þriðjudagur, nóvember 23, 2010

Viðhorf sem Dickens barðist gegn

Óliver Twist er ekki bara söngleikur heldur magnað ádeiluverk.* Á þeim tíma sem Charles Dickens skrifaði Óliver Twist (birtist sem framhaldssaga 1837-39) auk annarra verka sem innihéldu ekki síðri ádeilu á samfélagsástandið, voru í gildi fátækralög í Bretlandi sem áttu uppruna sinn að rekja til 16. aldar.

Fátækralögin voru endurskoðuð oftar en einu sinni þar til þau voru loksins afnumin eftir seinni heimstyrjöldina og tóku nokkrum breytingum m.a. árið 1834 og svo aftur 1847 (og á 20. öld voru gerðar margar félagslegar úrbætur sem breyttu gildi þeirra þar til þau voru orðin tilgangslaus). Það voru fátækralögin sem tóku gildi 1834 sem Charles Dickens deildi á í Óliver Twist. Þau kváðu m.a. á um að engin manneskja mátti fá mat né annarskonar aðstoð nema vera vistuð á fátækrahæli. Aðrir þurfalingar fengu hvorki mat né fjárstyrk til að lifa.

Til þess að draga úr ásókn á fátækrahælin var reynt að hafa aðstæður þar sem verstar. Þrátt fyrir viðleitni yfirvalda var samt skárra fyrir marga að vera á fátækrahæli en reyna að lifa utan þeirra, svo mikil var örbirgðin.

Á fátækrahælum átti matur að vera svo naumt skammtaður** og aðbúnaður svo slæmur að enginn myndi viljugur sækjast eftir dvöl þar nema hann ætti engin önnur úrræði. Það var til að tryggja að fólk flykktist ekki inn af götunni og lifði í vellystingum á kostnað samborgara sinna. Uppihald ómaga var nefnilega greitt með eignaskatti á millistéttina.

Á þessari fínu línu dönsuðu svo fátækrahælin: svelta fátæklingana en ekki um of, láta þá sæta ómannúðlegri meðferð og bjóða þeim uppá óásættanlegar aðstæður en láta þó ekki svo marga drepast að hægt væri að saka rekstraraðila um vanrækslu og illa meðferð.

Þetta rímar óhugnalega vel við fyrirsögn í Fréttablaðinu í gær: „Hærri fjárhagsaðstoð sögð eyða vinnuhvata.“ Fréttin var svo á þessa leið:
„Sjálfstæðismenn í velferðarráði Reykjavíkur segja fjárhagslegan hvata til að finna vinnu hverfa með jöfnun fjárstyrkja félagsþjónustunnar við tekjur þeirra lægstlaunuðu. Formaður velferðarráðs segist vona að lægstu launin hækki.
Sjálfstæðismenn í velferðarráði Reykjavíkur gagnrýna samþykkt meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar um að hækka fjárhagsaðstoð til þeirra sem ekki eiga rétt til atvinnuleysisbóta eða aðeins hluta atvinnuleysisbóta.

„Það er umhugsunarvert þegar ráðstöfunartekjur þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð eru orðnar hærri en þeirra sem hafa atvinnuleysisbætur, og jafnháar ráðstöfunartekjum þeirra sem vinna fyrir lægstu launum,“ bókuðu sjálfstæðismennirnir Geir Sveinsson og Áslaug Friðriksdóttir á síðasta fundi velferðarráðs. Á fundinum samþykktu fjórir fulltrúar meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar að auka fjárhagsaðstoð um samtals 350 milljónir króna.

„Í því ástandi sem nú ríkir, þar sem almennt er talið erfitt að finna sér vinnu og nokkuð vonleysi ríkir almennt, er alls ekki heppilegt að jafna fjárhagsaðstoð við stöðu þeirra sem lægstu launin hafa því það mun valda því að fólki á fjárhagsaðstoð fjölgar og hægjast mun á því að fólk sæki út á vinnumarkaðinn,“ sagði í bókun Geirs og Áslaugar, sem kváðu virkniúrræði til að efla sjálfshjálp vera raunverulega aðstoð við að brjótast út úr fátækt.“

