laugardagur, febrúar 27, 2010

Hnuggnin húsverk


Eftir síðari heimstyrjöld komu á markað margar tækninýjungar sem auðvelda áttu húsmæðrum heimilisstörfin.* Nú þykja okkur rafmagnseldavélar, ísskápar, hrærivélar, þvottavélar og hvað-það-nú-allt-heitir sjálfsagðir hlutir á hverju heimili og vildum auðvitað ekki skipta. Ekki alls fyrir löngu kom svo enn ein tækninýjungin sem ég hef — rétt eins og hinar fyrri — svikalaust tekið í þjónustu mína við heimilisstörfin. Hér er ég að tala um hlaðvarp** eins og það sem Ríkisútvarpið býður uppá á heimasíðu sinni.

Ég hef aldrei almennilega kunnað að hlusta á útvarp. Mér er ómögulegt að sitja stillt og hljóð og hlusta án þess að hafa nokkuð annað fyrir stafni. Þegar ég á annaðborð sit (stillt og hljóð) er það vegna þess að ég er að lesa bók, horfa á sjónvarp eða lesa eitthvað á netinu. Jafnframt þeirri iðju get ég ekki hlustað á talað mál. Þessvegna hafa útvarpsþættir á gömlu Gufunni nánast alltaf farið framhjá mér, ja nema þegar ég kveiki á útvarpinu í bílnum, en sú hlustun verður mjög brotakennd því sjaldnast standa bílferðir mínar yfir svo lengi að ég heyri heilan þátt frá upphafi til enda.

En þegar ég uppgötvaði hlaðvarpið gat ég farið að hlusta á útvarp þar og þegar ég hafði tíma og áhuga. Þetta geri ég með því að hlaða útvarpsefninu inná litla sjálfbelginginn minn,*** festa hann í barminn og setja heyrnartólin í eyrun. Get ég þá hlustað meðan ég vinn heimilisverkin og verður að segja að gömlu auglýsingarnar höfðu rétt fyrir sér: Með réttum tækjum verða húsverkin leikur einn!

Enn hef ég þó ekki komist yfir að hlusta á allt það sem þar er í boði en þó hef ég heyrt Jökul Jakobsson ganga með ótöldum leiðsögumönnum um götur Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga í þættinum Gatan mín, fylgst með spekúleringum gáfumenna um Heim hugmyndanna hjá þeim Ævari Kjartanssyni og Páli Skúlasyni, hlustað með andakt á Pétur Gunnarsson fjalla um Jörund Hundadagakonung í þáttum sem hann kallaði Drottning hundadaganna og fyllst áhuga á skipulagsmálum eftir að hafa fylgst með Krossgötuþáttum Hjálmars Sveinssonar.****

Meðfram þessu hef ég reynt að vinna upp margra ára vanrækslu á Víðsjárþáttum (og er sífellt að heyra um skemmtilega tónleika og sýningar sem eru löngu liðnar) jafnframt því sem ég hef skemmt mér konunglega yfir skagfirsku þáttunum Sagnaslóð sem sendir eru úr hljóðstofu á Sauðárkróki á vorum tímum. Síðast en ekki síst hef ég hlustað á Andrarímur þar sem gömul viðtöl, upplestur Jóhannesar Birkilands á harmsögu ævi sinnar og ævintýri Mírmanns hafa heyrst jöfnum höndum í bland við ýmislegt annað sem Guðmundur Andri Thorsson hefur fundið áheyrendum sínum til fróðleiks og skemmtunar.

Í dag komst ég svo að því að til stendur að leggja niður Andrarímur og því mun ekki vera von á fleiri þáttum þar sem hljómfögur rödd Guðmundar Andra heyrist. Þessar fréttir flutti Kolbeinn Proppé***** jafnframt því sem hann vandaði útvarpsstjóra ekki kveðjurnar og veltir fyrir sér hvort hann skilji hlutverk Ríkisútvarpsins sem menningarstofnunar. Nú loksins þegar ég er farin að hlusta á útvarp þá get ég ekki annað en tekið undir þetta sjónarmið og undrast þessa tilhögun hjá stofnun sem sér sig knúna til að halda úti Evróvisjón söngvakeppninni ár eftir ár, svo ekki sé nú talað um beinar útsendingar á íþróttum svo annað dæmi sé tekið um lágmenningu. Ekki það, ég hef alltaf gagnrýnt árásir frjálshyggjunnar á Ríkisútvarpið því ég hef einmitt gert mér grein fyrir menningarhlutverki þess enda þótt ég hafi ekki hlustað sjálf. Rétt eins og ég vil öflugt heilbrigðiskerfi og félagslegt kerfi enda þótt ég vonist til að þurfa aldrei að vera uppá náð þess komin.

Nú er menningarstarfsemi Ríkisútvarpsins í hættu af að minnsta kosti þremur ástæðum. 1) Hruni bankanna — sem er afleiðing frjálshyggjuhugsunar, 2)ohf-væðingar Ríkisútvarpsins — sem var eitt skref frjálshyggjumanna í þá átt að selja RÚV eða leggja það niður; þeir þoldu ekki að borga fyrir útvarp sem þeir hlustuðu ekki á, 3) og einræðisvalds útvarpsstjóra — sem valinn var í hlutverkið vegna þjónkunar við peningaöflin (lesist: frjálshyggjuna).

Eflaust er andskotanum erfiðara að snúa þessari þróun við. Ljóst er þó að við húsmæður eigum bágt með að sætta sig við að missa uppáhaldsútvarpsþættina okkar af dagskrá. Líklega verða heimilisstörfin unnin af hnuggnum húsmæðrum ef þau verða þá unnin á annað borð.


___
* Með þeim duldu skilaboðum að þær ættu að hunskast heim af vinnumarkaðnum og eftirláta karlpeningnum störfin sem þær höfðu haft með höndum meðan á stríðinu stóð.

** Hlaðvarp er íslensk þýðing á orðinu podcast sem einungis fólk tekur sér í munn sem þykist svo gáfað að það þurfi að sletta útlensku öllum stundum.

*** Sjálfbelgingur er eigin útúrsnúningur á beinni þýðingu á orðinu ipod.

**** Glöggir lesendur þessarar síðu, sem tekið hafa eftir að feminismi með tilheyrandi kynjahlutfallshausatalningu liggur henni til grundvallar, átta sig e.t.v. á við upptalningu uppáhaldsútvarpsefnis að ákveðið karladekur virðist ná yfirhöndinni þegar að útvarpshlustun kemur. Glöggir lesendur fá hrós fyrir þetta.

***** Þó ég deili áhuga á Andrarímum (og ýmsu fleiru) með Kolbeini þá hef ég ekki alltaf vandað honum kveðjurnar hér fremur en hann Páli.

Efnisorð: , , ,