mánudagur, apríl 15, 2013

Stefnur og skuldir

Nú stíga píratar fram og segjast vera jafnréttissinnar, það orð hefur mikið verið notað undanfarið af andfeministum sem segjast aðhyllast jafnrétti en hafna feminisma með öllu. Í því jafnrétti felst jafnrétti karla til að kaupa sér konu til kynlífsathafna, jafnrétti karla til að glápa á konur í klámi og jafnrétti karla til að hata feminista. Þá er ótalið mikið baráttumál sem er jafnrétti karla til að sitja í jafnréttisnefnd, sem hefur kynjahalla í þá áttina sem gerir karla brjálaða, ein allra nefnda.

Píratar segja að „kallað [hafi verið] eftir víðtækari stefnu í jafnréttismálum og umhverfismálum“ og hyggjast bregðast við því. Í fyrsta lagi var ekki kallað eftir stefnu, heldur bent á að flokkurinn hefur enga stefnu. Í öðru lagi er svolítið seint í rassinn gripið, því utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst fyrir rúmum mánuði. Fram til þessa hafa kjósendur því ekki getað tekið afstöðu til þessarar fínu (enn óséðu) stefnu. Og nú er spurt: hvað um kjósendur sem hafa þegar kosið utan kjörfundar? Þeir hafa ekki getað tekið afstöðu með eða á móti stefnu sem var ekki þá (og er ekki enn) til. Verður hún yfirleitt tilbúin fyrir kosningar? (Og verður tekið fram í jafnréttisstefnunni að karlar með sjálfsvirðingu þurfi ekki að þurrka af, það sé kvennaverk því að konur fá svo mikið útúr húsverkum?) Önnur spurning sem vaknar er sú hvort þeir andfeministar sem aðhyllst hafa Pírata verði ekki svekktir þegar alltíeinu á að fara að dúkka upp með eitthvað jafnréttisplagg?

Ekki veit ég frekar en aðrir hvort Píratar komast á þing, hverjir þeirra eða hvort þeir sitja eitt eða fleiri kjörtímabil. En má búast við að þeir afneiti öllu því sem þeir segja núna eftir nokkur ár, þegar þeir hafa breyst og þroskast ennþá meira? Eða verður áfram sama hentistefnan, bakkað með stór orð bara til að friða kjósendur?

En ég ætlaði reyndar ekki að skrifa meir um Pírata (bendi þó á snaggaralega úttekt Þórunnar Hrefnu á þeim), heldur halda áfram að skoða framboð. Í kjölfarið á ummælum Ásgerðar Jónu Flosadóttur um Amnesty verður Flokkur heimilanna fyrir valinu, já og nokkrir aðrir flokkar með svipaða stefnu (þá á ég ekki við um skoðanir á innflytjendum, þróunarhjálp eða mannréttindasamtökum; þar er ÁJF vonandi ein á báti). Það er víst best að játa strax, í nafni upplýstrar umræðu, að öll umfjöllun um Ásgerði Jónu og flokk hennar er samsæri úr herbúðum VG. Þessvegna bendi ég á ágæta úttekt Gísla Ásgeirssonar á starfsferli Ásgerðar Jónu, því mér var sagt að gera það á herráðsfundinum sem Álfheiður Ingadóttir stjórnaði.

Alveg frá því að Pétur Gunnlaugsson, efsti maður á lista Flokks heimilanna í suðvesturkjördæmi, hellti sér yfir Kristínu Ástgeirsdóttur á blaðamannafundi sem haldinn var þegar rannsóknarskýrsla alþingis var kynnt, hef ég haft skömm á honum. Maðurinn er fífl. Ég hef aldrei haft geð í mér að hlusta á Útvarp Sögu en mér skilst að álit mitt á manninum yxi ekki við hlustun. Með fólk sem þetta innanborðs á flokkurinn auðvitað aldrei séns á atkvæði mínu. En þó skárri frambjóðendur væru í öllum sætum þá líkar mér ekki yfirhöfuð við þá flokka sem berjast eingöngu fyrir skuldaniðurfellingu heimilanna.

Mér líst ekki á einsmálsflokka yfirleitt (eins og lesa mátti í þarsíðustu bloggfærslu minni), en heimtufrekja fólks sem reisti sér hurðarás um öxl og ætlast til að aðrir borgi skuldir þess nær ekki hljómgrunni á mínu heimili (sem er alveg hæfilega skuldsett). Án þess að ég hafi skoðað alla frambjóðendur allra skuldaraflokkanna þá sýnist mér þeir (og stuðningsmenn þeirra) yfirleitt búa í raðhúsum og einbýlishúsum, og ég bara get ekki vorkennt fólki fyrir að kaupa slíkt húsnæði, og þaraðauki allt á lánum. Það er þeirra skuldavandi, en ekki allra heimila. Að leigjendur og fólk sem skuldar lítið eða ekkert í húsnæði sínu, eigi með einhverjum hætti að létta undir skuldabyrði þessa fólks, það get ég ekki samþykkt.

Þannig að nei, ekkert þessara framboða — Flokkur heimilanna, Sturla Jónsson, Dögun — fær atkvæði mitt.

Efnisorð: , , , ,