þriðjudagur, janúar 27, 2009

Milli vonar og ótta

Ef svo fer sem horfir að Vinstri græn og Samfylkingin myndi ríkisstjórn saman og Jóhanna Sigurðardóttir verði forsætisráðherra, þá yrðu það mikil tíðindi og gleðileg. Jóhanna er nánast óumdeild og er orðlögð fyrir ráðvendni og heilindi. Feministar gleðjast auðvitað sérstaklega ef kona verður (loksins) forsætisráðherra og ekki síðra að það sé sjálf heilög Jóhanna. (Það hefði verið súr biti að kyngja ef Ingibjörg Sólrún hefði ætlað sér þetta embætti sjálf, eftir að hafa verið rúmum 100 dögum of lengi í ríkisstjórn með Geir Haarde).

En þessa ríkisstjórn hefði átt að mynda 2007, meðan Samfylkingin hafði ekki þann feril að baki sem hún hefur nú. Ýmis mál er vandséð hvernig verða leyst innan þessarar ríkisstjórnar, komist hún til valda. Mér finnst umræðan um ESB hjóm eitt við hliðina á umhverfismálunum. Nú hefur Samfylkingin löngu sýnt að loforðið um Fagra Ísland er henni ekki heilagt, en mun hún taka það upp að nýju í samstarfi við VG eða halda stóriðju- og virkjanafrekjunni áfram? Og hvað um þetta ógeðfellda útspil fráfarandi sjávarútvegsráðherra Einars Guðfinnssonar, sem í dag tilkynnir að hann leyfi veiðar á stórhvelum? Mun Samfylkingin vera tilbúin að draga það til baka (ég er reyndar ekki einu sinni viss um að VG muni krefjast þess) eða á engu að skipta hvernig við komum fram við umhverfi okkar og dýralíf?

Að auki - og það er kvíðvænlegt - mun þessi ríkisstjórn ekki eiga sjö dagana sæla að reyna að lágmarka þann skaða sem hrun bankanna hefur leitt yfir þjóðina. Ég hef áður sagt að frá því komist líklega engin ríkisstjórn með sæmilegum hætti. Mér þætti leitt ef loksins yrði vinstri stjórn hér og hennar arfleifð verði eingöngu sú að hafa verið við völd á mesta niðurlægingartímabili þjóðarinnar.

Á móti kemur að sé það rétt (enn er allt á getgátustigi í fjölmiðlum og nokkrir dagar geta liðið áður en ríkisstjórn verður mynduð, ef af verður) að til standi að fá utanaðkomandi aðila til að stýra einhverjum hluta fjármálakerfisins, þá eru það frábær tíðindi. Þó ég vilji veg velviljaðra og menntaðra feminista sem mestan er engin skömm að því að viðurkenna að ekki kunnum við öll til allra verka. Sé annað fólk hæfara er um að gera að kalla á það til aðstoðar. Ég skil að einhverju leyti skoðanir þeirra sem vilja bara fá fjármálafólk til að sitja í ríkisstjórn, því ríkið eigi að reka sem fyrirtæki. En í ljósi þess hve fólk sem hefur sérhæft sig í rekstri fyrirtækja á til að vera með annarleg sjónarmið í ákvörðunum sínum og hugsa ekki um almannaheill eða almennt siðferði og góða siði (svo vægt sé til orða tekið) þá þykir mér betra að hafa sitt lítið af hvoru við stjórnvölinn.

Enn eru þetta bara vangaveltur. Ég sveiflast milli þess að óttast um afdrif Vinstri grænna og hugsjóna flokksins (og því hvernig þjóðinni reiðir af, burtséð frá því hver sitja í stjórn) og tilhlökkunar með væntanlega velferðarstjórn. Því Vinstri græn og Samfylkingin undir stjórn Jóhönnu munu sannarlega standa vörð um velferðarmálin, og það eru auðvitað bestu tíðindin. Sem stendur leyfi ég mér að brosa í kampinn og kætast örlítið yfir þeirri tilhugsun að feministar verði ráðherrar og æðsti ráðherrann verði kona.

Efnisorð: , , , , ,