mánudagur, október 20, 2014

Reglugerð um velferð hrossa

Það er ánægjulegt að út er komin ný reglugerð um velferð hrossa. Þar er tekið á umdeildum málum eins og notkun tunguméla og andstyggilegri tamningaraðferð þar sem einn fótur hestsins er bundinn upp og hesturinn þreyttur þar til hann beygir sig undir vald manneskjunnar sem pínir hann.

Mér finnst fróðlegt að lesa reglugerðina, bæði vegna þess að þar er nákvæmlega útskýrt hvernig búa á að hestum hvort sem þeir eru á húsi, í gerði, á hestasýningu eða reiðkeppni. Það er meira segja tekið mið af félagslyndi hesta. Ég er afar ánægð með að sérstaklega tekið fram að hávaði skuli takmarkaður en ég hef undrað mig á dúndrandi tónlist þegar sýnt er fra hestasýningum. Öllu verra er að sjá upptalningu á því sem greinilega hefur þekkst sem ill meðferð á hestum. En reglugerðin á að koma í veg fyrir það, eða að hægt sé að refsa fyrir slíkt. Eflaust eru refsingarnar of vægar en það er önnur umræða. Best er þó að reglugerðin tekur gildi nú þegar í stað þess að gefa aðdáendum tunguméla og öðrum dýraníðingum kost á aðlögunartíma sem myndi bitna á hrossunum.

Valin og mikið stytt sýnishorn úr reglugerðinni fara hér á eftir, styttingar eru stundum en ekki alltaf einkenndar með punktalínu.

Úr kafla um meðferð og umsjá

6. grein. Hreyfing og félagslegt atferli.
Húsvist og annað hrossahald skal taka mið af félagslegum og líkamlegum þörfum hrossa. Innréttingar hesthúsa skulu tryggja hrossum næði til að hvílast og nærast án stöðugs áreitis og/eða yfirgangs frá öðrum hrossum. Óheimilt er að hafa hross ein á húsi eða í beitarhólfum. Undanþegnar eru skammtímaráðstafanir, styttri en fimm dagar og tímabundin útiganga stóðhesta, allt að einn mánuður.

7. grein. Meðferð.
Bannað er að beita hross harðýðgi eða annarri illri meðferð. [Í skilgreiningarkafla kemur fram að harðýðgi sé: Gróf valdbeiting, svo sem barsmíðar, þrengja að blóðrás til heila (hengja), snúa hross niður á eyrum, uppgefa hross til dæmis með bindingum eða gefa þeim rafstuð.]

8. grein. Notkun
Knapi ber fulla ábyrgð á hrossum sem hann notar til reiðar eða annarrar vinnu. Eingöngu skal nota heilbrigð hross til reiðar, burðar eða dráttar. Álag á hross má aldrei vera meira en þrek þeirra og annað líkamlegt ástand leyfir. Koma skal í veg fyrir að hross ofkælist eftir notkun. Þess skal gætt að reiðtygi passi vel og notkun þeirra valdi ekki sárum eða öðrum skaða. Umráðamanni hestaleigu og reiðskóla ber að skrá tíðni og tímalengd notkunar á hverju hrossi. Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum samkvæmt reglugerð þessari hvenær sem þurfa þykir.

9. grein. Tamning, þjálfun, keppni og sýningar.
Ekki má nota búnað eða aðferðir við tamningu, þjálfun, keppni eða sýningar sem valda hrossum skaða eða óþarfa ótta. Óheimilt er að þvinga hross í höfuðburð með búnaði sem gefur ekki eftir eða að uppgefa hross með bindingum eða öðrum þvingunum. Notkun á mélum með tunguboga og vogarafli er bönnuð á stórmótum, hvers kyns keppnum og sýningum [í skilgreiningarkafla er sagt um mél með tunguboga og vogarafli: Öll mél með stöngum og/eða keðju þar sem munnstykkið er þannig gert að hæðarmunur frá neðri kanti á endastykki upp í neðri kant á efsta hluta (miðhluta) er meiri en 0,5 sentimetrar].
Mótshaldari ber ábyrgð á að hljóðstyrkur tónlistar á keppnis- eða sýningarsvæði hrossa fari ekki yfir mörk sem sett eru í c-lið II. viðauka. [Þar segir að hjóðstyrkur skal að jafnaði ekki fara yfir 60 desíbel í hesthúsum og 90 desíbel á hestasýningum.]

