sunnudagur, október 19, 2014

Óverjandi en hann ver það samt

Mér urðu á þau mistök um daginn að hrósa grein eftir Pírata. Lyklaborðið var varla kólnað þegar Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata hóf upp raust sína til að mótmæla — í nafni tjáningarfrelsisins — að vefsíðu þokkapilta Íslamska ríkisins var lokað. Hann vill að Íslendingar og heimurinn allur geti skoðað síðuna til að kynna sér málstað Íslamska ríkisins.
„þetta snýst ekki um frelsi þeirra til að tjá sig heldur frelsi þitt og mitt til að vera upplýst um samtökin.“
Segir Helgi Hrafn í athugasemd við frétt um málið.

Ég hef einsog ég hef áður rakið, allt aðrar hugmyndir um tjáningarfrelsi. Í mínum huga er það frelsi til að andæfa yfirvaldinu. Hver sem er ætti að mega gagnrýna þjóðhöfðingja, ríkisstjórn og embættismenn án þess að vera refsað fyrir. En flestir — þar á meðal Píratar —virðast þó skilja það svo að þetta frelsi sé frelsi allra til að segja allt um alla, hversu niðrandi sem það er og að auki birta opinberlega allan andskotann hversu viðurstyggilegur hann er og hvaða afleiðingar það hefur fyrir einstaklinga og þjóðfélagshópa, þar með talið áróður þeirra sem stunda mannrán, manndráp, afhausanir, kynlífsþrælahald og stefna að yfirráðum.

Síðar í sama athugasemdaþræði við fréttina um lokun vefsíðu Íslamska ríkisins kemur Helgi Hrafn með margþvælda klisju, þessa um einstaklingsábyrgðina.
„Enginn hefur verið neyddur til að skoða þessa síðu og ef þú vilt ekki skoða hana, einfaldlega ekki skoða hana. Ef þú vilt ekki að börnin þín skoði hana, blokkaðu hana á netinu þínu (það eru leiðbeiningar til þess hjá öllum helstu internet-fyrirtækjum).“
Áherslan er á að „þú“ bregðist við sem einstaklingur ef þú hefur eitthvað á móti einhverju. Hugtakið samfélag tekið út úr myndinni, samfélag má ekki bregðast við. Ef einhverjir einstaklingar hafa ekki rænu á að stoppa börnin sín eða uppfræða þau, þá skiptir engu máli hvað verður um þau börn, þeim er bara nær að eiga svona lélega foreldra. Fjöldi ungra karlmanna hefur lagt land undir fót til að berjast með Íslamska ríkinu. Kannski eiga þeir allir lélega foreldra, en kannski hafa þeir heillast af áróðri vígamannanna. Það er áróðurinn sem var verið að reyna að skrúfa niður í. Auðvitað spratt síðan upp aftur en það var samt einstaklega sérkennilegt af þingmanni Pírata að sýna „aðferð til þess að komast inn á lokaða vefsíðu Ríkis íslams“.

Efnisorð: , , ,