sunnudagur, ágúst 15, 2010

Bráhárin mjúk og varirnar glossaðar — og þjáningin sem það veldur

Á föstudaginn hringdi ég í verslun sem hafði auglýst með áberandi hætti í Fréttablaðinu snyrtivörur sem, samkvæmt auglýsingunni, eru allra meina bót.* Ég lagði tvær spurningar fyrir konuna sem svaraði í símann, svarið við þeirri fyrri kom mér á óvart, hinni síðari ekki. Fyrst spurði ég hvaða erlenda fyrirtæki framleiddi snyrtivörurnar því mér hafði ekki tekist að finna það á netinu. Tilgangur minn með því að finna framleiðandann var að fá svar við seinni spurningunni, þessari sem ég hafði ekki enn borið upp í símann, en snerist um hvort snyrtivörurnar væru prófaðar á dýrum.

Svarið við því hver framleiðir vörurnar var flókið því margar tegundir af snyrtivörum virðast framleiddar undir sama heitinu og lá við að ég nennti ekki að halda samtalinu áfram því í raun vildi ég bara fá uppgefna vefsíðu til að skoða hvað þar væri sagt um dýratilraunir. En þó hjó ég eftir þessu; Signatures of Nature snyrtivörurnar eru framleiddar — am.k. að hluta — í Ísrael. Fyrir þau sem hyggjast sniðganga ísraelskar vörur** vegna framkomu ísraelskra stjórnvalda í garð Palestínu og vegna árásanna á skip með hjálpargögn, þá eru þetta mikilvægar upplýsingar.

Nema hvað, svarið við seinni spurningunni, „Eru snyrtivörurnar prófaðar á dýrum?“ var afar fyrirsjáanlegt. Konan svaraði — eins og allar aðrar konur í öllum öðrum snyrtivöruverslunum þar sem ég hef borið upp þessa spurningu — með: „Ég veit það ekki.“

Annaðhvort er ég eina manneskjan sem spyr seljendur snyrtivara þessarar spurningar eða þá að sölufólkið er sjálft algerlega áhugalaust um hvort dýr eru pyntuð til að framleiða vöruna.*** Ég skil reyndar ekki konur sem ganga með maskara sem framleiddur er eftir tilraunir á dýrum (ég hef lesið andstyggilegar lýsingar á því hvernig efnasamböndum er klínt í augu á kanínum til að athuga hvernig augað bregst við) ef til eru maskarar frá fyrirtækjum sem ekki stunda dýratilraunir.**** Sama gildir auðvitað með aðrar snyrtivörur, þarmeðtaldar hársnyrtivörur s.s. sjampó. Þessar upplýsingar ætti auðvitað að vera hægt að fá í snyrtivörubúðum og hárgreiðslustofum, á vefsíðum fyrirtækjanna sem framleiða vörurnar og svo auðvitað á umbúðum vörunnar sjálfrar. Fæst fyrirtæki skammast sín fyrir að hlífa dýrum við pyntingum.

Nema þetta sé bara hugsunarleysi og leti, bæði hjá þeim sem selja snyrtivörur og þeim sem kaupa. Sú hugsunarleysi og leti styrkir fyrirtæki sem pynta dýr. Voða er það lítið snyrtilegt.

___
* Nauðsynlegt er að átta sig á, við lestur þessarar færslu, að öll samskipti mín við sölufólk sem snúast um snyrtivörur eru aðeins í þágu feminískra rannsóknarhagsmuna en ekki vegna þess að ég hafi svikið málstaðinn og noti snyrtivörur. Ég er auðvitað vottaður feministi með líkamshárasöfnun að aðaláhugamáli.
** Signatures of Nature vörur eru þegar á lista Íslands-Palestínu yfir vörur frá Ísrael.
*** Ég var einusinni stödd í lyfjaverslun þar sem stóð yfir snyrtivörukynning og ég vatt mér að konunni sem kynnti vöruna og þóttist vera líklegur viðskiptavinur áður en ég spurði hana hvort varan væri prófuð á dýrum. Hún sagðist ekki vita það en þegar ég gerði mig súra í framan og sagði að þá væri ég ekki viss um að ég vildi kaupa þetta þá flýtti hún sér að segja; „Ja, þá er ég viss um að hún er það ekki.“ Þetta svar sannfærði mig reyndar ekki um dýraverndartilhneigingu snyrtivörufyrirtækisins en því meir um að sölufólk er á prósentum og að því er nokkuð sama um hvað það selur bara ef það þýðir meiri aur fyrir það sjálft.
**** Auðvitað getur vel verið að snyrtivörufyrirtæki ljúgi því til að ekki séu stundaðar tilraunir á dýrum eða kaupi allar efnablöndurnar af fyrirtækjum sem stunda slíkar pyntingar en það verður að duga að þau lýsi þessu yfir. Ég kaupi tildæmis sjampó af fyrirtæki sem segist hvorki stunda né fallast á neinar tilraunir á dýrum; ég kaupi það í góðri trú, meira get ég ekki gert.

Efnisorð: ,