sunnudagur, september 27, 2009

Polanski loksins á leið í fangelsi

Það vekur mér ógleði að lesa það sem nú er sagt Roman Polanski til varnar, loksins þegar hann hefur verið handtekinn og verður vonandi framseldur og látinn sæta fangavist. Nú á hann að hafa „stundað kynlíf með stúlku undir lögaldri“ eða „hafi sængað hjá“ henni og talað er um „brot sem hann á að hafa framið“.

Hann nauðgaði 13 ára barni.

Hann var 44 ára.

Það má vel vera að fjölmargir aðdáendur mynda hans hafi upplifað stórkostlega kynlífsreynslu þrettán ára gamlir og þá með karli sér 30 árum eldri. Og það hafi ekki verið karlinn sem hafi átt upptökin og þaðanafsíður að því að stunda endaþarmsmök — því eins og allir vita eru þau í sérlegu uppáhaldi hjá þrettán ára börnum sem eru ein með ókunnugum körlum sem gefa þeim dóp og áfengi til að þau verði meðfærilegri.**

Það gildir engu að Polanski hafði ekki átt góða ævi. Það gildir engu að stúlkan sem hann nauðgaði vill ekki að hann verði framseldur.*** Það á enginn að nauðga börnum (eða unglingum eða fullorðnum). Það á enginn að telja sér eða öðrum trú um — og það á enginn að trúa því — að það sé eðlilegt að fullorðnir karlmenn líti á 13 ára börn sem kynlífsviðföng og réttlætanlegt að nota þau til að fullnægja eigin hvötum, þörfum og kynórum.
___
* Ég hef áður skrifað um Polanski og er jafn lítið hrifin af honum nú.

** Hægt er að lesa (á ensku) skýrslu barnsins hér. Viðvörun: þetta eru nákvæmar lýsingar og geta valdið því að fólk komist í uppnám við lesturinn.

*** Hún hefur ekki dregið til baka sögu sína, enda hefur Polanski fyrir löngu játað. Fyrir henni er fjölmiðlaumfjöllunin aðallega óþægileg og þessvegna er framsalið og fárið í kringum það óþægilegt. Í Guardian kemur fram að þetta fórnarlamb Polanskis hefur sagt að saksóknari sé að velta upp hryllilegum smáatriðum árásarinnar til að draga athyglina frá því sem embættið klúðraði í upphafi. Hún segir að smáatriðin séu sannleikurinn í málinu en það sé meiðandi að endalaust sé verið að birta þau opinberlega. Hún hafi sigrast á þeim hverjum þeim skaða sem Polanski hafi hugsanlega valdið henni. En þar með er ekki sagt að jafni þolendur nauðgana sig þá eigi nauðgarinn að sleppa við dóm og refsingu.

Viðbót: Sjaldgæf og hrósverð fjölmiðlaumfjöllun um Polanski í Fréttablaðinu 1.október: Þar er tvítekið fram að Polanski hafi nauðgað þrettán ára stúlku, og ekkert dregið úr því á neinn hátt.

Viðbót: Grein um Polanski eftir franska rithöfundinn og blaðamanninn Mona Chollet birtist á Smugunni í þýðingu Kristínar Jónsdóttur í mars 2010. Þar kemur hún m.a. inná fyrirsætubransann (en Polanski lokkaði stelpuna sem hann nauðgaði til sín undir því yfirskini að taka af henni myndir fyrir tímarit), Lólítur, og karlmenn sem beita valdi sínu til að níðast kynferðislega á unglingum. Vel þess virði að lesa.

Efnisorð: