mánudagur, júní 18, 2007

Útilokandi leikreglur

Þegar konur fóru að benda á ýmislegt óréttlæti í samfélaginu og að konur væru beittar líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, var sagt að þetta væri allt byggt á tilgátum, getgátum og sögusögnum og þær vinsamlega beðnar um að leggja fram tölfræðilegar staðreyndir.

Þegar konur voru almennt minna menntaðar en karlar, voru ekki með stúdentspróf eða bara með stúdentspróf en karlar með háskólapróf, þá var ástæða þess að þær fengju síður störf eða síður háar stöður sögð vera menntunarleysi þeirra og að menntun skipti öllu máli þegar ráðið væri í störf.

Nú, þegar endalausar kannanir og rannsóknir hafa verið gerðar á stöðu kvenna og tölfræðilegar upplýsingar liggja fyrir í hrönnum, þá eru útreikningarnir rangir (launamunurinn), fimm prósentin skipta meira máli en 95% (t.d. í klámumræðu) og það að tölfræðilegar upplýsingar séu yfirleitt lagðar fram sýni fram á ofsóknaræði feminista og að frelsi skipti í raun mestu máli, burtséð frá allri tölfræði.

Konur sækja háskóla núorðið meira og hafa ekki síðri og oft meiri menntun en karlmenn sem sækja um sömu stöður eða bjóða sig fram til starfa (þ.á.m. í framboðum), þá skiptir alltíeinu reynsla meira máli við mannaráðningar, svo og ‘keppnisskap’ eða álíka mannkostir.

Merkilegt hvað reglurnar breytast ört eftir því sem reynt er að aðlagast þeim. Eða ölluheldur, þegar konur fóru að láta eins og þær skiptu einhverju máli.

Efnisorð: , , , ,