föstudagur, desember 23, 2011

Öskjuhlíðin

Göngustígar liggja vítt og breitt um Öskjuhlíð og stöðugt fjölgar fólki, sem nýtur útivistar í þessum yndisreit í hjarta höfuðborgarinnar. Öskjuhlíðin er hlekkur í kerfi gönguleiðar frá gamla miðbænum um Vatnsmýrina, Fossvogs- og Elliðaárdalinn að Elliðaárvatni og inn í Heiðmörk.

Eða: Öskjuhlíðin er frátekin fyrir byggingarframkvæmdir og flugumferð. Stefnt er að því að steypumagnið á og umhverfis þennan fyrrum útivistarreit verði minnsta kosti álíka og grjótmagnið undir honum sem er víst allt að 70 metra þykkt. Árið 1950 var byrjað að planta þar trjám en nú eru þau fyrir (enda fáránlegt að vera með 200.000 tré á einum stað) og verða fjarlægð að hluta eða öllu leyti. Mikilvægt er líka að hindra allt þetta gangandi fólk í að komast leiðar sinnar með því að byggja nógu mikið, Háskólinn í Reykjavík er gott dæmi. Uppdiktað Bláa lón (sem myndi reyndar ríma vel við gervigoshverinn) efst á Öskjuhlíðinni myndi gegna svipuðu hlutverki.

Þau sem eru á móti því að sagað sé ofan af trjám, þau fjarlægð eða hlussu byggingum plantað við og ofan á Öskjuhlíðina eru á móti framförum!

Meiri steypu!

Efnisorð: