laugardagur, júní 02, 2012

List sem (óþægileg) samfélagsádeila

Þegar ég skoðaði myndlistarsýningu Santiago Sierra í Listasafni Reykjavíkur í vetur þótti mér hún óþægileg á margan hátt. Myndir af allrahanda fátæku fólki sem af neyð sinni gerði fáránlega, ósiðlega og óþarfa hluti fyrir smáaura, vegna þess að smáaurar skiptir það máli. Sjálfsvirðingin skiptir ekki máli fyrir þetta fólk, sé hún þá ekki löngu farin vegna þess að viðkomandi hefur svo oft áður gert fáránlega, ósiðlega og óþarfa hluti fyrir þá sem eiga peninga og vilja af einhverjum ástæðum láta framkvæma þá.

Ég er hinsvegar ósammála Agli Helgasyni um að Santiago Sierra sé „loddari“ en ekki listamaður og list hans sé „ógeðslegt flipp“. Mér fannst hún þvert á móti beitt ádeila á hve hræðilega er hægt að fara með fólk í krafti peninga. Eiturlyfjasjúklingar, atvinnulausir, farandverkamenn, ólöglegir innflytjendur og heimilislaust fólk hefur ekkert mótstöðuafl þegar peningar eru í boði, jafnvel smáaurar geta skipt sköpum fyrir líf þess og dauða. Það að Santiago Sierra hafi níðst á þessu fólki er vont, jafnvel ósiðlegt, en hann gerði það þó í ákveðnum tilgangi, þeim tilgangi að sýna okkur hinum hve lágt við leggjumst í því skyni að notfæra okkur þetta fólk.

Það þarf ekki að orðlengja það að meðan ég skoðaði sýninguna hugsaði ég mikið til þeirra sem halda því fram að konur stundi vændi af áhuga og elskusemi, þegar ljóst má vera að þær — en stór hluti vændiskvenna eru forfallnir eiturlyfjasjúklingar — gera hvað sem er fyrir peninga. Að láta tattóvera heimskulegt strik þvert yfir bakið á sér er bara djók miðað við hvað ætlast er til af þeim í starfi.

Þar fyrir utan er hugmyndin um grjótið á Austurvelli fáránleg. Planta því við Kaupþing/Arion-banka í Borgartúni eða við Glitni/Íslandsbanka á Sæbraut, þar hefðu mótmælin hvorteðer átt að fara fram.

Efnisorð: , , ,