þriðjudagur, ágúst 25, 2009

Svindlifólkið á bótunum

Oft verða bloggfærslur annarra, rétt eins og fréttir, mér uppspretta að einhverjum bloggpistlinum. Iðulega reyni ég að leyna upprunanum, jafnvel láta eins og ég hafi fengið frumlega hugmynd. En núna ætla ég að skrifa eingöngu útfrá því sem ég las á Silfri Egils um fólk sem þiggur bætur, og meira segja taka upp eftir ýmsum sem skrifa athugasemdir þar og taka undir eða gagnrýna en umfram allt að gera að mínu eigin. Ég er nefnilega svo hjartanlega sammála mörgum þar og svo innilega ósammála öðrum. Mest er ég ósammála Agli Helgasyni sjálfum og svo auðvitað öllum þeim sem taka undir orð hans og hneykslast á atvinnulausu fólki og bótunum sem það fær og segir að þetta fólk hafi það of gott á bótunum og nenni ekki að vinna þó störf séu í boði.

Fyrir ekki löngu síðan lenti ég í hávaðarifrildi um þetta sama mál. Kunningi minn hélt því fram að fólk hafnaði vinnu vegna þess að það vildi ekki vinna ófína vinnu og að það bæri að refsa þessu fólki með því að neita því um bætur. Mér fannst afturámóti ótækt að fólk yrði svelt þannig til hlýðni.

Nú vantar fólk á frístundaheimili og ég hef heyrt að það þyki undarlegt í þessu atvinnuleysi. Fyrir nokkrum árum man ég eftir að talað var um að þvinga fólk sem þáði atvinnuleysisbætur til að vinna á leikskólum, því þar vantaði fólk. Mér þótti það undarleg umræða því það hlýtur að vera kostur fyrir bæði börn og foreldra þeirra að fólkið sem eyðir átta tímum á dag með börnunum hafi A) áhuga á að vinna með börnum, B) færni eða hæfni í starfið.

Nokkur þeirra sem þátt tóku í umræðunum sem hér er vísað í sögðu á svipuðum nótum: „Sjálf er ég því mótfallin að þvinga fólk í starf sem það vill ekki vinna, hver sem ástæðan er fyrir því, það er engu betra en þrælahald að mínu mati ... Gæta þarf að því að fólk fái tækifæri til að halda sjálfsvirðingu sinni, hún gæti farið verði fólk þvingað til vinnu sem það vill ekki, sama hver ástæða þess kann að vera.“ Og einhver benti á að vinnuveitendur ættu ekki að vilja starfsfólk sem vildi ekki vinna hjá þeim, það væri varla gott samband.

En hér eru annars helstu atriði sem ég get tekið undir (og eru misjafnlega mikið umorðuð, oftast tekið beint upp af athugasemdakerfinu hjá Agli og jafnvel skeytt saman málsgreinum margra persóna).

Í fyrsta lagi eru of fá störf í boði - m.ö.o. það er atvinnuleysi
Hér er verið að tala um að það séu um 16.000 á atvinnuleysisbótum en aðeins tæp 600 störf í boði. Þegar búið er að manna þessi 600 störf sem er verið að auglýsa, þá eru samt 15.400 eftir á atvinnuleysisskrá, að því tilskildu að engin fyrirtæki hafi farið á hausinn eða þurft að segja upp fólki vegna samdráttar í millitíðinni.

Lágmarkslaun eru of lág
Það er heldur ekki hægt að ætlast til þess að fólk sem er við hungurmörk á atvinnuleysisbótum taki starfi á sömu launum og skerði þannig ráðstöfunartekjur sínar. Það þýðir ekki að ætlast til þess að fólk vinni fullan vinnudag fyrir minna en bæturnar, kostnaðurinn við það að hafa t.d. barn hjá dagmömmu er á bilinu 70 -90 þúsund á mánuði pr barn - því eru lágmarkslaun hrein skerðing sé farið á þau af bótum. Þegar upp er staðið leitast fólk við að eiga fyrir grunnþörfum fjölskyldunnar og það gerist ekki í störfum sem borga minna en atvinnuleysisbætur. Eina leiðin til lausnar á þessum vanda er að HÆKKA LÁGMARKSLAUN.