Í dag var svo fyrirsögn leiðara Fréttablaðsins þessi: „Velferðargildra í smíðum“ og tekur Ólafur Þ. Stephensen þar undir sjónarmið Sjálfstæðismanna og segir:
„Hér er augljóslega hætta á að í smíðum sé svokölluð velferðar gildra, en það hefur það verið kallað þegar samspil bóta- og skattkerfis í hinum þróuðu velferðarríkjum Vesturlanda hefur í för með sér að í raun er hagstæðara að vera á bótum en að vinna fyrir lágmarkslaun, að minnsta kosti ef tekinn er með í reikninginn ýmis kostnaður sem fylgir því að vera í starfi, eins og að koma sér í og úr vinnu. Hættan er að sjálfsögðu sú að til lengri tíma litið þyki mörgum meira freistandi að geta varið tíma sínum eins og þeir kjósa á bótum frá samfélaginu en að þiggja starf sem eykur ráðstöfunartekjurnar lítið sem ekkert.“


Fyrir rúmu ári fór fram mikil umræða á vefsvæði Egils Helgasonar um fólk sem þiggur bætur, bæði atvinnuleysisbætur og örorkubætur. Ég tók saman allt það sem mér fannst sagt af viti í þeirri umræðu og raðaði upp í flokka og birti hér undir fyrirsögninni „Svindlifólkið á bótunum“. Þótt hvorki Sjálfstæðismenn í velferðarráði Reykjavíkurborgar né ritstjóri Fréttablaðsins séu að tala um bótasvindl, þá á umræðan í bloggfærslunni við hér vegna þess að öll sömu rökin eru þar reifuð.**** Lykilsetning í allri þeirri umræðu var þessi: „Þegar upp er staðið leitast fólk við að eiga fyrir grunnþörfum fjölskyldunnar og það gerist ekki í störfum sem borga minna en atvinnuleysisbætur. Eina leiðin til lausnar á þessum vanda er að HÆKKA LÁGMARKSLAUN.“

Þau mannfjandsamlegu viðhorf sem Dickens barðist gegn á fyrrihluta þarsíðustu aldar, fyrir hátt í tvöhundruð árum, eru enn vinsæl hjá fólki með annarlega sýn á mannfólk og samfélag. Forsvarsmenn hennar þessa dagana eru Geir Sveinsson, Áslaug Friðriksdóttir og Ólafur Þ. Stephensen.

Charles Dickens vildi auðvitað breytingar á aðstæðum hinna verst settu í samfélaginu en staðreyndin er sú að enn í dag, 140 árum eftir dauða hans, er viðhorfið hið sama í garð þeirra sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda. Það eru aldeilis framfarirnar.

___
* Óliver Twist er reyndar betri án söngs eins og BBC uppfærslan frá árinu 1985 ber með sér.

** Óliver Twist dirfðist að biðja um meiri mat en honum sem ómaga var ætlaður og uppskar mikla hneykslun. Þetta kveld sat stjórnarnefndin á fundi og ræddi alvarleg málefni. Vissi hún ekki fyrr en signor Bumble æddi inn í salinn og var á honum fát mikið; gekk hann rakleiðis fyrir manninn í háa stólnum og mælti: „Herra Limbkins, Oliver Twist hefur beðið um meira!“
Felmtri sló á alla stjórnarnefndarmenn við þessi orð.
„Beðið um meira?“ mælti maðurinn í háa stólnum.
„Verið þér nú rólegur, signor Bumble, og svarið mér greinilega. Á ég að skilja orð yðar svo, að hann hafði beðið um meira, eftir að hann hafði neytt þess matar, er honum bar að réttu samkvæmt reglugerðinni?“
„Já, það gerði hann, velæruverðugi herra!“ svaraði Bumble.


*** Nei, þetta er ekki prentvilla, hann sagði velferðargildra en ekki fátækragildra, því mestar áhyggjur hefur prestsonurinn af því að fólk upplifi svo mikla velferð á bótunum sínum að það vilji aldrei aftur vinna, enda þó ekki sé vinnu að hafa fyrir stóra hópa fólks. Hvor gildran ætli sé verri, fátæktargildran eða velferðargildran?

**** Fyrir þau sem ekki nenna að lesa alla samantektina er vert að benda á athugasemd Sigríðar Guðmundsdóttur undir lokin sem náði að sameina marga þætti sem fram komu.

Efnisorð: , , , , , , , ,