sunnudagur, janúar 26, 2014

Óskiljanlegt að fólk hafi kosið þetta yfir sig

Það líður varla sá dagur að ríkisstjórnin, ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna hafi ekki gert sig að fíflum eða hagað sér þannig að mann langar að garga. Stuðningsmönnum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hlýtur að snarfækka, það er eini kosturinn við þessi ósköp.

En stuðningsmenn Sjálfstæðismanna er víða að finna. Sumir staðir eru eyrnamerktir flokknum, s.s. Garðabær og Seltjarnarnes. Árið byrjaði á því að Brynjar Níelsson af öllum mönnum var fenginn til að flytja hugvekju í Seltjarnarneskirkju. Brynjar er hann svarinn andstæðingur feminista og heldur jafnan á lofti málstað nauðgara, vændiskúnna og annarra misindismanna. Af hvaða hvötum var hann fenginn til að flytja kirkjugestum boðskap sinn? Hverjum finnst skoðanir nauðgaraverjandans svona eftirsóknarverðar að þær eigi erindi í ríkiskirkju á nýársdag? Sá ætti að skammast sín.

Aðrir þingmenn hafa líka komið fram, þó ekki endilega í kirkju heldur sjónvarpi, og logið þangað til að Sigmundur Davíð fór að líta út eins og sannindamaður í samanburði. Fyrir þingkosningar var talað um Frosta Sigurjónsson sem sérlega ábyggilegan mann. Nú þarf að vera innmúraður í MP banka eða fjölskyldu Sigmundar Davíðs (eða bæði) til að finnast Frosti merkilegur pappír. Áhugaevert annars að lesa þetta um fyrirtæki sem Frosti stofnaði og var stjórnarformaður fyrir: „Hjá DataMarket trúum við því að gagnsæi og heiðarleiki séu lykilatriði í því að skapa traust í viðskiptalífi og stjórnmálum.“

Annar náungi sem fólk hélt að væri skikkanlegur er forstjóri Landsvirkjunar. Með nýrri ríkisstjórn opnaðist möguleiki á að virkja meira og nú er lagt til atlögu við Þjórsárver með því að sneiða úr friðlandinu (eða það sem átti að vera friðland) en stækka það í staðinn í allar aðrar áttir — sem væri ágætt ef það væri ekki bara yfirvarp virkjanaáformum í hag. Landsvirkjunarforstjórinn á sér dyggan stuðningsmann og klappstýru í gervi Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfis- og auðlindaráðherra (lesist: vinnur-gegn-umhverfinu-ráðherrann) sem stefnir nú ótrauður á að svína á rammaáætlun. Gagnrýni vísindamanna afgreiddi ráðherrann með því að þeir tækju pólitíska afstöðu í málinu og væru því ómarktækir sem fagmenn, en vísindamennirnir höfðu birt leiðréttingar við rangar fullyrðingar ráðherrans um breytingar á mörkum fyrirhugaðs friðlands Þjórsárvera, eins og þeim ber að gera. En það virðist fara framhjá honum, sem Ingimar Karl benti á, að „Umhverfisráðuneytið er ekki deild í iðnaðarráðuneyti eða skúffa hjá Landsvirkjun.“

Þó smærra mál sé, þá er það ágætt dæmi um hroka Sigurðar Inga að hann samþykkti, nú í gervi sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra (svo var verið að gagnrýna Steingrím Joð fyrir fjölda ráðherraembætta), að hvalmjöl væri notað í bjór, að því er virðist bara til að reka fingurinn framan í fólk sem er á móti hvalveiðum, því heilbrigðiseftirlitið var búið að hafna því að hvalmjöl mætti nota til manneldis (spurning í hvað það er notað, hundafóður eins og í Japan?) og þeir sem brugga ölið vilja meina að bragðið sé nánast ógreinanlegt. En Sigurði Inga þykir auðvitað mikilvægt að halda málstað hvalveiðisinna á lofti.

Svo er það Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra, sem er svo upptekin af því að vera ekki súkkulaðikleina að hún blés til fundar um hina stórhættulegu kynjakvóta sem voru settir á með lögum fyrir þremur árum en aðalfundir fyrirtækja höfðu allt þar til í haust tækifæri til að kjósa konur í stjórn. Á þeim þremur árum hafði rétt rúmlega helmingi fyrirtækja tekist þetta óhemjuerfiða verkefni, en með svo góðum árangri að tillaga Ragnheiðar Elínar um að afnema kynjakvótann hlaut engan hljómgrunn. Andfeministum hefur líklega liðið eins og æstum aðdáendum íslensku karlalandsliðana í fótbolta og handbolta, sem sáu framá heimsmeistaratitil og evrópumeistaratitil en allt fór úrskeiðis því við ofurefli var að etja. Kvenréttindi 1 - andfeminismi 0.

Hanna Birna Kristjándóttir slær svo öll met, lekur upplýsingum um hælisleitendur (hvort sem þær eru sannar eða lognar, það er ófært að innanríkisráðuneyti leki þeim í fjölmiðla) og lætur gefa út ákærur á níu manneskjur (af fjörtíu) sem reyndu með friðsömum hætti að koma í veg fyrir eyðileggingu Gálgahrauns. Athygli vekur að Ómar Ragnarsson er ekki ákærður, það er líklega vegna þess að hann er of frægur og fjölmiðlaathyglin yrði of mikil. En Jónas hefur á réttu að standa, þetta er tuddaskapur í Hönnu Birnu og ekkert annað. Og svei mér þá ef það er ekki réttmæt ábending hans um að hún hafi forðað Rituhólahyskinu frá því að vera kært fyrir skógarhöggið. Þar var að verki fínt einbýlishúsafólk sem var að vernda útsýnið úr eigin stofuglugga — slíkt hefur áhrif á fasteignaverð. Það má auðvitað fella tré í þeim tilgangi, rétt eins og það má leggja veg yfir hraun ef það svarar hagnaði.

Þetta er meira ömurlega hyskið, alltsaman.

Efnisorð: , , , , ,