föstudagur, apríl 26, 2013

Landspítali, fyrir og eftir

Ekki alls fyrir löngu upplýsti Hulda Gunnlaugsdóttir fv. forstjóri Landspítalans (sem nú er farið að kalla LSH, eins og það sé einhver framför) að á tímabili eftir bankahrunið haustið 2008 hafi spítalinn farið í greiðsluþrot, hvorki hafi verið til peningar fyrir launum starfsfólks né lyfjum.

En hvað gerðist eftir að þessar fréttir komu fram, að Landspítalinn hafi verið nánast óstarfhæfur eftir bankahrunið? Ekkert, bara ekki neitt. Það er eins og enginn hafi áttað sig á hvað gerðist, eða bara ekki hlustað. Ekkert hefur dregið úr háværum kvörtunum — almennings jafnt sem stjórnmálamanna í stjórnarandstöðu. Æpt er að heilbrigðiskerfið sé fjársvelt og vonda vonda ríkisstjórnin eigi að skammast sín — enginn virðist hafa séð heildarmynd þess sem gerðist á undan hruni, við hrun og eftir hrun.

Sjálfstæðisflokkurinn, með dyggri aðstoð Framsóknar hafði fjársvelt Landspítalann rétt eins og allt heilbrigðiskerfið árum saman. Þessu hefur verið lýst á þann veg að
„fjarað hefði undan kerfinu frá 1995, en það hefði vaxið að gæðum fram að því. En steininn hafi tekið úr árið 2003 „þegar Alþingi, af sinni vel þekktu visku ákvað, þegar fjáraukalög voru afgreidd, að fylla ekki um eins milljarðs gat í heimildum til Landspítalans. Síðan var farið út í að skera niður á Landspítalanum og svo framvegis. Í næstum tuttugu ár höfum við ekkert gert til að bæta tækjabúnað Landspítalans.“
Þetta var liður í einkavæðingarferlinu; eftir því sem almenningur fengi minni þjónustu frá hinu ríkisrekna kerfi yrði það hlynntara einkarekstri. Deildum var lokað á sumrin, fólk lá á göngum spítala, ný tæki voru ekki keypt.

Sú ríkisstjórn sem er að ljúka störfum þessa dagana þurfti að draga úr öllum ríkisútgjöldum vegna skuldastöðu ríkissjóðs (les: fall Seðlabankans undir stjórn Davíðs Oddssonar). Þarafleiðandi þurfti að draga úr heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og beina henni til Landspítalans. Í ofanálag fékk spítalinn sannarlega ekki allt það fjármagn sem hann þurfti en hlutfallslega þó mun meira en fyrir hrun. Þannig virka velferðarstjórnir í kreppu: veita meiri peninga hlutfallslega en áður, en hafa of litlum peningum úr að spila til að ná að gera stöðuna frábæra, enda of mikið gengið á áður.

En þó að tækin séu gömul og léleg og álag á starfsfólk gríðarlegt (niðurskurðurinn bitnar mest á starfsfólki) þá er Landspítalinn ennþá í Fossvogi og við Hringbraut og í fullum rekstri. Það er enn verið að bjarga mannslífum, börn eru enn að fæðast og fólk fær enn frábæra hjúkrun og lyf sem lina þjáningar og auka lífsgæði. Spítalinn, fjársveltur sem hann hefur verið árum saman (frá því á tímum góðæris) er enn í dag góður spítali og heilbrigðiskerfi okkar er enn með því besta sem gerist meðal þjóða.

Enginn þakkar ríkistjórnnni fyrir að taka gjaldþrota Landspítala og reka hann án þess að hiksta yrði vart en spítalinn er augljóslega fölur á vangann og yfir því er kvartað linnulaust. Þó berast af og til sögur af því að fólk fái hreint ágæta þjónustu, sbr. ágætan pistil Ármanns Jakobssonar. Skömmu eftir hans reynslu af heilbrigðiskerfinu þurfti ég að leita á náðir heilsugæslustöðvarinnar í hverfinu mínu. Fyrst hringdi ég og talaði við hjúkrunafræðing, við ræddum ástand og horfur og hún gaf sér góðan tíma að heyra lýsingar mínar á því sem hrjáði mig. Ákveðið var líta á bágtið síðdegis sama dag. Þá skoðaði annar hjúkrunarfræðingur mig í krók og kring og fékk lækni til að gera hið sama. Í þetta var tekinn drjúgur tími og viðmót þeirra var hið jákvæðasta. Fyrir þetta greiddi ég heilar 1000 krónur. Það er því ekki ofsagt að tekist hafi að halda hækkunum á komugjöldum í lágmarki (frítt fyrir börn), á sama tíma hefur bíómiðinn hækkað uppí 1300 kall.

Nú hefur rofað svo til í ríkisfjármálum, að enginn niðurskurður verður í heilbrigðisþjónustunni á þessu ári (þeim sársaukafulla tíma er semsagt lokið) og nær milljarður fer í tækjakaup á Landspítala. Tækjakaup sem góðærisstjórn frjálshyggjunnar dró við sig með þekktum afleiðingum.

Ég sagði að enginn þakkaði ríkisstjórninni. Það er rangt. Ég er þessari ríkisstjórn þakklát fyrir frammistöðuna, og þó að alltaf megi benda á einhver atriði sem ég og fleiri hefðum viljað sjá fara öðruvísi, veit ég að enginn hefði getað betur.

Ég er auðvitað sérstaklega ánægð með framfarir í kvenfrelsismálum. Í dag var fyrsti kvenforsætisráðherrann okkar kvödd með rauðum rósum eftir langan og farsælan feril. Við Jóhönnu Sigurðardóttur og ríkisstjórn hennar segi ég: takk, þið stóðuð ykkur vel!

Efnisorð: , , , ,