föstudagur, febrúar 07, 2014

Notkunarmöguleikar barna

Degi leikskólans var fagnað í gær eins og sýnt var í fréttatíma Sjónvarpins. Þar var fjöldi leikskólabarna samankominn og talað var við nokkur þeirra. Allt voða krúttlegt. Minna krúttlegt var að sjá þau flest í endurskinsvestum, þessum sem þau eru í þegar þau fara á bæjarrölt. Ekki misskilja mig, mér finnst endurskinsvesti frábær hugmynd, og í raun ættu allir, konur og krakkar og kallar með skalla að vera í svoleiðis vestum um hávetur. En það er bara með endurskinsvestin sem blessuð börnin eru sett í, að alloft eru þau merkt einhverjum fyrirtækjum. Nafn leikskólans er þá oft öðrumegin á vestinu en fyrirtækisins hinumegin, eða vestið er merkt fyrirtækinu í bak og fyrir svo að börnin eru í raun gangandi auglýsing fyrir fyrirtækið. Ég hef séð ótal dæmi um þetta gegnum árin og man ekki betur en nöfn banka hafi þannig verið borin á baki saklausra barna, líklega hafa þau vesti verið tekin úr umferð eftir bankahrunið.


Undanfarið hef ég oftast séð nöfn og merki tryggingafélaga á vestunum, eins og sást vel í sjónvarpsfréttinni (neðsta skjáskotið er úr henni). Á síðum leikskóla er glaðlega sagt frá því að tryggingafélög gefi merkt endurskinsvesti. Slíkar gjafir einskorðast þó ekki við tryggingafélög.

Börn í fyrsta bekk grunnskóla hafa líka fengið vesti að gjöf frá Landsbjörgu, og auðvitað gott mál að slysavarnarfélag gefi vesti. En í sömu frétt er talið upp hvaða fyrirtæki „koma að verkefninu og styrkja það“, og þá fer mig að langa til að sjá þessi vesti og hverjum þau eru merkt. Fengu kannski öll fyrirtækin pláss á hverju barni, eða ákveðinn fjöldi vesta merkt hverju fyrirtæki svo þau fengju öll að vera memm? Það er ljótt að skilja útundan, svo mikið vita börnin sem eiga að nota vestin.

Ég undrast hugsun leikskólastjóranna og sveitarfélaganna sem samþykkja þessar auglýsingaherferðir þar sem ósjálfráða börn eru látin taka þátt í. Enn meira er ég hissa á foreldrum að láta þetta viðgangast. Finnst fólki í alvöru í lagi að börn séu notuð sem gangandi auglýsingaskilti fyrir stórfyrirtæki? (Og þó það væri smáfyrirtæki, eða örfyrirtæki.)

Mér fannst líklegt að einhverstaðar hefði einhver gagnrýnt auglýsingarnar á endurskinsvestunum, en eina umræðan og þá um leið gagnrýnin sem ég fann var á Bland.is (áður Barnaland) og svo fann ég eina athugasemd á facebook síðu lögreglunnar, þar sem spurt var: „hvar fást endurskinsmerki? bara þokkalega venjuleg hangandi í snúru? eða til að krækja í rennilása. helst ekki merkt banka eða tryggingarfélagi.“ Svo mörg voru þau orð. En á Bland varð heilmikil umræða í ágúst 2011 og skiptist auðvitað í tvö horn (ég taldi ekki með og á móti innlegg og fylgist ekki með hver sagði hvað). Upphafsinnleggið hljóðaði svona:

„Hvað finnst ykkur um að t.d. bankar og símafyrirtæki gefi leikskólum endurskinsvesti og að börnin ykkar séu merkt þessum fyrirtækjum þegar þau fara í fjöruferð eða húsdýragarðinn með leikskólanum. Mér finnst þetta siðlaust og ég vil að það verði tekið fyrir þetta.“
Svo hófst umræðan. Hér eru örfá dæmi.

„mér finnst allt í lagi að fyrirtæki úti í bæ vilji gera eitthvað fyrir leikskólabörn. mér finnst ekki í lagi að útsetja þau fyrir að vera gangandi auglýsingar í staðinn.“

Öðrum fannst mestu máli skipta að börnin væru í endurskinsvesti eða báru jafnvel í bætifláka fyrir auglýsingarnar sem væru í raun engar auglýsingar.

„Ég vil frekar að barnið mitt sé í merktu endurskinsvesti en engu endurskinsvesti...“

„Það eru bara mjög fáir sem sjá þetta sem einhverja auglýsingu. Það er svosem hægt að lesa eitthvað svona út úr nánast öllu, búa til samsæriskenningar úr öllu. Þetta er bara eitthvað sem er ekki þess virði að spá einu sinni í. Ég er bara fegin að þau fái þetta og þetta sé notað, finnst þetta oft bara krúttlegt hjá þessum fyrirtækjum (útlitin á merkjunum og það).. Ég allavegna sé þetta engann veginn sem einhverja auglýsingaherferð hjá bönkunum“.

„Það má vel vera að ég sé stórundarlegt eintak af manneskju að vera en mér gæti ekki verið meira sama hvort það standi landsbankinn eða síminn á vestinu hjá syni mínum, svo lengi sem hann er með enduskinsmerki.... fólk getur örugglega fengið að kaupa sitt eigið vesti fyrir barnið sitt og brýnt fyrir leikskólakennurunum að þetta sé eina vestið sem barnið megi ganga í:S .... Mér finnst líka annsi margt vera flokkað undir siðleysi í dag sem ég get með engu móti séð neitt siðlaust við.“

Mig grunar að ofangreindar athugasemdir endurspegli viðhorf margra, ef þá fólk nennir yfirleitt að hugsa útí þetta. En miðað við næsta innlegg er til fólk sem er á móti því að börn séu notuð sem auglýsingaskilti — og gerir eitthvað í því.

„Í mínum leikskóla fjármagnaði foreldrafélagið kaup á svona vestum sem báru eingöngu merki leikskólans þar sem leikskólastjórinn (og væntanlega hluti foreldra) var á móti því að börnin væru merkt fyrirtækjum utan úr bæ.“

Í Blandumræðunni var bent á leiðbeinandi reglur um neytendavernd grunn- og leikskólabarna (sjá einnig hér).
„Engar auglýsingar skulu vera í grunnskólum eða leikskólum né önnur markaðssókn. Kynning á æskulýðs-, íþrótta- og tómstundastarfsemi sveitarfélaga er þó heimil. Þá er kostun á starfi innan skólans heimil með samþykki skólastjóra með hliðsjón af stefnu sveitarfélags og foreldrafélags ef það stendur fyrir viðburði á vettvangi skólans. Skólabörn í hefðbundnu skólastarfi skulu þó ekki merkt kostunaraðila með áberandi hætti. Skilyrði er að merki kostunaraðila sé ekki sýnt sérstaklega eða auglýst á staðnum. Kostun á námsefni er einungis heimil eftir því sem reglur sveitarfélags kveða á um.“

Það væri ágætt ef stjórnendur og foreldrafélög leikskóla og grunnskóla kynntu sér þessar leiðbeinandi reglur, og færu helst eftir þeim. Því það er sorglegt að þegar birtar eru fréttir af samkomum leikskólabarna, þar sem þau eru jafnvel að berjast fyrir bættu samfélagi, t.a.m. með því að ganga gegn einelti, þá sé það fagnaðarefni hjá markaðsdeildum fyrirtækja sem sjá ódýru auglýsingaherferðina sína blasa við á fjölda lítilla barna.





Efnisorð: , ,