25, 2015

Amast við hundrað ára afmæli kvenréttinda

Um leið og ég sá fyrirsögnina „Kvenhyggjufólk gagnrýnt fyrir söguförðun“ á Vísi, hugsaði ég jæja, Jakob Bjarnar mættur á vaktina. Og mikið rétt, það er hann sem skrifar frétt með útgangspunkt í skoðanabróður sinn í stæku feministahatri sem gagnrýnir þá ósvinnu kvenréttindakerlinga að ætla að halda upp á að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Jakob Bjarnar byrjar fréttina á þessum orðum:
„Ríki og sveit ætla að verja verulegum fjármunum til að fagna hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna til þings, en með þeirri áherslu er verið að mála yfir þá staðreynd að karlar fengu þá einnig almennan kosningarétt, óháðan öðru en aldri, um leið og konur, 19. júní 1915. Hátíðarhöldin eru í það minnsta á vafasömum forsendum“
Jakob Bjarnar leggur algerlega að jöfnu „almennan kosningarétt“ karla og þau réttindi sem konur hlutu þennan dag, og telur þetta allt mjög vafasamt. En hann lítur alveg framhjá því að ástæða þess að haldið er sérstaklega upp á kosningarétt kvenna, og að þessi dagur og þetta ártal er mikilvægt, er að fram að þessu höfðu engar konur kjörgengi eða rétt til að kjósa í alþingiskosningum, engin þeirra. Þær gátu kosið í sveitarstjórnarkosningum en ekki á þingi.

Eða eins og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir segir:
„Sögulega staðreyndin er sú að þetta er í fyrsta skipti sem konur fá að kjósa og bjóða sig fram til Alþingis, 12 þúsund konur sem fengu þennan rétt á þessum tímamótum og um það bil 11 hundruð karlar; vinnuvinnumenn sem áður höfðu ekki þennan rétt. Aðeins karlar höfðu hann. Það höfðu engar konur fengið að kjósa til Alþingis áður.“
Mun fleiri konur hefðu fengið þennan rétt ef þeim hefðu ekki verið sett aldurstakmörk. Árið 1915 einskorðaðist kosningaréttur og kjörgengi kvenna til Alþingis við konur 40 ára og eldri. Vinnumenn á sama aldri fengu þá einnig kosningarétt en frá árinu 1903 höfðu þeir einir setið eftir ásamt ólögráða mönnum og þeim sem skulduðu sveitarstyrk, en allir aðrir karlar yfir 25 ára aldri höfðu fengið kosningarétt. Semsagt, árið 1915 voru þá (nánast) allir fullveðja karlar komnir með kosningarétt en aðeins konur fertugar og yfir. Samt halda konur uppá daginn því þetta var mikill og sögulegur sigur.

Er þá ósanngjarnt að sleppa því að nefna karlana? Það hefði að sönnu oftar mátt nefna þá stéttaskiptingu sem lá að baki því að eignamenn höfðu kosningarétt en vinnumenn ekki, eða með öðrum orðum yfirráðum kapítalistanna og réttleysi öreiganna. Það hefur ekki verið auðvelt fyrir vinnumenn að komast í álnir, og öðlast þannig ýmis réttindi svo sem kosningarétt, en þó gerlegra en fyrir konur sem á þessum tíma áttu ekki hægt með að skipta um kyn og áttu þess engan kost að breyta stöðu sinni.

Barátta verkafólks fyrir bættum kjörum var vart byrjuð á þeim tíma sem kosningaréttur var skammtaður úr hnefa, og engum sögum fer af opinberri baráttu vinnumanna hér á landi fyrir kosningarétti, en kosningaréttur kvenna kom í kjölfar baráttu fyrir kvenréttindum sem hafði staðið í áratugi og var hatrömm á síðustu metrunum (eins og lesa má um í Hinn sanni Íslendingur: þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900-1930, s. 175-241). Þetta var því sigur kvenréttindabaráttunnar sem vert er að halda uppá.

