mánudagur, mars 08, 2010

Skref í jafnréttisátt 8. mars

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Til hamingju með það!

Nú í morgunsárið bárust þær fréttir að kona hefði í fyrsta sinn hlotið Óskarsverðlaun fyrir leikstjórn. Það tók kvikmyndaakademíuna ekki nema 82 ár að veita konu þessa viðurkenningu. Hún þurfti auðvitað að leikstýra stríðsmynd, en slíkt fer alltaf vel í nefndarmennina bandarísku. En jæja, hún fékk þó óskarinn samt.

Skref í jafnréttisátt hér á heimaslóðum var stigið í síðustu viku þegar stjórnarfrumvarp um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga var samþykkt á alþingi.
Samkvæmt því verður skylt að sundurliða upplýsingar um hlutföll kynja í stjórnum í tilkynningum til hlutafélagaskrár. Í hlutafélögum, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði, verður jafnframt skylt að sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna meðal starfsmanna og stjórnenda félagsins.

Samkvæmt nýju lögunum verður skylt að gæta að kynjahlutföllum við ráðningu framkvæmdastjóra. Verður fyrirtækjum gert skylt að gefa hlutafélagaskrá upplýsingar í tilkynningum til skrárinnar um hlutföll kynjanna meðal framkvæmdastjóra.
Frumvarpið var samþykkt með atkvæðum 32 þingmanna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum. Ellefu þingmenn greiddu ekki atkvæði.

Ég ætlaði að setja hér tengla á ágætan pistil Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur um málið til mótvægis við sjónarmið frjálshyggjunnar sem sjá má í pistli Erlu Óskar Ásgeirsdóttur varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins. En svo sá ég karlrembudrulluna í athugasemdakerfinu hjá Steinunni Valdísi, þar sem öllu þessu íþyngjandi jafnrétti er mótmælt harðlega — en auðvitað mest af umhyggjusemi fyrir vellíðan kvenna sem munu skammast sín svo mikið fyrir að sitja í stjórnum fyrirtækja þar sem kynjahlutfallið er 50/50. Einn þeirra sem hafði mestar áhyggjur af velferð kvenna skrifaði þetta:
„Þið megið trúa því stelpur, að hér er ekkert í að físast. Þetta er ekki eins æðislegt og þið haldið. Langir og slítandi fundir, þeytingur um allan bæ, eða jafnvel út í lönd, afbrigðilegir vinnutímar, sundurslitið einkalíf, skellur þegar ábirgð fellur á ykkur þegar eitthvað kemur upp á, o.s.frv.“

Ekki veit ég hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna* af sömu umhyggjusemi, ætli það hafi ekki bara verið sama trúin á lögmál markaðarins sem réði gerðum þeirra eins og venjulega. Það hefur einmitt sannast svo hressilega að ef við látum fyrirtæki afskiptalaus þá hafi þau velferð allra í huga. Samkvæmt því þá er þeim auðvitað svo umhugað um að gefa konum tækifæri að það hvarflar ekki að þeim að bjóða bara eintómum karlmönnum úr kunningjahópi sínum að stjórna með þeim fyrirtækjum og taka ákvarðanir sem geta jafnvel haft áhrif á hag allrar þjóðarinnar. Svona eins og dæmin sanna.

— Viðbót: Því ber einnig að fagna að karlmennirnir sem fluttu inn litháeska stúlku í því skyni að selja hana í vændi voru dæmdir í dag og mun hver þeirra dúsa í fimm ár í fangelsi.

___
* Vefur alþingis sýnir að þessir þingmenn sátu hjá: Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Bjarni Benediktsson, Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Illugi Gunnarsson, Margrét Tryggvadóttir, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Viðbót: Auðvitað mótmæla ýmsir Sjálfstæðismenn (s.s. Pawel og Vilhjálmur Egilsson þessu opinberlega, finnst þetta mismunun og ég veit ekki hvað og hvað.

Efnisorð: , , , , ,