föstudagur, júlí 23, 2010

Nestlé ber ekki velferð barna fyrir brjósti

Ægilega krúttleg bíómynd er nú sýnd í bíóum og heitir hún Babies. Ég hef ekki séð myndina en séð stiklur úr henni og það er ljóst að klakinn þiðnar af jafnvel forhertustu mannkynsafneiturum eins og mér við að sjá þó ekki sé nema 2 og hálfa mínútu af þessu krúttsnúlleríi. Afturámóti þykir mér ekkert krúttlegt við það að Nestlé „kynni“ þessa mynd og bjóði barnshafandi konum á sýningar í því skyni að afla sér viðskiptavildar.* Ég hef áður skrifað um Nestlé og þurrmjólkina** sem valdið hefur barnadauða víða um lönd. Í bloggfærslunni orða ég það svona: „Nestlé er, í stuttu máli sagt, fyrirtæki sem vílar ekki fyrir sér að drepa kornabörn.“ En hér og nú setur Nestlé upp sparisvipinn og segir: Allir elska börnin.

Ég leyfi mér að efast um ást Nestlé fyrirtækisins á börnum.

___
* Gerber „býður“ einnig til sýningarinnar en það er eitt vörumerkja Nestlé, einsog fram kemur í bloggfærslunni sem ég vísa til. Þar er einnig að finna yfirlit um þau fyrirtæki sem eru í eigu Nestlé.
** Þurrmjólk er einnig kölluð mjólkurduft og barnamjólk.

Efnisorð: ,