föstudagur, júlí 03, 2009

Fulltrúi þess fólks er flokkinn kaus

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir — sem sat í bankaráði Seðlabankans en sagði sig úr þvígefur mjög pent til kynna að það geti verið að Sjálfstæðismönnum þyki bara allt í lagi að Þorgerður Katrín og eiginmaður hennar hafi fengið kúlulán. Kúlulánið var uppá svo stjarnfræðilegar upphæðir að það er venjulegu fólki ofviða að ímynda sér annaðeins. En Þorgerði Katrínu finnst í lagi að höndla með slíkar upphæðir en segja jafnframt því að hún vill ekkert tala um það að allt eigi að vera uppá borðinu. Mótsagnirnar æpa á okkur hin en innan Sjálfstæðisflokksins þykir þetta líklega eðlilegt.

Á sama tíma og þau hjónin voru að velta sér uppúr peningum eins og Jóakim aðalönd létu þau skattgreiðendur borga fyrir sig tvær ferðir til Kína svo þau gætu horft á handbolta.* Það var ekki í síðasta sinn sem leiðir þeirra hjóna og skattgreiðenda sköruðust. Fyrir utan siðblinduna í sambandi við hennar prívat fjármálasukk þá er Þorgerður Katrín auðvitað í því — bæði fyrir og eftir hrun — að passa uppá að „rétta fólkið“ fengi fyrirgreiðslu í kerfinu og hjá bönkunum því hjá Sjálfstæðisfólki eru allir sammála um að peningar eigi að fara þangað sem peningar eru fyrir. Rétt eins og völdin eiga að vera þar sem þau hafa alltaf verið.

Það er rangt hjá Þór Saari að Þorgerður Katrín eigi að segja af sér. Það er ekkert sem hefur gerst frá því að kosið var til þings sem er nýtt; það var vitað um kúlulánið og afskriftirnar. Þegar Þorgerður Katrín tók annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar og var kjörin varaformaður flokksins, þá vissu allir í flokknum um Sjö hægri, eignarhaldsfélagið sem leyna átti kaupunum á hlutabréfunum í Kaupþingi. En Sjálfstæðismönnum finnst þetta bara fínt. Sýnir að varaformaðurinn hugsar eins og þeir. Í þeirra huga er þetta sjálfsagt, rétt eins allt það sem hefur verið gert í nafni frjálshyggju, græðgi, góðæris, útrásar og í öruggu skjóli þess að það kæmist aldrei upp en endaði í algeru hruni. Við hin tölum um siðrof, siðblindu og viljum sjá breytingu. Sjálfstæðismenn vilja ekki sjá neinar breytingar. Ja, nema þeir vilja komast aftur í stjórn og það strax. Til þess eru þeir nú að hamast útaf Icesave (sem þeir áður studdu og samþykktu og skuldbundu).

Þorgerður Katrín er fín fyrir þá. Verði þeim að henni.


___
* Auk launa hennar sem þingmaður og ráðherra voru laun eiginmanns hennar í ríflegri kantinum, þetta uppundir 20 milljónir á mánuði.

Efnisorð: , ,