En það eru auðvitað ekkert allir sáttir við kvenréttindi og kvenréttindakonur. Eins og áður segir semur Jakob Bjarnar fréttina uppúr grein sem Einar Steingrímsson skrifaði í vefmiðilinn Kvennablaðið 22. janúar undir titlinum „Hvenær fengu karlar kosningarétt?

Grein Einars gengur útá að það hafi verið þaggað niður hvenær karlar hafi fengið kosningarétt og að feministafrenjur hafi ekki bara stolið afmælinu þeirra heldur og falsað söguna.

En það er nú bar þannig að þegar haldið er upp á einhverja atburði úr mannkynssögunni er yfirleitt miðað við þann dag eða ár sem fyrsta eða stærsta skrefið var tekið. Við munum ártalið 1262 því við lærðum að þá var skrifað undir Gamla sáttmála, en þó skrifuðu Austfirðingar ekki undir hann fyrr en tveimur árum síðar. Það er samt engin sögufölsun að miða við ártalið 1262, hvað þá að vísvitandi sé verið að þagga niður að þá skrifuðu ekki fulltrúar allra landshluta undir. Það er því alger óþarfi af andfeminískum karlmönnum að móðgast yfir því að ekki sé haldið uppá að árið 1915 hafi fleiri karlar en áður fengið að kjósa í Alþingiskosningum, vinnumennirnir voru þeir einu sem eftir voru. Stóra fréttin það ár var hinsvegar sú að konur fengu nú í fyrsta sinn kosningarétt og kjörgengi til Alþingis en engin kona hafði fram að því fengið að kjósa í Alþingiskosningum.

Vilji karlar halda uppá að þeir fengu í fyrsta sinn að kjósa í lýðræðislegum kosningum þá geta þeir miðað við 1843 en þá fengu aðeins efnamiklir karlmenn kosningarétt og kjörgengi. Þeir geta líka miðað við árið 1903 þegar fleiri karlmenn fengu kosningarétt, eða jú árið 1915 þegar vinnumenn yfir fertugu bættust í hópinn. Þá er eftir að telja upp hvenær aldursmörkin lækkuðu fyrir vinnumenn úr 40 niður í 25 (sem var árið 1920), en þá verða þeir að sætta sig við að þann áfanga eiga þeir sameiginlegan með konum, sem máttu frá 1915-1920 ekki kjósa í þingkosningum nema fertugar væru, hvernig sem aðstæðum þeirra var annars háttað. Eftir 1920 hafa konur og karlar notið sama réttar við kosningar til alþingis.

Andfeministar renna einsog krókódílar á blóðlykt þegar kvennabarátta á í hlut og núna reyna þeir að grafa undan hundraðárafmælishaldinu. Hafa þeir þó hingað til almennt samþykkt að réttlátt hafi verið að konur fengju kosningarétt, en nánast öll barátta feminista síðan hafi verið tómt píp og væl yfir engu.

Þessi barátta andfeministanna fer ekki bara fram á Vísi undir stjórn Jakobs Bjarnar heldur á ólíklegum vettvangi: vefmiðli sem ber nafn málgagns Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Hafi einhver haldið að sá vettvangur væri þar með málgagn feminista þá er endanlega búið að slátra þeirri hugmynd. Ekki nóg með að kvenhatursforinginn Einar Steingrímsson vaði þar uppi — eins og eiturpillan spúsa hans — samanber þessa kveingrein hans um hátíðarhöld í tilefni 100 ára kosningaréttar kvenna, heldur hefur nú Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir ritstjóri bætt gráu ofan á svart. Henni þykir við hæfi að gefa til kynna að uppástunga Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um tilhögun hátíðarhaldanna komi til vegna þess að borgarstjórinn sé í pilsvasa kvenna, eða með öðrum orðum: læturðu kéllingar ráða yfir þér auminginn þinn?

Hafi ritstjórinn ætlað að gera Bríeti Bjarnhéðinsdóttur langömmu sinni skömm til, þá tekst henni það fullkomlega með þessu. Það segir svo sitt um lesendahóp Kvennablaðsins hins nýja að ofangreindir pistlar njóta almennrar hylli í athugasemdakerfinu.

Efnisorð: , , , ,