Ábyrgð fyrirtækja
Ekki veit ég betur en mörg fyrirtæki hér, sem greitt hafa lág laun, hafa samt haft endalaust fjármagn til að millifæra til Tortola, samt fá þeir talsverða samúð, þegar þeir koma betlandi fram í leit að meðaumkun vegna þess að enginn fæst til starfa hjá þeim á lúsalaunum.

Svo er það umhugsunarefni hvort fyrirtæki sem virkilega geta ekki borgað þau laun sem þarf til að búa hér á landi, séu yfir höfuð þess virði að halda þeim gangandi?

Margir atvinnurekendur virðast misnota sér ástandið og bjóða laun sem duga ekki til þess að lifa á þessu landi. Verktakar, verslanareigendur ofl. kvarta undan því að fá ekki fólk til starfa. Getur ekki verið að launin í þessi lausu störf séu viljandi höfð svo lág að ekki sæki nokkur um þau? Þá er líka miklu auðveldara fyrir atvinnurekendur að fá leyfi opinberra aðila til að virkja hið “frjálsa flæði vinnuafls” frá þrælasvæðum heimsins og borga aðframkomnum farandverkamönnum skítalaun.

Ekki veit ég til þess að illa gangi að ráða í vel launuð störf.

Þeir atvinnurekendur sem hvað hæst væla í dag mundu fá allt önnur viðbrögð ef þeir hækkuðu launin, segjum 50.000 kall yfir atvinnuleysisbætur.

En nei, þeir tala frekar um að lækka þurfi bæturnar.

Þetta eru nútíma þrælahaldarar.

Láglaunastörf ekki í boði fyrir háskólamenntað fólk
Það eru hundruð einstaklinga með háskólagráður sem enn eru atvinnulausir. Það þýðir hins vegar lítið fyrir þá að sækja um fjölmörg af þeim láglauna störfum sem eru laus því að atvinnurekandinn veit það fullvel að um leið og einstaklingurinn sér betri stöðu þá er hann farinn. Þannig yrði láglaunastarf að hringavitleysu þar sem hver háskólamenntaði starfsmaðurinn eftir annan kæmi inn, ynni í skamman tíma og færi svo í betra starf. Atvinnurekendur nenna ekki að standa í því og bíða því frekar eftir því að fá einstakling sem minni líkur eru fyrir því að láti sig hverfa.

Bótaþegar unnu sér inn rétt
Það hefur verið tekið af launum þeirra, sem nú ganga um atvinnulausir, í atvinnuleysistryggingasjóð í gegnum árin sem þetta sama fólk hafði vinnu og af því fólki sem áður gekk heilt til skógar en gerir ekki í dag.

Bætur eru lúsarlaun þeirra sem geta ekki unnið eða býðst ekki atvinna við hæfi. Þær eru ekki ölmusa heldur einfaldlega mannréttindi.

Settu bótaþegar landið á hausinn?
Egill sjálfur segir:
„Það er millistéttin sem stendur undir skattkerfinu,
Og það er bara eðlilegt að hún sætti sig ekki við að skattfé sé eytt í vitleysu.“

Það væri hægt að hafa alla Íslendinga á vinnualdri á bótum í tvö ár, fyrir þúsund milljarða, sem er hluti af því sem vinna kapítalistanna hefur kostað okkur. Mikið eru þið miklir menn að vera væla út af svona smá svindlurum þegar vinir ykkar hægrimanna hafa stolið af þjóðinni, þúsundum miljarða. Eða þú hefur kannski ekki spáð í hve mikið þú þarft að borga vegna hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins?.

Svo er vitað um 40 miljarða í skattsvik á hverju ári. Spyrja mætti þá sem eru að amast við bótakerfinu, hvort þeir væru ekki að gelta að röngu tré?


Rógur gegn bótaþegum
(Svo kom að því að einhver benti á það að umræðan sem slík, þ.e. umræðan um að atvinnulaust fólk hefði það of gott, væri óeðlileg.)

