þriðjudagur, ágúst 21, 2007

Hvaða máli skiptir aðferðin?

Það er ekki rétt að ég hati alla karlmenn. Atli Gíslason er til dæmis í algeru uppáhaldi hjá mér. Pistill hans í Fréttablaðinu í dag er svo ágætur að ég birti hann í heild sinni (en vara við að fólk lesi athugasemdahalann á Vísis-síðunni, þar mun margur óhreinn andinn verða á sveimi, sýnist mér) :

Hvenær nauðgar karl?
„Hvenær drepur maður mann og hvenær nauðgar karl konu? Fyrri spurninguna lagði Halldór Kiljan Laxnes í munn sögupersónu. Sú síðari er sprottin úr ömurlegri afstöðu réttarvörslukerfisins til kynbundins ofbeldis. Báðar spurningar varða árásir á friðhelgi einkalífs sem felur í sér dýrmætustu mannréttindi hvers einstaklings.

Friðhelgi einkalífs nær yfir heimili, fjölskyldu, persónulega hagi manns og umfram allt það að hver maður hefur rétt til að ráða yfir eigin líkama og sálarlífi. Og ríkinu og stofnunum þess ber að tryggja að þessi mannréttindi séu virk í reynd en gera það alls ekki þegar kynbundið ofbeldi á í hlut. Því fer þó víðsfjarri. Manndráp og líkamsárásir sæta nær undantekningarlaust refsingum á meðan aðeins er sakfellt fyrir innan við 5% af nauðgunum tilkynntum til lögreglu. Það er sama hvert litið er, til hegningarlagaákvæða, dómsmálayfirvalda, lögreglu, saksóknar og dómstóla, réttarvernd kynfrelsis kvenna er fjarri því að vera tryggð. Fordómar og vanþekking ráða för.

Sárast er að horfa til þess hvernig hegningarlög mismuna konum eftir því hvers konar ofbeldi á í hlut. Í 211. gr. almennra hegningarlaga segir einfaldlega: Hver, sem sviptir annan mann lífi, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt.

Það skiptir nákvæmlega engu máli hvernig maður drepur mann, það er alltaf refsivert. Líkið er sönnun fyrir verknaðinum, ekki aðferðin við manndrápið. Lögfræðin talar um hertan ásetning þegar morðið er fyrirfram skipulagt og þokukenndan ásetning þegar hann myndast rétt í þann mund sem manndrápið er framið. Skorti sönnun fyrir ásetningi er gerandanum refsað fyrir manndráp af gáleysi. Einnig fyrir líknarmorð. Sama gildir um líkamsárásir. Þar ræður áverkinn sönnun hvernig svo sem honum er valdið. Svo fremi að sá finnist sem valdur er að áverkunum er honum refsað.

Þegar kemur að kynbundnu ofbeldi gjörbreytist staðan.

Nauðgunarákvæði alm. hgl. er svohljóðandi: Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum.

Hér skiptir verknaðaraðferðin öllu máli. Afleiðingar nauðgunar hverfa í skuggann fyrir aðferðinni og samþykki þolandans er aukaatriði. Hún ber sönnunarbyrði fyrir að hafa sagt nei. Bílum, bréfum og híbýlum er veitt meiri réttarvernd en líkömum og sálarlífi kvenna. Samkvæmt alþjóðlegum sjúkdómsgreiningarskrám er áfallið í kjölfar nauðgunar talið sambærilegt því sem einstaklingar verða fyrir eftir stórfelldar náttúruhamfarir, stríðsátök og stórslys. Það er sameiginlegt með þessum aðstæðum að þolandinn hefur það ekki í hendi sér hvort hún lifir eða deyr. Fyrstu viðbrögð þolanda nauðgunar eru doði, tómleiki, óraunveruleikatilfinning, brenglað tímaskyn, spenna ásamt öðrum áfallseinkennum. Líkamleg viðbrögð, skjálfti, hraður hjartsláttur, kviðverkir, niðurgangur, ógleði, uppköst, svimi, hræðsla, óöryggi, eyrðarleysi, grátköst og ótti eru mest áberandi. Hvaða kona kemur þannig frá sjálfviljugum samförum?

Langtíma afleiðingar eru meðal annars skömm, sektarkennd, léleg sjálfsmynd, depurð, þunglyndi, svefntruflanir, einangrun, svipmyndir og upplifanir tengdar ofbeldinu og tilfinningalegur doði. Afleiðingarnar eru mun alvarlegri til langs tíma litið. Þolendurnir þróa með sér varanlegan sjúkdóm sem mótar alla þeirra tilveru til frambúðar. Hætta er á sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum. Talið er að allt að 60% til 70% kvenna með geðraskanir og kvenna sem missa tök á lífi sínu, lenda í neyslu fíkniefna og eða afbrotum, eigi að baki sögu um kynferðislegt ofbeldi.

Þrátt fyrir að þessar tímabundnu og varanlegu afleiðingar nauðgana séu sannreyndar og þar með séu löglíkur fyrir fullframinni nauðgun dugir það ekki til sem sönnun og ofbeldismennirnir sleppa refsilaust í langflestum tilvikum. Þetta ástand eru ólíðandi. Af hverju er nauðgunarákvæði alm hgl. ekki orðað með sama hætti og manndrápsákvæðið, eða þannig?: Hver, sem gerist sekur um nauðgun, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 3 ár, eða ævilangt.

Ég ákæri íslensk dómsmálayfirvöld og réttarvörslukerfið fyrir að láta kynbundið ofbeldi, þessi einkalífsmorð, viðgangast átölulítið og það þótt Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hafi lýst þungum áhyggjum sínum vegna ofbeldis gegn konum á Íslandi í skýrslu frá árinu 2005. Í skýrslunni gerði finnskur sérfræðingur eftirfarandi athugasemd: „Were all the women lying or did authorities just not care? Was the message that women should just not report the cases because they would only get into trouble."

Stjórnvöld og réttarvörslukerfið hafa í verki margsinnis svarað spurningum þessa finnska sérfræðings játandi. Konur lenda bara í meiri sálarháska með því að kæra. Það er mál að þessu ófremdarástandi linni.“

Efnisorð: , ,