miðvikudagur, desember 03, 2008

Hvernig fyrirtæki er réttlætanlegt að styrkja?

Það var ekki vegna þess að ég vildi sérstaklega auglýsa vörur frá Nestlé sem ég nefndi Mackintosh hér fyrir nokkrum færslum síðan. Ég tengi bara Hagkaup eitthvað svo innilega við þessa vöru; fyrir jól eru slíkar stæður af Mackintosh dósum þar að ég hef hvergi séð annað eins. Og svo á ég líka bernskuminningar sem tengjast þessu sælgæti, enda þótt mér þætti flestir molarnir vondir. Samt var alltaf jafn spennandi að opna nýja dós og ómissandi að foreldrarnir keyptu Mackintosh í Fríhöfninni á heimleið frá einhverjum dularfullum útlöndum.

Nestlé keypti Rowntree, fyrirtækið sem framleiðir Mackintosh (eða Quality Street eins og aðrar þjóðir kalla það) árið 1988. Þá þegar var Nestlé orðið illa þokkað um allan heim vegna þurrmjólkur sem það seldi til fátækra þjóða. Markaðssetningin var sú að ota þurrmjólk að öllum mæðrum - ekki bara þeim sem gekk illa að framleiða brjóstamjólk - á þeim forsendum að þurrmjólkin væri hollari. Oft á tíðum var takmarkaður eða enginn aðgangur að hreinu vatni á þeim svæðum sem þurrmjólk var hampað, en mjólkurduftið þarf að blanda með vatni og setja í sótthreinsaða pela (og til sótthreinsunarinnar þarf líka vatn), með þeim afleiðingum að fjöldi barna dó úr niðurgangi. Að auki var fyrirtækið sakað um rangar og villandi merkingar á umbúðum, sem þaraðauki voru ekki á tungumáli þeirra sem þurrmjólkin var seld til. Frá og með 1977 hefur Nestlé því mátt sæta því að vera sniðgengið (boycott) á Vesturlöndum en 1984 dró úr ásökunum á hendur fyrirtækinu því það undirritaði samning heilbrigðisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (WHO) um hvernig markaðssetja mætti þurrmjólk. Síðan þá hefur fyrirtækið margsinnis orðið uppvíst að því að hunsa samninginn.*

Nestlé er, í stuttu máli sagt, fyrirtæki sem vílar ekki fyrir sér að drepa kornabörn. Þau eru ásættanlegur fórnarkostnaður. Nestlé hefur keypt upp mikið af fyrirtækjum og náð þannig undir sig þekktum vörumerkjum sem fólk áttar sig ekki alltaf á að sé nú orðið að gróðamaskínu fyrir Nestlé. Þannig eru eflaust mörg sem hafa ætlað sér að sniðganga Nestlé en óvart keypt vörur þess. Til hægðarauka fyrir þau sem er ekki sama um ungbarnadauða hef ég sett tengil á síðu þar sem fram koma heiti á vörum Nestlé, þar á meðal eru alþekkt vöruheiti sem fást hér.** Neskaffi og Nesquick kakó eru þar á lista auk sælgætis eins og After Eight, Kit Kat, Smarties - og Gerber barnamatur.

Ég taldi upp fyrir löngu síðan vörur og fyrirtæki sem ég sniðgengi vegna kvenfjandsamlegra viðhorfa sem þau tengdust og sagði þá um leið að ég sniðgengi fleiri vörur og fyrirtæki sem ekki tengdust feminískri baráttu minni og hafði ég þá m.a. Nestlé í huga. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt að neita sér um að kaupa vörur þessa gríðarlega fyrirtækis og eflaust hef ég keypt þær óvart, enda ekki gott að henda reiður á hvaða fyrirtæki það hefur gleypt og merkingar ekki alltaf áberandi. En ég hef þó a.m.k. reynt, enda alger óþarfi að styrkja svona hyski viljandi.

---

*Það má lesa um þurrmjólkurhneykslið og hvernig Nestlé markaðsetur nú þurrmjólk í Bangladesh í þessari grein í Guardian, og hér. en ég fann engar greinar um fyrirtækið á íslensku. Eina skiptið sem það var nefnt í sambandi við þurrmjólk (fyrir utan melanmín hneykslið í Kína, sem er allt annað mál) var á bloggi Stefáns og þá í allt öðru samhengi. Og vona ég að engin hlaupi í vörn fyrir þær konur sem geta ekki verið með börn á brjósti og verða að treysta á þurrmjólk, það er engin að ásaka þær.

**Þegar ég las listann yfir vörurnar varð mér ljóst að ég hafði neitað mér um að borða Toblerone fullkomlega að tilefnislausu, það er hreint ekki framleitt af Nestlé né í eigu þess fyrirtækis! Hjarta mitt fyllist trega vegna óétins súkkulaðis og ljóst er að ég á mikið verk fyrir höndum að bæta mér þetta upp.

— Viðbót: Enn kemur í ljós að Nestlé er síður en svo besti vinur barnanna, heldur notfærir sér þau í þrælkunarvinnu.

Efnisorð: ,