Er virkilega talið slæmt að halda uppi fólki sem hefur orðið fyrir því óláni að missa atvinnuna í kreppunni?

Nú gengur maður undir manns hönd að tortryggja þá sem ganga um atvinnulausir eða eru á örorkubótum. Fjölmiðlar taka undir þennan söng af mikilli gleði. Mér finnst það bæði aumt og óverðskuldað.

Það er fórnarkostnaður að hafa gott velferðarkerfi, fólginn í mistnotkun, en það er gríðarlega mikið stærri fórnarkostnaður þar sem velferðarkerfið er lágmarkað. Að tala um að fólk hafni vinnu þegar þúsundir eru atvinnulaus, og nokkur hundruð störf í boði, er kjánalegt. Þá elur þetta á tortryggni í garð þeirra sem í verstri stöðu eru.

Það er sjálfsagt að taka umræðuna um bótasvindl, en þessi rógsherferð gegn öryrkjum og atvinnulausum er verulega aumkunarverð.

„Útlendingar, örykjar og atvinnulausum er nú stillt upp í sakbendingu hjá hinum betur settu í þessu hrunda og siðlausa samfélagi. Gjáin fer dýpkandi á milli þeirra sem hafa og þeirra sem hafa ekki. Og nú á að rífast um bitana. Þeir sem áttu fullt í fangi með að hafa í sig og á fyrir hrun eiga vart til hnífs og skeiðar.“

Ég segi nú bara: ,,Rétt upp hönd sem VALDI að missa vinnuna?” Þakkaðu bara fyrir að þú skulir enn halda heilsu þinni og vel launuðu djobbi. Það eiga bara ekki allir kost á því.

Svona umræða er alltaf viðkvæm og varasöm því hún getur hæglega orðið til þess að kalla fram fordóma gagnvart þeim sem eru í erfiðri stöðu í þjóðfélaginu. Þannig getur það hæglega endar það með því að öllum er refsað, líka þeim sem ekkert hafa gert af sér.

Það kom upp umræða um þetta í blöðunum í vor þar sem þeir fundu út að 0,45% af þeim sem voru á atvinnuleysisbótum voru að svindla og þeir voru sviptir bótunum. Ekki hefur tekist að sanna að mikið fleiri séu að svindla þótt alltaf sé um það stöðugur orðrómur.

Ég get kyngt því að 0,5% bótaþega séu að svindla* sem fórnarkostnaði. Það er ávallt rýrnun einhver staðar, það er í mannlegu eðli að sumir eru siðblindir og fara sínu fram.

Ég skal með glöðu geði halda uppi þessum 0,5% ef það þýðir að þessi 99,5% sem eiga réttmætt tilkall til bóta eru ekki stimplaðir þjófar, þurfa að sæta rannsókn og tortryggðir og látnir finnast þeir vera þriðja flokks fólk.

En Egill sjálfur segir:
„Er það árás á atvinnulausa og öryrkja að vara við því að í kerfinu sé fólk sem er að svindla.“
Og þykist ekkert vita um áhrifamátt fjölmiðla í skoðanamyndun.

Og einhver þeirra fjölmörgu sem þátt tók í umræðunum og hneykslaðist á ofurlaunum bótaþega, svindli þeirra, leti og almennri ómennsku sagði (fyrirfram sár): Þeir sem vekja máls á þessu verða sakaður um kaldlyndi og hrottaskap og sagðir fastir í “spilltri og ómanneskjulegri hugsun frjálshyggjunnar”. Sem þeir og eru.

Málið er, að með því að halda því fram að fólk sé á atvinnuleysisbótum því það nenni ekki að vinna og fari á örörkubætur því það ætli sér aldrei að vinna, er verið að grafa undan trúverðugleika allra þeirra sem eru á atvinnuleysis- eða örorkubótum. Jafnvel þó að einhver örfá prósent séu hugsanlega að hagræða sannleikanum þá bitnar svona umræða á öllum hinum líka. Það er ekkert grín að þurfa að lifa á þessum bótum. Enn verra er fyrirlitning samfélagsins. Ég skal vera fyrsta manneskja til að kasta grjóti að útrásarhyskinu, enda hefur það unnið sér inn fyrirlitningu samfélagsins, bótaþegar hafa það ekki.

Þessi athugasemd Sigríðar Guðmundsdóttur** náði að sameina marga þætti sem fram komu hjá þeim sem ég var sammála:

„Ég er ein af þeim sem finnst þessi umræða mjög erfið. Í mínum huga eru atvinnuleysisbætur áunninn réttur sem er til þess ætlaður að tryggja mér lágmarksframfærslu við atvinnumissi. Viðhorf Íslendinga til bótakerfisins er og hefur alltaf verið að um ölmusu sé að ræða og þar með til minnkunar fyrir þann sem notar, einskonar aumingjastyrkur. Atvinnuleysisbætur duga ekki venjulegum launamanni á Íslandi til lágmarksframfærslu við atvinnumissi. Alla vega ekki mér. Mér er nauðugur einn kostur að ganga á lífeyrissparnað sem ég hef haft vit á að koma mér upp og get losað að einhverju leyti núna. Það mun síðan koma niður á fjárhag mínum við eftirlaunaaldur, en í núverandi stöðu á ég ekkert val, ég verð að sjá sjálfri mér og fjölskyldu minni farborða.

Það er niðurlægjandi að vera “bótaþegi” og óþolandi að standa frammi fyrir atvinnuleysi, ofan í kaupið að þurfa að sitja undir ásökunum um að maður nenni ekki að vinna, af því að maður er ekki tilbúinn að henda krakkanum og sjálfum sér ofan í tösku og fara í fisk vestur til andskotans eða norður og niður.

Ef að til stendur að taka þessa umræðu findist mér við hæfi að hún væri tekin alla leið. Hvað með alla þá sem stunda skattsvik í gegnum fyrirtæki sín, borga sjálfum sér málamyndalaun og skrifa allt á fyrirtækið, nú eða borga bara fjármagnstekjuskatt og hljóta alla þjónustu sveitarfélaga án raunverulegrar þáttöku eða tekjutilleggs? Nú eða þá staðreynd að stór fyrirtæki eins og Icelandair og fleiri flugfélög geta leyft sér að borga starfsfólki sínu lágmarkslaun og bæta þau upp með dagpeningum og alls lags undarlegum styrkjum til að borga minna til samfélagsins. Ef að við eigum að fara að skera upp eigum við þá ekki bara að leggja allt líkið á borðið, ekki bara eina hendina?“

___
* Mér finnst athyglisvert við þessar tölur, að þetta eru svipaðar tölur og nefndar eru í a.m.k. tveimur málum sem eru alls óskyld þessari umræðu. U.þ.b. 1% kærur um nauðgun eru taldar vera uppspuni — samt eru margir sem telja nánast allar nauðgunarkærur uppspuna. U.þ.b. 95% þeirra sem starfa í klámiðnaðinum (vændi, klámmyndir, stripp) eru þolendur kynferðisofbeldis — samt einblína margir á þessar örfáu konur (1%?) sem koma fram og segjast vera í klámiðnaðnum vegna þess að þær fíli kynlíf — og hunsa allar hinar. Og ég leyfi mér að draga þá ályktun að sama fólkið og trúir því að (næstum) allir sem eru á bótum svindli sé sama fólkið og heldur því fram að (næstum) allar konur ljúgi þegar þær segja að þeim hafi verið nauðgað og að allar konur fíli sig í klámiðnaðnum. Fólkið með litluprósentutrúna.

** Þátttakendur skrifa meira og minna undir dulnefni, svo að ég hirði ekki um að nafngreina þau sem skrifuðu (enda sameinaði ég víða), en alla umræðuna má lesa hér. Vonandi átta lesendur sig á að nánast allt í þessari færslu er frá úr athugasemdakerfi Silfurs Egils komið, nema rétt í byrjun færslunnar þar sem ég kynni samantektina.

Efnisorð: , , , , , , ,