10. grein. Fóðrun, beit og brynning.
Hross skulu alla jafna ekki vera grennri en sem nemur reiðhestsholdum (holdastig 3). Að öðrum kosti skulu þau njóta hvíldar og/eða sérstakrar umsjár, fóðrun skal tafarlaust bætt og aðgangur að góðu skjóli tryggður. Holdastig undir 2 telst til illrar meðferðar ... Við mat á holdafari hrossa skal farið eftir viðauka III, um holdastigun.
[Holdastig 3 er skv. skilgreiningu viðaukans svona: Tvö til fjögur öftustu rifbein finnast greinilega við þreifingu en sjást ekki. Yfir þeim er þunnt og laust fitulag (u.þ.b. 1 sentimetri). Lendin er ávöl og hæfilega fyllt. Bakið fyllt og jafnt hryggsúlu. Hárafar slétt og jafnt. Holdastig 2 kallast „verulega aflagður“ og er lýst svona: Flest rifbein finnast greinilega, og þau öftustu sjást. Örlítil fita undir húð yfir fremri rifbeinum. Vöðvar teknir að rýrna, tekið úr makka og lend, hálsinn þunnur. Hryggsúla og herðar sjást vel. Hárafar matt og hrossið vansælt. Holdafar 1,5 er „horaður“, nánari lýsing ekki rakin hér, en þá er mikil hætta að hrossið nái sér ekki að fullu. Holdafar 1 er „grindhoraður“ en þá er heilsutjón varanlegt og heimilt er að aflífa hross í þessu ásigkomulagi.]

11. grein er um heilbrigði og forvarnir. 12. grein umm eigið eftirlit [þar er átt við eftirlit umráðamanns með hrossum í húsi, meðan á þjálfun stendur o.s.frv.]. 13. grein um aðgerðir [tannaðgerðir, geldingar, eyrnamerkingar]. 14. grein er um aflífun.

Næstur er kafli um aðbúnað, en aðbúnaður er samkvæmt skilgreiningarkaflanum: Húsakostur, hrossaskjól, gerði og girðingar.

15. grein. Hesthús.
... Á hesthúsum skulu vera gluggar sem tryggja að öll hross í húsinu njóti dagsbirtu ...
Óheimilt er að hafa hross í stöðugum hávaða og skal hljóðstyrkur í hesthúsi vera innan þeirra marka sem um getur í c-lið viðauka II við reglugerð þessa. [Þar segir að hjóðstyrkur skal að jafnaði ekki fara yfir 60 desíbel í hesthúsum.]

16. grein. Slysavarnir [og eldvarnir í hesthúsum, einnig um girðingar].

17. grein. Gerði.
Undirlag í gerðum skal vera þannig að hross vilji og geti velt sér. [Hér er mikið fellt úr]

18. grein. Útigangur.
... Hross sem ganga úti skulu geta leitað skjóls fyrir veðri og vindum ... Skjólveggir skulu byggðir þannig að þeir valdi ekki slysahættu né hræðslu hjá hrossum. [Bárujárnsgirðing sem hriktir í þegar hvessir er semsagt ekki heppilegt efni í skjólvegg.]

19. grein er um smitvarnir.

Fimmti og síðasti kafli er um refsiákvæði og gildistöku.
20. grein. Viðurlög.
Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Meðferð mála út af brotum á reglugerðinni fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

21. grein. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 55/2013 um velferð dýra og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Vonandi vantar engin mikilvæg atriði í þessa reglugerð, en það sem ég les úr henni er allgott. Megi hún vera hrossum þessa lands til hagsbóta.

Efnisorð: